Römm er sú taug – eða hvað!

Guðrún Guðlaugsdóttir

Guðrún Guðlaugsdóttir blaðamaður skrifar

gudrunsg@gmail.com

 

Nýlega fór ég að hitta frænku mína sem býr í Ameríku og hefur lengstum komið hingað árlega í heimsókn til þess að finna vini og ættingja og „gamla andrúmsloftið“ sem hún ólst upp í.

„Ég var að hugsa um að koma ekki hingað í sumar. Hugsaði með mér að bæði væri nú Covid-19 og svo ýmislegt annað, svo sennilega væru allflestir dánir sem ég þekkti. „Hvað hef ég svo sem til Íslands að gera ef þeir sem ég þekki þar eru horfnir úr þessu jarðlífi,“ hugsaði ég. En „römm er sú taug“, eins og þar stendur. Ég ákvað samt að koma og athuga málið. – Svo varð ég bara að koma mér upp vasabók til skrifa niður alla þá sem enn eru hér á stjái og buðu mér heim eða á veitingahús. Mér kom á óvart hve margir af minni kynslóð eru lifandi ennþá,“ sagði þessi 87 ára káta og lífsglaða frænka mín.

„Heldurðu að þú komir ekki að ári,“ sagði ein viðstaddra kvenna.

„Ástandið er nú ekki gott, Ísland er rautt. Má maður gera ráð fyrir að margir verði eftir – miðað við hvernig allt lítur út núna?“ svaraði Ameríkufrænkan að bragði.

„Veistu, ég skil þig svo vel. Ég er komin yfir nírætt og flestar vinkonur mínar eru dánar. – Þær sem enn eru lifandi eru farnar að tapa minni. Foreldrar mínir og systkini eru látin – stundum finnst mér að ég sé munaðarlaus í þessari veröld,“ sagði fyrrgreinda konan.

Í kjölfar þessa samtals fór ég að hugsa um hvað væri þýðingarmest í lífinu. Ekki eru það peningar, nema hvað snertir brýnustu nauðsynjar – fyrir flesta er það einmitt samferðafólkið – þeir sem manni þykir vænt um. Án þeirra er lífið dauflegt. Þetta samtal er hér tilfært vegna þess að það beinir sjónum að því sem mikilvægt er og því sem sett er í forgang á þessum „fordæmalausu“ tímum.

Margt hefur verið vel gert en ýmislegt hefur líka farið á verri veg – einkum hvað snertir landamæri Íslands. Ég skil að þeir sem tala fyrir hönd ákveðinna atvinnugreina sem byggja á komu ferðamanna til Íslands telji sér skylt að hafa hagsmuni sinnar greinar í forgangi. En kapp er oftast best með forsjá. Það er varla neinni atvinnugrein til framdráttar að talsmenn hennar séu svo ákafir í málflutningi sínum að þeir skeyti varla lengur um heilsu og jafnvel líf samborgara sinna. Slíkur málflutningur getur „bitið í skottið á sér“. Það er slæmt ef almenningi finnst hagsmunaaðilar beinlínis stefna velferð fólks í hættu – bara svo þeir geti grætt. Þannig lítur þetta stundum út þótt það hafi sennilega ekki verið ætlunin.

Kannski ættu talsmenn og jafnvel forkólfar stjórnvalda og hagsmunaaðila að hugsa um orð Ameríkufrænkunnar: „Hvað hef ég svo sem til Íslands að gera ef allir sem ég þekki eru horfnir úr þessu jarðlífi?“

Í farsóttum erum við öll á sama báti – við viljum ekki týna lífi né missa þá sem okkur eru kærir. Engir peningar geta bætt slíkt. – Og svo gæti jafnvel farið að þeir sem harðast tala móti bráðnauðsynlegum sóttvörnum séu ekki ódauðlegir né heldur þeirra nánustu. – Þá er væntanlega verr af stað farið en heima setið. Það er lítið gaman að græða á gistinóttum og Gullna hringnum ef það kostar hættuleg veikindi samborgara og jafnvel dauða þeirra. Og sorgin gleymir á endanum engum.

Við ættum því öll að „standa í lappirnar“ – ekki gegn sóttvörnum – heldur til að viðhalda þeim. – Lífið er fagurt á hvaða aldri sem er og flestir vilja öllu týna fremur en því.

Guðrún Guðlaugsdóttir ágúst 8, 2021 15:07