Silja Aðalsteinsdóttir bókmenntafræðingur skrifar
„Tíu sumarbækur,“ segir ritstjórinn, „vinsamlegast!“
Það er gaman að fá svona verkefni en um leið og það er skemmtilegt og vekjandi er það líka óvinnandi. Bækurnar eru of margar! Enda urðu þær fleiri en óskað var eftir.
Fyrst vil ég nefna nýjasta sumarsmellinn: Tengdadótturina eftir Guðrúnu frá Lundi sem er komin út á ný – loksins – í þrem bindum eins og á árunum 1952–4. Þetta er saga sjómannsins Þorgeirs Þorgeirssonar frá Suðurnesjum sem ræður sig sumarmann á prestsetur í norðlenskri sveit. Hann er alinn upp í sárri fátækt og þráir svo heitt að verða ríkur að hann fórnar lífshamingju sinni til að draumurinn geti ræst. Guðrún er einstakur höfundur og hefur skarpa sýn á lífið í landi sínu.
Sverrir Norland skoðar lífið í heiminum núna af ekki minni skarpskyggni í nýrri bók sinni Stríð og kliður. Holl lesning og vekjandi.
Ég komst að því fyrir nokkrum misserum að smásögur eru langbesta afþreyingin og auk þess indæll kvöldlestur sem ekki heldur manni vakandi hálfar nætur. Ég hef nú farið skipulega í gegnum öll smásagnasöfn heimilisins og fundið margan gimsteininn en nefni bara fáein nýjustu söfnin.
Nýtt safn af Smásögum heimsins er í fimm bindum eftir svæðum: Norður-Ameríka, Rómanska Ameríka, Afríka, Evrópa, Asía og Eyjaálfa. Úrvals sögur, vandlega valdar og þýddar.
Nokkrir ungir íslenskir höfundar hafa komið fram með verulega athyglisverð söfn undanfarið. Ég nefni aðeins þrjú: Kláða eftir Fríðu Ísberg, Herbergi í öðrum heimi eftir Maríu Elísabet Bragadóttur og Smáglæpi eftir Björn Halldórsson.
Björn Halldórsson á líka skáldsöguna Stol sem fjallar á athyglisverðan og aðlaðandi hátt um samband föður og sonar.
Ég er að mestu hætt að lesa glæpasögur, las yfir mig af þeim um margra ára skeið, en mér finnst ástæða til að minna á bækur Evu Bjargar Ægisdóttur sem fékk um daginn Rýtinginn, verðlaun Samtaka breskra glæpasagnahöfunda í flokknum frumraun ársins fyrir fyrstu bók sína, Marrið í stiganum. Kíkið á hana og bækurnar sem komu á eftir, Stelpur sem ljúga og Næturskugga.
Skáldsagan Sterk eftir Margréti Tryggvadóttur fékk Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur í vor en hún er ekki síður fyrir fullorðna, spennandi bók um aðkallandi persónuleg og félagsleg vandamál í okkar nútímaheimi.
Og að lokum ein ekta „feel-good“: Yfir hálfan hnöttinn eftir Ásu Marín – um Júlíu sem eltir kærastann alla leið til Víetnam og kemst þá að því að það var ekki það sem hann vildi! Hvað gerir stúlka þá?