Lifðu núna hringdi í nokkrar verslanir og spurðist fyrir um hvernig fólki gengi að muna PIN númerin, þegar ekki er lengur hægt að ýta á græna takkann á posanum til að greiða fyrir vörur og þjónustu og allir verða að muna PIN númerin sín. Þetta fyrirkomulag tók gildi á mánudaginn. Hjá Lyf og heilsu í Austurveri í Reykjavík höfðu engin vandamál komið upp, vegna viðskiptavina sem ekki mundu PIN númerin. „Maður bjóst við að það yrði meira, sérstaklega hjá eldra fólkinu, en það bara man þetta“ var svarið sem fékkst þar og sömu sögu var að setja hjá BYKO í Reykjanesbæ. Þar höfðu engin vandamál komið upp, en vitað var um einn ungan mann sem ekki hafði verið með PIN númerið á hreinu. „Hér er allt í sóma“ sagði ung kona sem rætt var við þar.
Flestir muna númerin
Hjá Krónunni á Grandanum í Reykjavík höfðu þrír eða fjórir ekki verið með númerin sín á hreinu í gærkvöldi, en ýmist fóru þeir og sóttu þau eða greiddu með peningum. Þar fengust þau svör að flestir myndu PIN númerin sín nú orðið og græni takkinn hefði ekki verið mikið notaður. „Eldra fólkið er með þetta allt á hreinu og tekur þetta kannski alvarlegar en þeir sem yngri eru“, sagði maður sem við ræddum við í Krónunni.
Vanir að muna Pinnið
Hjá Íslandsbanka höfðu menn heldur ekki orðið varir við vandamál sem tengdust PIN númerunum. Guðný Helga Herbertsdóttir upplýsingafulltrúi bankans segir að menn hafi haft langan aðdraganda og áður en breytingin tók gildi á mánudag, hefðu 90% færslna lokið með því að menn stimpluðu inn PIN númerin sín. Menn væruorðnir vanir því að leggja þau á minnið. Hins vegar væri Íslandsbanki nú að bjóða uppá þá nýjung að viðskiptavinir gætu valið PIN númerin sín með kortunum sjálfir og gætu valið að hafa sama númerið fyrir bæði debet og kreditkort.
Betra að velja PIN númerin sjálfur
Guðný Helga sagði að þetta væri meðal annars gert vegna kröfu viðskiptavina sem sumir hefðu kynnst þessari nýjung í útlöndum. Hún sagði að það væri mat bankans að það drægi ekki úr öryggi að hafa sama PIN númer á tveimur tegundum korta. Það hefði komið fyrir að menn hefðu geymt númerin hjá kortunum af því að þeir hefðu átt í erfiðleikum með að muna þau, en slíkt fyrirkomulag væri alveg á ábyrgð viðskiptavinarins. Ef veskið týndist með korti og PIN númeri væri hann ábyrgur. Ef menn veldu númerin sjálfir, væru mun meiri líkur á að þeir myndu þau. Rétt er að taka fram að ef fólk getur ekki munað PIN númerin sín vegna fötlunar eða sjúkdóms er hægt að sækja um undanþágu í bankanum.