Aftur til Afríku

Anna Elísabet Ólafsdóttir lýðheilsufræðingur hefur loksins pantað flug til Tansaníu í júlí eftir eins og hálfs árs fjarveru af völdum kórónuveirufaraldursins. Hún hlakkar mjög til þess að komast aftur á bújörðina sína, TanzanIce Farm, sem hún rekur ásamt eiginmanni sínum í norðurhluta landsins. „Nú er ég fullbólusett og tel mér því óhætt að fara utan til að hitta starfsfólkið mitt og vini mína. Það er kannski ekki sniðugt að vera mikið á ferðinni, en ég passa mig á leiðinni og er nokkuð örugg þegar ég er komin á áfangastað.“

Ferðamaður sem hóf þróunaraðstoð

Anna fór fyrst til Tansaníu sem ferðamaður árið 2005 og heillaðist af samfélagi íbúanna engu síður en náttúrufegurðinni. Hún tók strax þá ákvörðun að hún skyldi láta gott af sér leiða í einu fátækasta ríki heims. Frá árinu 2008 hafa þau hjónin verið að byggja upp landareignina sína, læra af heimamönnum og kenna þeim. „Verkefni okkar hefur verið að styðja við nærsamfélagið og stuðla að frumkvöðlastarfsemi og nýsköpun og efla sjálfsöryggi heimamanna, ekki síst kvenna, nokkuð sem að lokum dregur úr fátækt og stuðlar að bættri heilsu og vellíðan. Leiðarljós okkar hefur ekki síst verið heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.“

TanzanIce-býlið.

Auk þess að byggja leikskóla og opna frumkvöðlasetur ræktar Anna mismunandi tegundir af grænmeti og ávöxtum á jörðinni, jafnvel hnetum, bæði í atvinnuskyni og til heimilisnota. „Við ræktum lauk, hvítlauk, tómata, vatnsmelónur o.fl., en við erum einnig með hefðbundna ræktun eins og maís og baunir. Við höfum gróðursett nokkur ávaxtatré og erum að uppskera ástaraldin, banana, papaja, súraldin, sítrónu og lárperu. Síðustu ár höfum við verið að tileinka okkur vistrækt (e. permaculture) sem felur í sér að nota auðlindir á sjálfbæran hátt.“

Mikill munur er á landareigninni nú og frá því að Anna hóf að yrkja jörðina. „Margir halda að ég hafi fengið land þar sem einhver hús voru fyrir sem ég hafi síðan bara þurft að endurbæta. En það var nú ekki alveg svo. Jörðin var auð og tóm, ekkert vatn og ekkert rafmagn. Við þurftum að byrja á því að girða svæðið af til að halda geitum og öðrum búfénaði fjarri. Síðan höfum við borað eftir drykkjarvatni, en til búskapar söfnum við regnvatni af húsþökunum. Við höfum viljandi ákveðið að hafa ekki sundlaug á staðnum þar sem vatn er auðlind sem flestir þorpsbúar hafa mjög takmarkaðan aðgang að, jafnvel til drykkjar. Við látum okkur einnig sorphirðu varða og endurvinnum úrgang eins og kostur er.“

Fyrir og eftir. „Ég get í raun ekki tekið yfirlitsmynd af jörðinni lengur nema með dróna, svo gróðursæll er þessi reitur orðinn,“ segir Anna.

Hagnýt menntun

Saman hafa þau hjónin getað miðlað af þekkingu sinni og reynslu við nokkuð frumstæðar aðstæður, en menntun þeirra og reynsla hefur nýst vel í aðstæðunum. „Fyrsta háskólanámið mitt var í matvælafræði, þar sem ég kannaði m.a. hvernig á að varðveita mat og forðast skemmdir,“ segir Anna. „Ég tók síðan meistaragráðu í næringarfræði við háskólann í Ósló og MBA-gráðu við Háskóla Íslands. Síðasta prófgráða mín var doktorsgráða í lýðheilsufræðum. Ég hef tekið að mér ýmis rannsóknarverkefni sem tengjast heilsu manna og líðan, þar á meðal í Tansaníu.“

Anna var forstjóri Lýðheilsustöðvar Íslands árin 2003–2008 sem síðar rann inn í Embætti landlæknis. Hún starfaði sem sérfræðingur hjá rannsóknarmiðstöðinni Ifakara Health Institute í Tansaníu 2011–2013 og bjó þá ein í Dar es Salaam. Hún var aðstoðarrektor Háskólans á Bifröst 2013–2017 og sviðsstjóri þróunar- og alþjóðasviðs skólans. Hún hefur því víða komið við. „Ég hef einnig stundað næringarráðgjöf í mörg ár. Þetta hefur allt gagnast mér vel í verkefnum mínum í Tansaníu.“ Frá árinu 2017 hefur Anna starfað sem sérfræðingur í lýðheilsumálum hjá Kópavogsbæ.

Viðar Viðarsson, eiginmaður Önnu, dansar með þorpsbúum.

Viðar Viðarsson, eiginmaður Önnu, er með meistaragráðu í rafmagnsverkfræði og aðra í fjármálum fyrirtækja. Hann hefur aðallega starfað á sviði upplýsingatækni, sem verkefnastjóri, sviðsstjóri og forstjóri. Viðar starfaði lengi sem sérfræðingur í fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans og stofnaði dótturfélag Creditinfo í Tansaníu. Nú sinnir hann stundakennslu við Háskólann í Reykjavík auk þess að annast reksturinn í Tansaníu.

Covid veldur óvissu

Áður en heimsfaraldurinn braust út fór Anna allt að fjórum sinnum á ári til Tansaníu og dvaldist þar stundum lengri tíma. Þetta hafa því verið mikil viðbrigði fyrir hana, að komast ekkert út, en hún var síðast á ferðinni í október 2019. „Þökk sé snjallsímunum, þá hefur gengið ágætlega að vera í samskiptum við starfsfólkið mitt, en við höfum getað fundað í gegnum WhatsApp-smáforritið.“

En hvernig hefur heimsfaraldurinn leikið Tansaníu? „Ég hef spurst fyrir í mínum vinahópi um hvernig málum sé háttað og fæ þau svör að lítið sem ekkert sé talað um faraldurinn, það séu litlar sóttvarnir og grímunotkun takmörkuð. Forseti Tansaníu, John Magufuli, lést óvænt í mars sl. og sögusagnir hafa verið á kreiki um að hann hafi dáið úr Covid. Því hefur alfarið verið hafnað en hann neitaði alltaf að það væri eitthvert Covid-ástand í landinu. Mig minnir að stjórnvöld hafi skráð rétt liðlega 500 tilfelli og 25 dauðsföll, en þau hættu öllum skráningum í apríl 2020. Við forsetaembættinu tók varaforsetinn, sem er kona, Samia Suluhu Hassan. Hún er ekki aðeins fyrsti kvenforsetinn í Austur-Afríku, heldur er hún einnig múslími enda þótt múslímar séu minnihlutahópur í Tansaníu. Hún hefur tekið upp aðra stefnu en forveri sinn og afneitar ekki Covid, hún hefur t.d. sést með grímu, nokkuð sem forveri hennar gerði ekki. Það verður áhugavert að fylgjast með hinum nýja forseta.“

Þróunaraðstoð í bland við ferðaþjónustu

Anna með samstarfsfólki sínu. Bújörðin er rekin af konum.

Anna og Viðar stofnuðu fyrirtæki utan um rekstur bújarðarinnar sem heitir Humec, en það er stytting á „human and ecology“. „Við völdum þetta nafn af því að okkur langaði að leggja áherslu á umhverfið og fólkið fyrst og fremst,“ segir Anna. „Þegar við lögðum af stað með þetta, þá var ég knúin miklum áhuga á að leggja lið þessari fátæku þjóð. Ég veit að ég bjarga ekki heiminum, en við erum bara alveg nógu rík á Vesturlöndum til þess að þurfa ekki að hafa svona ástand annars staðar í heiminum. Ég lagði af stað í þetta ævintýri með þessu sjónarmiði, við vorum t.d. ekkert að hugsa um ferðaþjónustu eða gistiaðstöðu framan af, það var nokkuð sem kom seinna.“

Þau hjónin reistu lítið hús á landareigninni árið 2009 til þess að hafa eitthvert afdrep. „Svo þegar ég var að verða fimmtug árið 2011 gaf ég út yfirlýsingu um ég hygðist halda upp á afmælið mitt í Tansaníu. Ég átti auðvitað ekki von á því að nokkur legði í svo langt ferðalag til að samfagna mér, en það komu að lokum 45 manns og við héldum mikla veislu. Ég gerði þetta að vísu með góðum fyrirvara og þegar við sáum í hvað stefndi ákváðum við að reisa annað hús á jörðinni til að reyna að hýsa sem flesta. Þetta var í rauninni byrjunin á því að við fórum að bjóða gistingu og ferðaþjónustu 2012–2013. Við þjálfuðum konurnar sem reka býlið og buðum þeim m.a. til Íslands í því skyni, tvær þeirra hafa komið fimm sinnum hingað til lands. Þegar eftirspurnin fór svo að aukast ákváðum við að ráðast í endurbætur, af því að með aukinni eftirspurn jukust einnig kröfurnar. Það voru því mikil útgjöld 2017 til að bæta aðstöðuna, en 2018–2019 fórum við loksins að geta staðið undir okkur.“

Gistiaðstaðan skoraði hátt hjá ferðaveitunni Booking.com árið 2018, en þá fékk TanzanIce 9,2 í einkunn af 10. „Þetta hefur gengið ágætlega, en það er ekki síst hugmyndafræðinni að þakka sem býr að baki, frumkvöðlanámskeiðunum, leikskólanum okkar, sjálfbærri þróun, lífrænni ræktun, samfélagslegri ábyrgð og síðast en ekki síst starfsfólkinu. Starfsfólkið okkar er einstakt og vinnur sína vinnu svo vel að þeir sem gista hjá okkur geta ekki annað en hrifist af því. Ég veit ekki um neinn Íslending sem hefur verið óánægður með dvölina hjá okkur, flestir hafa talað um að hluti af hjartanu hafi orðið eftir þegar þeir fóru frá okkur.“

Ekki fullt starf enn

Anna með Oliva Joseph Surumbu á jólarölti á Skólavörðustíg 22. desember 2019.

Anna hefur ekki getað haft atvinnu af rekstrinum á býlinu. „Ég hef ekki haft nein laun af þessum rekstri, það hafa bara verið útgjöld, nema 2018–2019 þegar reksturinn stóð undir sér. Heimsfaraldurinn setti síðan reksturinn á hliðina. Þetta hefur að vísu alltaf verið dálítið basl, ég hef t.d. ekki getað haft af þessu atvinnu og hef því alltaf verið í fullu starfi annars staðar. Þá þarf maður að semja við vinnuveitanda um að fá að fara og sinna þessu. Ég hef yfirleitt ekki verið lengur en mánuð í senn úti. Ég er mjög þakklát vinnuveitendum mínum sem hafa sýnt þessu áhugamáli mínu mikinn skilning.“

Anna stofnaði félagasamtökin Women Power Association árið 2015 til að hefja frumkvöðlastarf með konum í Tansaníu. „Við höfum verið að fá styrki til að halda námskeið fyrir konur. Ég hef því stundum getað tengt þetta tvennt saman, að hitta fólkið sem sér um reksturinn á bújörðinni og að halda frumkvöðlanámskeið. Við höfum nýverið sótt um styrk hjá utanríkisráðuneytinu til þess að halda þessu starfi áfram. Ef hann fæst verður honum varið að öllu leyti til vistræktar í þetta sinn. Vistrækt snýst um að vinna allt á staðnum og reyna að sóa engu. Í staðinn fyrir að vera með áburðargjöf, svo að dæmi sé tekið, þá er hægt að hafa hænur í neti á reitum sem þurfa á áburði að halda. Fólkið á kannski ekki mikinn pening, en það á hænur.“

Anna segir að starfið í Tansaníu hafi kennt sér afar margt og mótað lífsafstöðu hennar meira en hún hefur áttað sig á nú þegar hún er komin á miðjan aldur. „Ég hef eignast marga góða vini sem eru mér afar kærir. Ég sendi nýverið bæjaryfirvöldum í þorpinu okkar skriflega beiðni um að þau ynnu með okkur áfram í þessu verkefni sem bíður okkar ef við fáum styrkinn sem við höfum sótt um. Ég fékk svarið: „Er Anna ekki búin að gleyma okkur þrátt fyrir Covid?“ Það verður ánægjulegt að snúa aftur og halda áfram með það starf sem við hófum fyrir nærri 13 árum.“

Anna segist oft hafa látið sig dreyma um að sinna þessu starfi að fullu. „Draumurinn var að þegar maður yrði eldri og hætti að vinna, þá gæti maður búið þarna, en við sjáum til með það. Nú eru komin barnabörn sem gaman er að umgangast og því ekki hlaupið að því að vera langdvölum úti.“

Með frægustu þjóðgarða heims í túnfætinum

TanzanIce Farm er staðsett rétt utan við bæinn Karatu í norðurhluta Tansaníu. Nokkrir af frægustu þjóðgörðum heims eru aðeins í stuttri akstursfjarlægð frá býlinu. „Við erum bara í 10 mínútna akstursfjarlægð frá aðalhliðinu inn í Ngorongoro-þjóðgarðinn. Við heyrum oft í híenum á nóttunni. Hent hefur að fílar hafi komið inn á landareignina og étið hluta uppskerunnar.“

Auk Ngorongoro-þjóðgarðsins er stutt í Lake Manyara og Tarangire, að ógleymdum savannasléttunum í Serengeti. Ferðamenn sem gista hjá Önnu fara gjarnan í safaríferðir yfir daginn í þessa þjóðgarða til að skoða dýralífið. „Í Ngorongoro-gígnum er einstakt dýralíf, en þjóðgarðurinn hefur verið á heimsminjaskrá UNESCO síðan 1979. Lake Manyara-þjóðgarðurinn er paradís fuglaskoðarans, en þar má finna yfir 400 fuglategundir. Þar er einnig tjörn með flóðhestum við annan enda garðsins þar sem gestir geta farið út úr bílum sínum og fylgst með úr öruggri fjarlægð.“

„Tarangire-þjóðgarðurinn er þekktur fyrir þéttar fílahjarðir og mikilfengleg baobab-tré og því ekki síður vinsæll ferðamannastaður,“ segir Anna. „Algengt er að fara dagsferðir frá okkur. Við höfum líka skipulagt gönguferðir svo að gestir okkar geti kynnst mannlífinu, farið á markaðinn og verslað og kynnst heimafólki. Algengt er að vera hálfan mánuð. Ein íslensk kona hefur komið til okkar þrisvar og verið lengri tíma og tekið þátt í bústörfunum.“

Vill efla heilsutengda ferðaþjónustu

Setustofan.

Þegar Anna er spurð hvað framtíðin beri í skauti sér segist hún ganga með þann draum að samþætta betur heilsueflingu og ferðaþjónustu. „Við erum ekki ferðaskrifstofa, höfum ekki slíkt leyfi á Íslandi þótt við höfum það í Tansaníu, en við höfum aðstoðað fólk við að kaupa farseðla og dveljast hjá okkur. Á bújörðinni getum við boðið lífrænt ræktað grænmeti og ávexti. Það er hægt að hafa hugleiðslu, bjóða hugræktargöngur og nærast á hollum og góðum mat í bland við að upplifa stórkostlega náttúru og dýralíf. Hér er hægt að bjóða gestum að leiðbeina litlum börnum sem eru bláfátæk. Þú þarft ekki að gera mikið til að gera rosalega mikið fyrir slík börn,“ segir Anna.

Hún segist brenna fyrir því að ferðir til TanzanIce Farm verði settar í samhengi við heilsuna og upplifunina af því að gefa af sér. „Slík ferðamennska höfðar kannski meira til fólks sem er komið yfir miðjan aldur. Yngra fólk er oftar á hraðferð. En fólk sem hefur ekki lengur fyrir börnum að sjá, hefur kannski minnkað við sig vinnu eða jafnvel hætt alveg að vinna, það nýtur þess að dveljast hér og láta gott af sér leiða.“

Ritstjórn júní 11, 2021 07:30