Greip konuna og giftist henni

Börkur með starfsfólki tannlæknastofunnar og Öddu Gerði sem aðstoðaði á stofunni áður en hún veiktist. Til vinstri eru Bryndís Rán og Lilja.

Börkur með starfsfólki tannlæknastofunnar og Öddu Gerði sem aðstoðaði á stofunni áður en hún veiktist. Til vinstri eru Bryndís Rán og Lilja.

„Af hverju að hætta þegar ég er loksins farinn að kunna eitthvað í þessu“, spyr Börkur Thoroddsen tannlæknir sem er kominn yfir sjötugt og er enn að vinna. Hann vinnur 7 klukkutíma á dag, fjóra daga vikunnar og segist eingöngu sjá um sínar klínisku tannlækningar, en stúlkurnar á stofunni sjái um allt annað.  Hann mætir í vinnuna klukkan 7:30 á morgnana til að fara yfir daginn og undirbúa sig.  Fyrsti sjúklingurinn kemur svo klukkan 8:00.  Berki finnst „sjúklingur“ að vísu ekki rétta orðið yfir þá sem leita til tannlæknis, nema þeir séu með bólgur og verki.  Honum finnst „kúnnar“ heldur ekki ná þessu nógu vel og segist kalla þá sem koma til hans „pasíenta“.  Hann segir vinnuna léttari núna þegar hann er kominn með svona mikla reynslu og stressið minna en þegar hann var yngri. „Svo er ágætt að þurfa ekki að taka út lífeyrissparnaðinn, ég hef laun á meðan ég er að vinna“, segir hann.

Algert frelsi í vesturbænum

Börkur ólst upp í Vesturbænum, fyrst í Garðastræti og seinna á Ásvallagötu. Faðir hans var Birgir Thoroddsen sem var skipstjóri hjá Eimskipafélaginu. Hann var ættaður að vestan, frá Vatnsdal í Patreksfirði. Móðir hans var Hrefna Gísladóttir Thoroddsen frá Seyðisfirði. „Þau kynntust í Kaupmannahöfn þegar mamma var á húsmæðraskóla í Danmörku, en pabbi í siglingum þangað“, segir Börkur. „Það var algert frelsi að alast upp í vesturbænum.  Við fórum í Slippinn og niður á höfn sem var mikið ævintýri. Þar var okkar leiksvæði. Það skipti sér enginn af því sem við vorum að gera.  Ætli foreldrar yrðu ekki hnepptir í fangelsi í dag ef þeir leyfðu börnunum að haga sér svona“, segir hann og hlær.

Fengu gallabuxur og MacIntosh

Börkur ólst upp með foreldrum sínum og tveimur bræðrum, Gísla og Ragnari, en Gísli féll frá fyrir ári síðan.  „Pabbi kom heim með hluti frá útlöndum sem voru ekki til hér“ rifjar Börkur upp frá þeim tíma þegar faðir hans var stýrimaður á Gullfossi. „Við bræðurnir gengum í gallabuxum sem var óvenjulegt og fengum MacIntosh. Þetta var sjarminn við farmennskuna þá, sem ég held að sé ekki lengur. Ég var farmaður í sjö sumur, á meðan ég var í skóla.  Þá var þérað í þriðju persónu um borð í skipunum. „Má bjóða brytanum kaffi?“ var spurt en ekki sagt „ má bjóða yður…“ við brytann og maður ávarpaði skipstjórann á Gullfossi ekki af fyrra bragði“.

Leiddist í MR

Þegar Börkur var lítill drengur að alast upp í vesturbænum var oft mikill snjór í hverfinu. „Maður gat grafið sér göng í gegnum snjóinn“ segir hann „Ég fylgdist líka vel með skipunum. Var með skipadellu, þekkti skipin og fannst gaman að fylgjast með þeim koma og fara“.  Leið Barkar lá í Melaskólann, þaðan í þann sögufræga skóla Gaggó Vest og eftir landspróf fór hann í MR. „Mér leiddist í MR. Sumir sáu skólavistina í rósrauðum bjarma en það gerði ég ekki. Ég var slappur nemandi til að byrja með og hafði lítinn áhuga á náminu.  Ég ætlaði að verða sjómaður. En svo tók ég mig á og þá kom áhuginn. Ég hugsaði að það væri best að taka þetta með stæl, fyrst ég var að þessu á annað borð“.

Ómaklega að tannlæknum vegið

Börkur og Adda Gerður á góðri stund

Börkur og Adda Gerður á góðri stund

Börkur ákvað að leggja fyrir sig tannlækningar eftir stúdentspróf og þá sagði einn frændi hans „Jæja, þú ætlar að verða ríkur“. En Börkur hafði ekki velt fyrir sér þjóðsögunni um ríkidæmi tannlækna og fannst þetta einfaldlega áhugavert lífsstarf. Honum fannst oft  ómaklega að tannlæknum vegið og segir að eitt sinn hafi hann verið í sundlaugunum og þá hafi vikið sér að honum maður og spurt hvort hann væri ekki tannlæknir. Þegar hann játti því sagði maðurinn „Þú ættir að skammast þín“. Þegar Börkur kom heim frá námi í Danmörku ásamt Öddu Gerði Árnadóttur  eiginkonu sinni, settist hún á skólabekk og tók stúdents próf.  „Hún sagði ekki nokkrum manni frá því að eiginmaður hennar væri tannlæknir, svo brennd vorum við bæði af þessu slæma orðspori tannlækna“, segir Börkur. „Þeir fáu sem komust að leyndarmálinu voru alveg hissa á því að Adda Gerður gengi ekki í minkapels daglega og æki ekki um á Bentley eða Jagúar“.

Tóku sama strætó

Adda Gerður lést fyrir hálfu öðru ári síðan  eftir baráttu við krabbamein. Þau Börkur höfðu vitað hvort af öðru síðan þau voru börn og gengu bæði í Melaskóla. Þau endurnýjuðu kynnin í strætó, þegar hún var að vinna í Landsbankanum á Laugavegi 77, en Börkur var í tannlæknadeildinni sem þá var til húsa í kjallara Landsspítalans. Þá tóku þau sama strætisvagninn í vinnuna. „Svo datt hún eitt sitt út úr strætó og ég greip hana“, segir Börkur „Þetta var Austurbær Vesturbær hraðferð“ bætir hann við.  Teningunum var kastað. Þau trúlofuðu sig og giftust í júlí  árið 1966. Síðan héldu þau til Danmerkur þar sem Börkur lauk sínu tannlæknanámi.  Börn þeirra eru fjögur. Birgir sem er rafmagnsverkfræðingur í Stavanger í Noregi, Valgerður líffræðingur sem býr í Orlando á Florida, Hrefna er starfsmannastjóri hjá DeCode og Harpa deildarstjóri hjá Valitor.  Barnabörnin eru 7. „Talandi um vesturbæinn og frelsið“, segir Börkur „Þá fylgist ég með Magnúsi litla dóttursyni mínum í Orlando. Hann fer ekkert út nema mamma hans sé með. Það er óskaplega gott að ala upp börn á Íslandi. Þegar Birgir sonur okkar og Helga konan hans eignuðust sitt fyrsta barn, unnu þau í Silicon Valley í Kaliforníu. Þegar dóttir þeirra fæddist ákváðu þau að flytja heim, því þau vildu að börnin yrðu Íslendingar. Nú eru þau norsk-íslensk en það er ekki svo mikill munur“, segir hann og brosir.

Forsetar nota möppur sem Adda hannaði

Guðni Th Jóhannes þegar hann tók við embætti, með möppuna sem Adda hannaði

Guðni Th Jóhannes þegar hann tók við embætti, með möppuna góðu

Adda Gerður tók að lokum próf frá Kennaraskólanum sem handavinnukennari.  Hún kenndi ekki, en sneri sér að hönnun og hannaði til dæmis möppur úr laxaroði sem eru notaðar við innsetningu forsetans í embætti. „Þegar forsetinn kemur út á svalir og veifar, heldur hann á möppu sem Adda hefur hannað. Eftir að hún lést tók Valgerður dóttir okkar við keflinu og hannaði möppur sem voru notaðar þegar Guðni Th Jóhannesson var settur í embættið í sumar“, segir Börkur.  Adda lést í febrúar 2015. Það var mikið reiðarslag fyrir fjölskylduna. „Hún fékk krabbamein og sjúkdómsferlið  tók 18 mánuði. Hún fór í gegnum erfiða lyfjameðferð en ákvað sjálf að hætta henni, þegar í ljós kom að hún bætti líf hennar ekkert“. Börkur er mjög ánægður með heilbrigðiskerfið og þá umönnun sem Adda fékk á Landsspítalanum. „Þegar maður horfir á það frábæra fólk sem annaðist hana, fyrst á kvennadeildinni, síðan krabbameinsdeildinni og að lokum á líknardeild, er ekki annað hægt en að dást að því hvað það er ótrúlega hæft og „professional“ í öllum sínum störfum. Það sætti sig við hvað aðstaðan er léleg, svaraði öllum spurningum og útskýrði allt sem var að gerast. Þetta var ótrúlegt“.

Lífið tekur aðra stefnu

„Það sem mér fannst mikilvægast, því að ég var viss um að ég myndi falla frá á undan Öddu, var að hún myndi búa við fjárhagslegt öryggi þegar ég væri fainn“, segir Börkur. En það fór á annan veg og líf  hans hefur tekið aðra stefnu. „Ég er náttúrulega að vinna og er feginn að hafa ekki verið hættur að vinna þegar hún lést“, segir hann. „Ég er ekki að vinna of mikið. Þetta er alveg mátulegt fyrir mig. Ég tek líka góð frí á milli, gott sumarfrí og jólafrí. Núna var ég að koma frá Berlín. Áður ferðuðumst við saman, nú ferðast ég einn og það er öðruvísi. Ég þarf að passa uppá allt sjálfur, það er enginn annar sem sér um þetta með mér.  Ég á tvær dætur á Íslandi og eigum við ekki að segja að þær passi uppá mig? Ég fer í mat einu sinni í viku til hvorrar“. Börkur er líka í sambandi við börnin sín í útlöndum og tekur auk þess þátt í ýmiss konar félagstarfi.

Hefur nóg að gera

Börkur með ungum skólasystrum í Barcelona í sumar

Börkur með ungum skólasystrum í Barcelona í sumar

„Ég gæti þess að hafa nóg fyrir stafni“, segir Börkur sem fer einu sinni í viku á fund í Rotarýklúbbi og einu sinni í viku á Frímúrarafund.  Hann syngur líka í Frímúrarakórnum. „Ég held að það sé það sem ég hef einna mest gaman af. Þetta er svo góður félagsskapur. Ég hitti líka gamla vini úr skátunum, við kynntumst þegar við vorum unglingar. Það er óskaplega gaman að hittast og við höfum haldið hópinn öll þessi ár, nú erum við 16 í hópnum“. Börkur fer svo einu sinni í viku að læra að spila á klassiskan gítar og er í spænskunámi. Hann segir gítarnámið sækjast seint. Fyrir áratugum var hann í gítarnámi í Tónskóla Sigursveins. „Ég er gítarleikarinn sem ekkert varð úr, ég varð bara tannlæknir á meðan skólafélagarnir fóru að spila á konsertum“, segir hann og hlær. Síðast liðið sumar fór hann hins vegar á tveggja vikna  sumarnámskeið í spænsku í Barcelona og ætlar að halda spænskunáminu áfram.

Hefur reynt að efla ímyndina

Börkur var gerður að heiðursfélaga í Tannlæknafélagi Íslands á síðasta ári. Hann var formaður félagsins og er búinn að vera formaður Hag og rekstrarnefndar þess í aldarfjórðung. Grípum niður í kafla í skýrslu sem hann skrifaði nýlega.  „Ég er þeirrar skoðunar að samningurinn um tannlækningar barna og unglinga frá 13. mai 2013 hafi verið gott skref fyrir fjölskyldur á Íslandi. Ekki síður fyrir tannlækna, því að ímynd stéttarinnar var í húfi. Áreitið frá stjórnvöldum og fjölmiðlum var orðið ansi þreytandi. Hamast var á að tannlæknar væru skúrkar, sem myndu nota hvert tækifæri til að reyna að fá sem mestan pening út úr kerfinu ef samið yrði við þá. Nú kveður við annan tón. Það er ekki við tannlækna að sakast að eigingreiðsla öryrkja og aldraðra er of há. ,,Þetta er afar óheppileg staða og ekki viðunandi” segir heilbrigðisráðherra og segir að í undirbúningi séu tillögur um að hækka kostnaðarhlutdeild ríkisins. Tryggingatannlæknir segir í Fréttablaðinu hinn 22. ágúst 2016 um endurgreiðsluskrá Sjúkratrygginga: ,,Sú gjaldskrá hefur hins vegar ekki hækkað síðan árið 2004. Hún dregst því alltaf meira og meira aftur úr verðlagningu hjá tannlæknum“.

 

 

 

 

 

Ritstjórn október 7, 2016 11:36