Tilhugsunin um að eldast vekur ugg í brjósti margra. Af þeim sökum eru ýmsar ranghugmyndir sem tengjast henni. Margir halda til dæmis að þegar þeir reskjast fái þeir ýmsa heilsukvilla og þurfi að taka því rólega. Það er hins vegar langt í frá að vera einhlítt og margir geta búist við að halda góðri heilsu langt inná eftirlaunaaldurinn.
Margt fólk finnur því marga kosti við að eldast. Hér eru taldir upp 7 augljósir kostir þess, en þeir eru að sjálfsögðu miklu fleiri.
1. Afsláttur
Af virðingu við eldra fólk eða í viðleitni til að höfða til eldri neytenda bjóða ýmsir veitingastaðir, verslanir og skemmtistaðir vöru og þjónustu á vildarkjörum fyrir 67 ára og eldri. Í mörgum löndum miðast þessi sérkjör við fólk á miðjum aldri, jafnvel 55 ára og eldri. Þennan þátt mætti efla enn frekar í neytendamálum á Íslandi, t.d. með sértilboðum í miðri viku fyrir eldra fólk, sem víða sjást erlendis en síður hér heima. Þá má benda á mikinn afslátt í heilbrigiðsþjónustunni fyrir fólk hér á landi, 67 ára og eldra.
2. Starfslok
Fullorðið fólk sem hefur unnið alla ævi og er fjárhagslega sjálfstætt getur látið af störfum 67 ára. Sumir hætta fyrr, aðrir seinna. Sá sem þarf ekki lengur að vinna átta tíma á dag af því að hann er kominn á aldur, á þess kost að njóta eftirlaunaáranna með vinum og vandamönnum. Hann er laus við stimpilklukkuna og verkbókhaldið og getur sinnt áhugaverðum viðfangsefnum sem hann ella hefði ekki getað gert.
3. Barnabörn
Margt eldra fólk sem hefur alið upp börn býr við þau gæði að fá barnabörn inn í líf sitt. Ein af mörgum leiðum til að auka lífsgæði á efri árum er að verja tíma með barnabörnum. Þau efla og víkka fjölskylduböndin og stuðla að því að afi og amma blómstra á ævikvöldinu. Fólk sem komið er á eftirlaun getur varið lengri tíma með öllum ástvinum sínum.
4. Sjálfboðastarf
Eldra fólk býr yfir þekkingu og reynslu sem er samfélaginu dýrmætt. Vinnumarkaðstölfræði víða um lönd sýnir að eldra fólk er líklegra til að taka þátt í kosningum og það býður frekar fram krafta sína í sjálfboðavinnu en yngri aldurshópar. Hvort sem þeir vilja láta gott af sér leiða í frístundum eða sýna öðrum umhyggju, þá býður eldra fólk oft fram krafta sína til uppbyggilegra félagsstarfa. Þeir sinna t.d. hjálpar- og björgunarstörfum, taka þátt í kirkjustarfi, starfi á dagvistarheimilum, leikskólum svo fátt eitt sé nefnt.
5. Áhugamál
Margir hafa áhugamál sem þeir sinna á efri árum. Fjölskyldufólk í fullri vinnu hefur ekki alltaf tíma til að gera það sem það vildi gera. Fólk sem kemst á eftirlaun getur hins vegar tekið til við að slípa handverkið sitt eða tileinkað sér nýja þekkingu eða færni. Sumir snúa jafnvel áhugamáli sínu upp í ábatasaman rekstur sem skilar þeim viðbótartekjum.
6. Viska og þroski
Þekking og reynsla eldra fólks getur komið að góðum notum þegar það hættir að vinna. Fullorðið fólk gæti valið að vera ráðgjafar við ýmis verkefni eða ef til vill boðið vinum, fjölskyldu eða nærsamfélaginu ráðgjöf á sínu sérsviði.
Rannsóknir benda til þess að eldra fólk búi yfir meiri tilfinningalegum og vitsmunalegum stöðugleika en yngri aldurshópar. Í rannsókn sem fjallað var um í tímaritinu Smithsonian kom í ljós að ellilífeyrisþegar sem spurðir voru ráða um hvernig jafna ætti ágreining og setja niður deilur sýndu meiri samkennd og samfélagsvitund en fólk í yngri aldurshópum.
7. Hvíld og afslöppun
Ávinningurinn af því að ná eftirlaunaaldri felst einnig í því að geta tekið sér fyrir hendur hvaðeina sem maður vill. Eldri borgarar geta unnið, leikið sér eða kosið að gera ekki neitt hvenær sem þeir vilja. Þeir hvíla sig og slappa af án þess að fá samviskubit.