„Hvort þykir þér vænna um pabba þinn eða mömmu?“ var gamall kunningi móður minnar vanur að spyrja okkur krakkana ögn hranalega þegar hann leit við heima, og við náttúrlega öll kjaftstopp. Eins verður mér við að svara spurningunni um hver sé uppáhaldsstaður minn á landinu. En ég ætla samt að nefna Rauðasand á sunnanverðum Vestfjörðum. Hann uppfyllir öll skilyrði slíks staðar: það er ekki fyrirhafnarlaust að komast þangað, náttúrufegurðin er stórkostleg og það fylgja honum sögur, sumar hrikalegar.
Það er yfir heiði og niður brattan og krókóttan fjallveg að fara. Lofthræddu fólki eins og mér hefur þá jafnan gefist best að keyra sjálft, en rétt er samt að geta þess að vegurinn hefur batnað töluvert frá því ég fór hann fyrst. En þá opnast líka tilkomumikil og breið vík, umgirt fjöllum. Vestan megin eru björg, Brekkuhlíð og síðan Keflavíkurbjarg og enn vestar Látrabjarg, austan megin Stálfjallið og síðan hinar snarbröttu Skorarhlíðar, kenndar við eyðibýlið Skor, þaðan sem Eggert Ólafsson lagði af stað í sína hinstu för.
En tilkomumest er að líta yfir ströndina, tíu kílómetra langa gullna strönd sem skiptir litum eftir birtu og er stundum roðagyllt af ótal skeljabrotum. Þetta er áhrifamikil tilbreyting frá því svarta grjóti sem annars umlykur Ísland að mestu. Ströndin er líka breið, það er aðgrunnt og hún veit mót suðri og í góðu veðri er frábært að busla þarna í sjónum og ekkert afrek sem þarf að undirbúa með námskeiðum hjá sjósundsfélaginu.
Þessum afskekkta stað, eins og öllum stöðum á Íslandi, fylgja líka margar sögur og sú frægasta og um leið myrkasta er kennd við bæinn Sjöundá. Þarna á hjara veraldar var tvíbýli og í upphafi 19. aldar bjuggu á helmingi bæjarins hjónin Bjarni Bjarnason og Guðrún Egilsdóttir með þremur börnum sínum, en á hinum helmingnum Jón Þorgrímsson og Steinunn Sveinsdóttir með fimm börnum. En sú sambúð stóð ekki lengi og var ekki farsæl. Steinunn og Bjarni felldu hugi saman eins og sagt er og myrtu fyrst Jón og hrintu niður björg og drápu nokkru síðar Guðrúnu með eitri. Þau voru dæmd til dauða. Bjarni margstrauk úr fangelsinu en Steinunn ól þar barn og dó síðan skyndilega af ástæðum sem aldrei hafa skýrst. Í Reykjavík fékkst enginn til að vera böðull Bjarna og að lokum var hann fluttur til Kristianssand í Noregi þar sem beið hans skelfileg aftaka.
Um þetta alræmda morðmál skrifaði Gunnar Gunnarsson sitt magnaðasta verk, skáldsöguna Svartfugl sem fyrst kom út 1929 í Danmörku og hlaut afbragðsviðtökur. Hann byggði stóra hluta verksins á réttarskjölum en tókst um leið að skapa óhugnanlegt andrúmsloft kúgunar, bælingar og hræsni sem situr lengi í lesandanum. Þessa bók má taka með sér þegar rölt er út að rústum Sjöundár frá bænum Melanesi, þar sem hefur verið byggð upp góð aðstaða fyrir ferðamenn. Það er upplagt tækifæri til að hugleiða það erfiða og á stundum hrikalega mannlíf í stórbrotinni umgjörð sem Íslandssagan var.