Nýtti „Kófið“ til að þýða sígilda skáldsögu

Silja Aðalsteinsdóttir bókmenntafræðingur, þýðandi og ritstjóri, er á 79. aldursári og ekkja síðan árið 2019 þegar eiginmaður hennar til 53 ára, Gunnar Karlsson sagnfræðiprófessor, féll frá. En hún lætur sannarlega ekki deigan síga. Hún hefur nýlokið við að þýða skáldsöguna Sense and Sensibility eftir enska nítjándu aldar rithöfundinn Jane Austen, en hún hafði áður þýtt þekktustu skáldsögu Austen, Hroka og hleypidóma.

Silja segir að þessi nýjasta þýðing sín sé svo að segja afurð „Kófsins“, það er að  segja hún notaði næðið í kórónuveirufaraldrinum til að einbeita sér að því að klára að þýða þessa bók, sem hún hafði lengi haft hug á en ekki haft tíma til. „Þetta er bók sem ég hef haldið uppá í sextíu ár,“ segir hún. Bókin kemur út í haust undir hinum vandlega valda íslenzka titli Aðgát og örlyndi. Eitt af verkefnum sumarsins framundan hjá Silju er að lesa þýðinguna inn á hljóðbók.

Einmana morgnar

Silja segir það hafa í raun ekki breytt miklu fyrir hennar daglegu rútínu að verða ekkja, þar sem þau Gunnar hafi alla tíð lifað býsna sjálfstæðu lífi hvort um sig. Mest verði hún vör við einmanaleika á morgnana, þegar þau hjónin áttu oft beztu stundirnar saman yfir morgunkaffinu. Hún sakni líka sérstaklega liðsinnis hans í þýðingarvinnunni, en þau höfðu þann háttinn á að þegar hráþýðingin lá fyrir las Silja hana upphátt og Gunnar hlustaði og fylgdist með á frumtextanum. Þau ræddu síðan öll álitamál í þýðingunni.

Silja, fyrir miðju, með afkomendunum og Gunnari (1.f.v.) sem féll frá árið 2019.

„Hann var alveg einstaklega glöggur á blæbrigði í merkingu orða. Þetta var mjög skemmtilegur þáttur í þýðingarvinnunni,“ segir Silja og bætir við að sem betur fer eigi hún eftir sem áður góða að. Tengdasonur hennar, Jón Yngvi Jóhannsson, og dóttirin Sigþrúður eru bæði sérfróð um bókmenntir og þýðingar og tóku í vinnunni við handritið að Aðgát og örlyndi yfir þetta hlutverk sem Gunnar gegndi áður. „Þau voru næstum því eins gagnrýnin og Gunnar,“ segir hún kímin.

„Þegar maður er að þýða bækur sem eru ætlaðar til ánægjulestrar fyrir almenning er mjög mikilvægt að sjá textann ekki bara á prenti, heldur heyra hann lesinn upphátt,“ segir Silja ennfremur um þennan þátt þýðingarvinnunnar. Það skipti máli að heyra hljóm textans, og með því að lesa hann upphátt sé oft hægt með mjög litlum breytingum að láta hann hljóma betur.

Þýðandi, rithöfundur, ritstjóri

Silja hefur fengizt við þýðingar í meira en hálfa öld. Fyrsta bókin sem kom út í þýðingu hennar var 16 ára eða þar um bil, kynfræðslurit fyrir unglinga eftir dönsku blaðakonuna Lizzie Bundgaard, en íslenzka útgáfan kom út árið 1972. Silja hlaut Íslensku þýðingarverðlaunin fyrir þýðingu sína á Wuthering Heights eftir Emily Brontë árið 2006 og tvær aðrar þýðingar hennar hafa hlotið tilnefningu til Íslensku þýðingarverðlaunanna.

Það er reyndar ekki aðeins fyrir þýðingar sem Silja hefur hlotið æðstu viðurkenningar. Fyrir Skáldið sem sólin kyssti, ævisögu Guðmundar Böðvarssonar sem kom út árið 1994 hlaut Silja Íslensku bókmenntaverðlaunin og hlaut þau verðlaun aftur, ásamt öðrum, fyrir bókina Kjarval  árið 2005. Árið 2004 fékk hún Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu og 2015 var hún sæmd Fálkaorðunni fyrir framlag sitt til íslenzkra bókmennta.

En Silja hefur komið víðar við á ferlinum. Á yngri árum skrifaði hún í Þjóðviljann og var ritstjóri hans um örstutt skeið. Og á blómaskeiði DV, undir ritstjórn Jónasar Kristjánssonar, var hún menningarritstjóri þess blaðs. „Ég vona að ég móðgi engan þegar ég leyfi mér að fullyrða að árin á DV hafi verið bezti tími ævi minnar hvað vinnu snertir,“ segir hún. Sem menningarritstjóri hafi hún getað „gert hvað sem mig langaði til“. Hún hafði á þessum tíma her gagnrýnenda á sínum snærum, í öllum listgreinum. „Þetta var svo gefandi starf þar sem ég gat beitt öllu því sem ég kunni.“ Nú sé fjölmiðlalandslagið gerbreytt og því miður allt of lítið um metnaðarfulla menningargagnrýni.

Silja sinnir enn verkefnum fyrir síðasta vinnuveitanda sinn, Forlagið. Og eins og kunnugt er hefur hún lengi verið sérlegur ráðgjafi og yfirlesari allra texta Bubba Morthens, hvort sem þar er um að ræða lagatexta, ljóð eða aðra textagerð. „Textarnir frá Bubba koma í skorpum,“ segir hún. „Það er mest að gera þegar annaðhvort plata eða bók eru á leiðinni en þá er líka gaman.“

Söngkonan Silja

Silja um tvítugt.

Silja á sér einnig söngferil sem ekki hefur farið mikið fyrir. Hún kom fyrst fram opinberlega á fimmtánda ári þegar hún söng gamanvísur á Arnarhóli frammi fyrir tuttugu þúsund áhorfendum á 17. júní skemmtun 1958, en þeirri skemmtun var jafnframt útvarpað. Tveimur árum síðar var hún svo ein níu efnilegra dægurlagasöngvara sem kynntir voru á skemmtun í Austurbæjarbíói haustið 1960 en þar söng hún ásamt fleirum á svipuðu reki við undirleik KK-sextettsins, en hópurinn hafði verið valinn úr hópi fjörutíu ungmenna sem upphaflega mættu í prufur. Söngvararnir níu, þar á meðal Þorsteinn Eggertsson og Mjöll Snæhólm, sungu einnig með sveitinni á fáeinum dansleikjum fyrr um sumarið, meðal annars í Selfossbíói og Hlégarði í Mosfellssveit.

Ekkert varð úr að Silja legði sönginn fyrir sig – „skólafélagarnir í MR gerðu svo mikið grín að mér,“ segir hún til skýringar á því. En eins og haldið er til haga á vefsíðunni Glatkistan söng hún þó eitt lag á plötunni Hvað tefur þig bróðir? sem Herstöðvarandstæðingar sendu frá sér árið 1982. Það lag, Vögguvísa róttækrar móður var svo endurútgefið á safnplötunni Baráttusöngvar fyrir friði og þjóðfrelsi árið 1999.

Valdi á milli myndlistar og söngs

Silja segir að þegar hún varð sjötug og hætti í fastri skrifstofuvinnu hjá Forlaginu hafi hún þurft að velja hvað hún myndi nýta aukinn frítíma sinn til – fyrir utan að stunda mátulega heilsurækt. Hún iðki pilates í World Class, sem hafi reynzt sér vel. „Þessi leikfimi hefur haldið mér við, það skiptir svo miklu máli að hreyfa sig eðlilega, þá tekur fólk síður eftir hrukkunum og hvíta hárinu!“

En á þessum tímamótum stóð hún annars frammi fyrir erfiðu vali: „Mér datt í hug að fara að fást aftur við myndlist, eins og ég gerði þegar ég var unglingur“, segir hún, en þar sem heimili hennar sé fullt af bókum sem muni væntanlega lenda á afkomendunum að ráðstafa þegar þar að kemur vildi hún ekki „bæta gráu ofan á svart með því að skilja eftir mig bunka af málverkum líka“. Hún hafi því valið tónlistina framyfir myndlistina og gekk í kór eldri kvenna, Senjóríturnar, sem er afsprengi Kvennakórs Reykjavíkur og er nú undir stjórn Ágotu Joó.

Silja er reyndar starfandi formaður kórsins eins og er. Að hennar sögn eru nú um 55 konur virkar í honum, en þær hafi verið allt að sjötíu þegar flestar voru. „Covid-tíminn tók sinn toll,“ segir hún, en eins og gilti um aðra kóra í landinu lá starfsemi hans að mestu niðri vegna sóttvarnaráðstafana síðustu tvö árin. Nú sé starfsemin þó öll að færast í fyrra horf – þær hafi haldið stórskemmtilega tónleika laugardaginn fyrir pálmasunnudag með Bubba Morthens og flottu tríói. Sem formaður kórsins vill hún gjarnan nota tækifærið og vekja athygli á því að í haust séu opnar stöður fyrir nýliða í öllum röddum. Umsækjendur þurfi bara að vera orðnir 60+!

Frá tónleikum Senjorítanna í Langholtskirkju 9. apríl síðastliðinn. Bubbi mundar gítarinn.

Auðunn Arnórsson, blaðamaður Lifðu núna, skrifar. 

Ritstjórn maí 6, 2022 07:00