Furður ævinnar

Það er næstum algilt þegar við lesum sjálfsævisögur, hvort heldur Nonna eða Sigurð A. Magnússon eða Bíbí sem Vigdís Grímsdóttir skráði svo listavel, að okkur þykir fyrsti hlutinn bestur. Sennilega er það vegna þess að hann einkennist af leit, óvissu, spennu: hetjan okkar er að finna sjálfa sig, eins og nú er sagt, búa sér til sjálfsmynd. En eftir að það hefur tekist þekkjum við sjónarhornið, vitum meira á hverju við eigum von, „séð og lifað” tekur við af óvissuleiðangri bernsku og unglingsára. Þegar að er gáð er þetta svolítið í samræmi við líffræðilögmálin: Eftir tuttugu og fimm ára aldur fer okkur aftur í flestu, hvort heldur líkamlega eða til höfuðsins. En það er í fullkominni andstöðu við hvernig við viljum sjá ævi okkar: við gerum allt til að telja okkur trú um að okkur hljóti að fara fram allt til loka.

Þetta eru tvær línur: Önnur liggur hægt en örugglega upp á við, uns henni lýkur skyndilega. Hin rís bratt en liggur svo hægt og alveg jafn örugglega niður á við. Þegar við búum okkur til þá sögu sem við teljum okkur trú um að sé ævi okkar, eins og það var eitt sinn orðað, þá viljum við endilega að hún fylgi fyrri línunni en allar líkur eru á að hún fylgi þeirri seinni. Þetta er áskorunin: alla ævina erum við að reyna að rísa gegn lögmálum lífsins. Við viljum alltaf bæta einhverju við okkur, vera á uppleið. Sumir gera það t.d. með því að vera sífellt á námskeiðum um ólíklegustu hluti sem minnir mig stundum á þá sem eru alltaf í megrun; þetta eru tilbrigði við að sitja kyrr í sama stað og samt að vera að ferðast, eins og Jónas orti forðum.

En þessi viðleitni er góð að því leyti að þannig erum við alltaf að reyna að koma okkur sjálfum á óvart, og það er lykilatriðið. Vitlausasta útgáfan af línunni sem liggur hægt en örugglega upp á við allt til loka er það sem kallað er framabraut. Ekki það að ég hafi verið neitt skárri en margur annar hvað það varðar að fá vinnuframlag metið í bílastyrkjum, skipuritum, ferðalögum, símtólum og starfslokasamningum (það síðasta er dapurlegast: að láta borga sér fyrir að vinna ekki). Síðast var ég forstjóri Hörpu í tæp fimm ár og það var að flestu leyti gaman: Stórkostlegt hús, yndislegt samstarfsfólk, frábær kynni af ólíku tónlistarfólki og dálítið óheppilegt eignarhald. En svo gafst mér kostur á vinnu í Noregi, án sérstakra forréttinda en kannski nær mínum áhugamálum og ég sló til. Ég var orðinn sextugur en rak sjálfan mig til að kynna mér nýtt land, nýja menningu, nýtt tungumál (sem ég leysti með því að tala dönsku með íslenskum hreim), nýtt samstarfsfólk, jafnvel nýja vini. Ekki að það sé svo merkilegt að fara til Noregs, en þar með hljóp snurða á æviþráðinn, svo ég haldi mér við þá líkingu, og mér tókst að koma sjálfum mér á óvart. Kannski getur bara sá sem er forvitinn og undrast bætt við sjálfsmynd sina, í stað þess að telja hana fullskapaða, hvíla í sjálfum sér og miðla af visku sinni; mikið sem slíkt fólk getur orðið þreytandi. Það er oft talið barnalegt að undrast, andspænis þeim sem allt þykjast hafa séð áður, en það er besti hæfileikinn sem við getum tekið með okkur ævina alla og forsenda þess að við getum búið til áhugaverða ævisögu, þótt ekki væri nema handa okkur sjálfum.

Loks eru þessar einföldu vinnureglur sem við fornvinur minn komum okkur saman um tvítugir; væri annar staðinn að því að brjóta þær mátti hinn leggja hann umsvifalaust inn: Maður skyldi aldrei móðgast yfir því að vera ekki boðinn í kokkteilboð og aldrei telja menntaskólaárin besta tíma ævinnar. Með aldrinum er ég farinn að færast hættulega nærri hinu síðarnefnda en ég ætla ekki að segja honum frá því.

 

 

Ritstjórn júní 18, 2020 07:29