Bílstjórar skrautlega drukknir á vegunum

Heimamenn í Swazilandi þar sem Ingimar dvaldi mikið.

Ingimar Plálsson á litríkan feril og hefur oft fengið spurninguna “…. má bjóða þér þetta starf?”. Hann er orðinn sjötugur og margir kannast við hann úr tónlistarheiminum enda er hann píanóleikari og -kennari  og organisti af bestu sort og hefur komið víða við á þeim vettvangi. Til að nefna sumt var hann skólastjóri Tónlistarskóla Skagafjarðar á árunum  1975-82 og dómorganisti Hóladómkirkju 1975-1982 og stjórnaði tónlistardeild Performing Arts í The Johannesburg Conservatory of Music þegar hann starfaði við kristniboðs- og hjálparstörf í Afríku á árunum 1981 – 1991. Á þeim tíma  rak Ingimar prófmál í þágu skjólstæðinga þeirrar starfsemi eftir sviplegt fráfall föður síns, Páls Lútherssonar, sem vannst fyrir hæstarétti Swazilands 1988. Það mál hafði tímamótaáhrif og fordæmisgildi fyrir Afríkubúa. Dagblað þar í landi bauð Ingimari mikla peninga fyrir söguna af þeim málarekstri en hann ákvað að fara ekki í það viðtal af persónulegum ástæðum.

Hljóðfæraleikari, sálgætir og ráðgjafi

Ingimar býr á Selfossi og starfar þar við sálgæslu en hann fór í guðfræði og sálgæslufræði í Háskóla Íslands þegar Afríkudvöl hans lauk undir aldamótin. Nú er hann á leið í dáleiðslufræði sem hann hyggst nýta í sálgæslustarfinu. Ingimar starfar reglulega fyrir Bergmál, líknar- og vinafélag en tilgangur þess félags er að hlynna að þeim sem búa við langvarandi sjúkdóma. Bergmál byggir allt starf sitt á vinnuframlagi sjálfboðaliða og hefur Ingimar tekið þátt í því starfi með tónlistarflutningi en þangað koma reglulega okkar fremstu lónlistarmenn til að skemmta dvalargestum. Um jólin dvaldi Ingimar á elliheimilinu á Kirkjubæjarklaustri við að spila á píanó og lesa fyrir heimilisfólkið þar. Hann finnur gjarnan út hvar getur orðið að mestu liði á hverjum tíma og þessi jólin datt þetta elliheimili í lukkupottinn.

Ólst upp í Vestmannaeyjum

Spilað í Betel í Vestmannaeyjum 1955. Esra Ingólfsson frá Lukku, Magnús Jónasson frá Grundarbrekku (orgel), Hjörtur Ingólfsson frá Lukku og Ingimar Pálsson.

Ingimar fluttist með foreldrum sínum frá Akureyri til Vestmannaeyja fimm ára gamall. Foreldrar hans höfðu kynnst Hvítasunnusöfnuðinum á Akureyri og voru upp frá því viðloðandi söfnuðinn í Vestmannaeyjum þar sem trúarlíf hefur verið mjög ríkt alla tíð. Ingimar er því alinn upp í þeirri menningu. Í Vestmannaeyjum kynnist hann snemma Guðjóni Pálssyni, píanó- og orgelleikara. Hann fékk að fara í tónlistarskólann í Eyjum strax 6 ára gamall þar sem Guðjón kenndi honum fyrstu árin. Þá var Ingimar svo lítill að Guðjón þurfti að sitja með hann á hnjám sér og stíga pedalana á orgelinu fyrir hann.

Síðan kom Leifur Þórarinsson tónskáld að kenna við skólann og Ingimar lærði hjá honum næstu þrjú árin á píanó og fiðlu og síðan í Reykjavík hjá Árna Arinbjarnarsyni í þrjú ár á sömu hljóðfæri. Tónlist hefur síðan verið helsta áhugamál Ingimars þótt hann hafi síðar bætt við sig í námi.

Í hljómsveit með Pálma Gunnarsyni

Ingimar fór fljótlega til Vopnafjarðar þar sem hann gerðist verslunarstjóri í kaupfélagi Vopnfirðinga í rúm tvö ár. Þar spilaði Ingimar í hljómsveit þar sem Pálmi Gunnarsson var meðlimur en Pálmi var þá aðeins 14 ára gamall og spilaði á gítar. Ingimar og félagarnir í hljómsveitinni Skuggar þurftu að fá sérstakt leyfi fyrir Pálma til að spila á böllunum þar sem hann var undir lögaldri.

Skagafjörður paradís söngáhugafólks

Ingimar í námi í Róm 1977.

Ingimar var kvæntur maður en eftir skilnað við konu sína  fór hann á sjó í Norðursjóinn. Þegar hann kom til baka þaðan var hann ráðinn kennari við Bændaskólann á Hólum í Hjaltadal. Hann gerðist auk þess organisti við Hóladómkirkju ásamt því að stjórna nokkrum kórum, m.a. Karlakórnum Heimi. “Sönggleðin í Skagafirði er svo mikil og smitandi að maður sogast inn í það starf,” segir Ingimar og leið greinilega vel þar. Ingimar var síðan fyrsti organistinn sem sendur var til framhaldsnáms til Rómar á vegum þjóðkirkjunnar. Þetta var á árunum 1977-78 en hann nam hjá fyrsta organista Péturskirkjunnar í Róm og hafði bæði mikið gagn og gaman af.

Vending í lífi Ingimars

Ingimar var að undirbúa þriðju Rómarför sína til eins árs þegar boð komu þess efnis frá Afríku að faðir hans hefði  orðið fyrir bíl í Swazilandi og látist samstundis. Faðir Ingimars, Páll Lutherson, hafði verið í hjálparstarfi og kristniboði í Afríku á vegum Hvítasunnusafnaðarins þegar hann var staddur að kvöldi til fyrir utan veg að hjálpa innfæddum manni að skipta um dekk á bíl hans. Drukkinn ökumaður, kaþólskur prestur, kom aðvífandi og ók á föður hans og þar með varð vending í lífi Ingimars. Ingimar fékk þá leyfi hjá vinnuveitendum hér heima til að fara til Afríku, að ganga frá málum föður síns. Hann hafði ætlað sér þrjá mánuði í það verk en sá fljótlega að það var hvergi nærri nægur tími. “Ég vissi strax að ég var alls ekki í stakk búinn að taka við kristniboði föður míns en ég gat vel stundað hjálparstarf. Mig langaði til að enda starf föður míns vel og í því fólst meðal annars að dreifa geysilegum fjölda bóka sem voru ætlaðar til lestrarkennslu fyrst og fremst. Þetta voru m.a. biblíusögur og yfirleitt sögur með fallegan boðskap á 15 Afríkutungumálum og mjög vel myndskreyttar. Til þess hafði ég bíl til umráða, Caravan, sem ég gat fyllt af bókum og ferðast um allt í þessum tilgangi.”

Varð líka fyrir slysi 

Ingimar varð fyrir slysi í einni ferðinni við bókadreifinguna.  Hann hlaut aðhlynningu til að byrja með í Swazilandi þar sem slysið varð og kom til Íslands þegar hann var orðinn ferðafær og var í ár á Landspítalanum þar sem hann gekkst undir aðgerð og í endurhæfingu á eftir m.a. hjá Lömuðum og fötluðum. “Ástandið þarna úti er þannig víða að maður er helst ekki á ferðinni á bíl um helgar af því að bílstjórar eru gjarnan skrautlega drukknir á vegunum. Ég var þarna samferða vinahjónum mínum sem voru í bíl nokkru á undan mér. Á móti mér kom allt í einu bíll sem rásaði á veginum og ég beygði út af þar sem ég hélt að væri slétt undir en grasið var þá svo hátt að ég sá ekki hallann við hlið vegarins. Bílnum hvolfdi ekki en ég kom honum ekki upp á veginn einn en ökumaður hins bílsins slapp og hélt sína leið. Ég meiddist ekki þá en úr út myrkrinu komu nokkrir heimamenn sem ásældust verðmæti sem þeir voru vissir um að leyndust í bílnum. Fólk er mjög fátækt á þessum slóðum svo þeir sáu þarna tækifæri. Ég var svo vitlaus að reyna að slást við þá vegna þess að inni í bílnum var allt sem ég átti, flugmiðar, passinn minn og einhverjir peningar. Í þessum átökum meiddist ég á baki sem dró dilk á eftir sér. Ég var svo heppinn að þegar vinir mínir í bílnum á undan sáu mig ekki fylgja sneru þau við og komu að þar sem mennirnir voru að berja mig en við ljósin á bílnum fældust þeir og hlupu í burtu. Þeir náðu því ekki eigum mínum en náðu að meiða mig,” segir Ingimar.

Galdramaður í Afríku.

Naut aðhlynningar læknis sem sjálfur valdi galdramann

Fyrstu þrjá mánuðina eftir árásina dvaldi Ingimar á hóteli í Swazilandi því hann gat ekki hugsað sér að fara inn á sjúkrahúsið sem honum stóð til boða að leggjast inn á. “Sjúkrahúsið var óhreint og illa lyktandi innandyra svo ég ákvað að dvelja á hóteli á meðan verst var en til mín komu læknar og hjúkrunarfræðingar og sáu um að ég hefði lyf sem ég þurfti. Síðan veiktist einn læknirinn og hjúkrunarfræðingurinn og í stað þess að fara til aðhlynningar á sjúkrahúsið fóru þau heim í þorpið sem þau voru alin upp í og hittu fyrir galdramanninn. Það segir sína sögu um ástandið þarna,” segir Ingimar. “Mín reynsla af kynnum mínum við allt það fólk sem ég kynntist var að langflestir voru yndislegt fólk. Þau voru fróðleiksfús og reyndu að setja sig í spor gesta sinna. Ég upplifði að flestir væru mun trúaðri en Íslendingar. Þeir trúa bara á önnur öfl.”

Varð fyrir skotárás

Þegar Ingimar kom fyrst út til Swazilands var ekki búið að ganga frá slysstaðnum þar sem faðir hans lést. Þegar hann fékk slysaskýrsluna af atburðinum í hendur sá hann að hún gat ekki passað. Þar stóð að faðir hans hefði verið fótgangandi á miðri hraðbrautinni og þess vegna hefði hann borið ábyrgð á slysinu sjálfur en ekki tryggingafélag bílsins sem ók á hann. Ökumaðurinn var kaþólskur prestur frá Jóhannesarborg í fríi. Hann hafði verið drukkinn og bíllinn var í eigu kaþólsku kirkjunnar. Þegar Ingimar fór að skoða þetta nánar komst hann að því að fyrir þetta væru engar bætur greiddar. Slys eins og það sem faðir hans hafði lent í, á sér stað nánast daglega í Afríku og vonlaust mál að sækja bætur. “Mér var sagt að ef ég ætlaði að sækja þetta mál og fara í mál við tryggingafélagið myndi ég í fyrsta lagi aldrei vinna það en ef svo ólíklega færi að ég kæmist eitthvað með málið yrði það svo dýrt að ég myndi aldrei geta borgað það. Ég ákvað samt að sækja málið, ekki síst af því að slík mál eru auðvitað fordæmisgefandi og almenningi í Afríku veitti nú ekki af svolítilli aðstoð á þessu sviði. Þannig gat ég lagt þessu fólki lið og sýnt starfi föður míns virðingu.”

Ingimar mætti hróplegu óréttlæti í viðleitni sinni til að ganga vel frá málum föður sins í Afríku. En eðlislæg bjartsýni hans gerði það að verkum að hann ákvað að ganga þrautagönguna sem málssóknin varð. Lögreglan í landinu gerði allt sem hægt var til að fæla hann frá, meðal annars að skjóta úr alvöru byssum allt í kringum hann. Og hann var alveg við það að gefast upp.

Tilviljun eða…….

Stórkostleg náttúrufegurðin í Swazilandi heillaði Ingimar.

Til þess að geta hafið málareksturinn þurfti Ingimar að fá skýrslunni af slysinu breytt og það tók nokkra mánuði. Ingimar kom daglega á lögreglustöðina í viðleitni sinni að fá skýrslunni breytt og mætti mikilli óvild lögreglumannanna sem vildu alls ekki hafa hann þarna. “Þeir skutu allt í kringum mig til að hræða mig í burtu og ég komst sífellt betur að því að þetta var bara þeirra menning og svona fara þeir að. Í Afríku eru í raun vanþróuð ríki og ég var alveg kominn að því að gefast upp. Í næstu heimsókn minn á lögreglustöðina kom fyrir tilviljun maður inn á stöðina, skreyttur alls konar merkjum eins og þeir eru, en hann reyndist vera  yfirmaður umferðadeildar lögreglunnar í Swazilandi. Hann var þar í eftirlitsferð og kíkti á málið sem var í gangi á  stöðinni þennan dag og sér að það fjallar um Lúthersson frá Íslandi sem hafði látist í bílslysi. Hann segir við mig: “Ég þekkti Lúthersson” og það var engum blöðum um það að fletta að maðurinn tekur málið að sér og segir svo: “Heyrðu, það verður gerður nýr uppdráttur.”

“Ég veit ekki hvaða lukka var yfir mér þarna því kerfið í Afríku er svo erfitt að ég hefði alveg ábyggilega gefist upp ef þessi maður hefði ekki komið fyrir tilviljun á lögreglustöðina nákvæmlega þarna og aðstoðað mig,” segir Ingimar sem fór beina leið út á flugvöll og hélt til Jóhannesarborgar þar sem hann gat nú haldið áfram að sækja málið.

Tónlistin

Eftir konsert í Seyðisfjarðarkirkju. Ingimar Pálsson píanóleikari, Arndís Halla leiðsögu- og óperusöngkona, Örvar Már leiðangursstjóri og óperusöngvari.

1983 var auglýst eftir yfirmanni tónlistardeildarinnar í Perfoming Agrts í Jóhannesarborg og Ingimar sótti um stöðuna. Þá var hann kominn af stað með málið  á hendur tryggingarfélaginu og betra væri að vera á staðnum svo hann sótti um stöðuna ásamt fjölda annarra. Svo fær hann símhringingu eftir nokkurn tíma og hann spurður hvort hann hefði enn áhuga á þessu starfi. Hann játti því og þar með var hann kominn með ágætar fastar tekjur ásamt því að hann tók að sér að spila á hótelum hér og þar því honum veitti ekki af peningunum til að greiða málskostnaðinn sem hafði hækkað dag frá degi. Ingimar hélt hjálparstörfunum áfram eins og hann gat.

Sagði frá stöðunni eins og hún var

Þegar Ingimar kom heim til Íslands á þessu tímabili var hann mikið spurður út í það hvernig lífið þarna úti væri. “Ég sagði þá frá stöðunni eins og hún var og það var ekki allt fallegt. Fólk horfir gjarnan á hjálparstarf í Afríku með sérstökum gleraugum en kristniboðar eru bara menn eins og við. Meðal þeirra leynast auðvitað svartir sauðir eins og víðast þótt flestir séu sómafólk,” segir Ingimar. “Allt í einu var ég sjálfur orðinn einskonar syndahali og ég kunni ekki við það. En eitt get ég sagt með stolti að íslenska þjóðkirkjan var með kristniboðs- og hjálparststarf í Kenya á þessum tíma og er enn að vinna rosalega gott starf. Kristniboðarnir sem komu frá Íslandi á þeirra vegum höfðu mjög gott orð á sér.

Mjög erfitt að reyna að skilja þetta samfélag

Séð út um gluggann heima á Selfossi þar sem Ingimari líður vel.

Ingimar segir að hluti af menningu Afríkubúa séu mútur. Þannig virki samfélögin einfaldlega og viðskiptin hafi lengi gengið fyrir sig með þeim hætti. “Hvíti maðurinn á að borga og allir sætta sig við það,” segir Ingimar. “Þannig virkar samfélag þeirra. Úr þessu samfélagi koma Afríkubúarnir sem fyrirtæki hér heima hafa mætt og gert viðskipti við. Þarna liggur hluti skýringarinnar á vandræðum sem íslensk fyrirtæki hafa mætt í Afríku,” segir Ingimar. “Samfélögin eru vanþróuð og enginn möguleiki fyrir okkur að skilja þau nema dvelja langdvölum í landi þeirra.”

Spá heimamanna gekk eftir

Ingimar fór út úr þessu máli með töluverðum halla fjárhagslega jafnvel þótt hann hafi unnið málið. “Það gekk eftir sem heimamenn sögðu mér í upphafi að ég myndi aldrei fá neitt út úr þessu máli, hvernig sem það færi. Mér þótti niðurstaðan aftur á móti jákvæð af því hún hafði svo mikið fordæmisgildi fyrir heimamenn. Auk þess hafði ég með málinu sýnt minningu föður míns sóma.

Ritstjórn janúar 10, 2020 05:20