Að undanförnu hafa augu mann opnast fyrir hollustu ýmissa kryddjurta. Þær eru fullar af andoxunarefnum og góðum næringarefnum svo það er ekki bara betra bragð sem verið er að sækjast eftir þegar þær eru notaðar. Ekkert jafnast þó á við að rækta sínar eigin kryddjurtir og sækja þær ferskar í eldhúsgluggann eða garðinn. Það er líka mikilvægt að auka fjölbreytni bragðsins af matnum sem borinn er fram til að þroska bragðlaukana.
Nú þegar sumarið er á næsta leiti er hægt að setja niður kryddjurtir og flytja suma pottana úr eldhúsinu út í garð. Ferskar kryddjurtir má líka kaupa í verslunum nú orðið og það hefur marga kosti. Þær ilma vel, eru bragðmeiri en þurrkað krydd og nýtast til að skreyta rétti ekkert síður en að skapa gott bragð.
Styrkjandi kryddjurtir
Kryddjurtir gefa ekki eingöngu matnum gott bragð heldur felst góð sjúkdómavörn í að nota þær, enda styrkjandi fyrir ónæmiskerfið. Vísindamenn hafa nú sýnt fram á að rósamarín, timian og salvía virðast vinna á ýmsum bakteríum í líkamanum og draga úr virkni vírusa. Koríander og timían vinna gegn bólgum og geta því nýst vel þeim sem glíma við gigt. Mynta hefur þann ótvíræða kost að draga mjög úr andremmu og ef fólk tyggur hana reglulega hefur sýnt sig að sykurlöngun minnkar og fólk borðar minna.
Bólgueyðandi rætur
Túrmerik og engifer bera í sér bólguhamlandi efni, sömu efni og notuð eru í mörg gigtarlyf. Nú er hægt að fá túrmerik og engiferrætur ferskar í verslunum og gott að nota þær þannig í matargerð. Af þeim má líka fá bragðgott te.
Laukar
Laukar þrífast vel í skjólsælum görðum á Íslandi og nokkrir garðyrkjumenn með fagurgræna fingur hafa gert tilraunir með rætkun þeirra. Hvítlaukur, graslaukur og gulur matlaukur eru skemmtilegar jurtir í ræktun auk þess að vera hollir og bragðgóðir. Hægt er að setja niður lauka sem keyptir eru úti búð en best er að fá ráðleggingar fagmanna í garðrækt um hvernig best er að bera sig að. Það er auðvelt að rækta graslauk innandyra vilji menn fá bragðið af honum í mat allt árið um kring. Graslaukur er mildur og fer mjög vel í alls konar léttar, kaldar sósur, með osti og í karrý-rétti.
Ferskt og gott
Rófur, næpur, hreðkur, radísur og ýmsar baunategundir eiga það sameiginlegt að hafa svolítið rammt eða beiskt bragð. Það hefur margvíslega kosti. Til að mynda dregur það úr sykurlöngun. Efni í grænmeti af þessu tagi stuðla einnig að því að koma á og halda jafnvægi á blóðsykrinum. Þetta er þess vegna fyrirtakssnakk auk þess að vera mjög góð viðbót í salatið með matnum. Beiskt bragð er meðal þess sem nútímamaðurinn forðast og vísindamenn telja nú að það sé ekki hollt fyrir okkur. Börn hafa mjög gott af því að þroska bragðlaukana með því að finna og læra að meta margvíslegt bragð þar á meðal beiskt.
Súrt og sætt
Margir ávextir eru í senn súrir og sætir, einkum á það við um sítrusávexti. Þeir eru stútfullir af C-vítamíni og andoxunarefnum og ættu að vera á borðum eins oft og völ er á. Þeir eru líka hollir fyrir líkamann vegna trefjanna og sýran er góð fyrir slímhúðina í meltingarveginum.
Fínar upplýsingar
Bókin Kryddjurtarækt fyrir byrjendur eftir Auði Rafnsdóttur er góður grunnur ef fólk hefur áhuga á að rækta sjálfir sitt krydd. Þar er farið yfir ferlið allt frá því fræi er potað í mold og þar til blöðin eru klippt ofan í holla og næringarríka rétti fyrir fjölskylduna. Þessi bók er ómetanleg áhugafólki um ræktun, enda nýtast upplýsingarnar hvað sem menn kjósa að rækta. En það sem er sérsætt við kryddjurtir er að þær nýtast á fjölbreyttari máta en flestar aðrar jurtir. Auður fer yfir hverng best er að þurrka þær, frysta eða blanda olíum til að þær geymist sem best. Hún gefur einnig uppskriftir og auð minnisblöð gefa færi á að skrá hjá sér athugasemdir bæði varðandi ræktunina og eigin notkun á jurtunum.
Í bókinni er að finna almennar upplýsingar um tólf algengar kryddjurtir helstu not þeirra og góð ráð við sáningu og umhirðu. Sennilega gefur ekkert fólki jafnmikla ánægju og að dekstra til kryddjurtir. Flestar ilma þær ótrúlega vel og eru auk þess blaðfallegar og glæsilegar. Það góða við flestar kryddjurtir er að þær verða því fallegri því meira sem þær eru notaðar. Þeir sem eru svo heppnir að eiga garð geta ræktað sitt krydd utan dyra en kryddjurtir þrífast ágætlega innan um blómin og engin þörf á að planta þeim í sérstök matjurtabeð. Þó er gaman að koma sér upp kryddjurtahillu í garðinum en sumir nota til þess gamlar tröppur, trékassa eða hengja hillu á grindverk í garðinum.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.