Uppáhaldsstaður Þráins Bertelssonar

Þráinn og Theobald.

Um „Íslands aðskiljanlegu náttúrur“

Þingvallasveit, Vestmannaeyjar, Strandasýsla, Rangárvellir. Reykjavík, Hörgárdalur, Hafnarfjörður… Allir þessir staðir hafa komið við sögu í lífi mínu. Allir þessir staðir og reyndar mun fleiri á okkar fagra landi hafa haft áhrif á mig – þeir eru hluti af minni sjálfsmynd og gefa lífi mínu gildi og fegurð.

Hvort blómið finnst mér fallegra fífill eða sóley? Hvaða árstíð er mér kærust? Hvort er birtan fegurri að morgni dags eða kvöldi?

Þegar svona stórt er spurt verður fátt um svör.

Eina svarið sem kemur upp í hugann er að uppáhaldsstaður minn í tilverunni er Ísland í allri sinni fjölbreyttu fegurð og það sem Jón lærði á fyrri tíð kallaði „Íslands aðskiljanlegu náttúrur“.

Núna á gamals aldri hef ég þann sið að fara á hverjum morgni út í náttúruna, hraun og skóga sem umlykja höfuðborgarsvæðið þar sem ég bý. Það er mín daglega morgunandakt, hugleiðsla og bænargjörð að ganga (eða hlaupa þar sem mjúkt er undir fæti) í leit að jafnvægi og þeirri hugarró sem morgunstund í þögn og einveru úti í náttúrunni, dómkirkju sálarinnar færir mér og vonandi hundinum mínum líka, göngu- og hlaupafélaga mínum síðustu fjögur ár.

Það rignir, það snjóar og sólin skín, það er logn og allir vindar blása; ég sé árstíðirnar koma og fara og hugleiði án nokkurrar niðurstöðu hinar aðskiljanlegu náttúrur náttúrunnar, þá endalausu og fjölbreyttu fegurð sem umlykur okkur öll…

Ritstjórn júní 30, 2021 12:53