Skrúðgarðarnir í Cornwall eru taldir með þjóðargersemum Bretaveldis. Jarðvegur skagans er frjósamur og veðurfar svo milt að þar grær allt sem stungið er í mold. Þetta gerði það að verkum að þegar það komst í tísku á síðmiðöldum að skipuleggja og rækta glæsilega garða á síðmiðöldum fluttu þangað margar ríkar fjölskyldur. Nútímamenn kunna ekkert síður að meta kosti landsvæðisins og þess vegna var byggt þar stærsta gróðurhús í heimi um þúsaldamótin.
Við margar hallir og sveitasetur í Cornwall má sjá einstaka skrúðgarða en þeir sérstæðastu eru Týndu garðarnir við Heligan. Saga garðanna hófst þegar Tremayne-fjölskyldan ákvað að fylgja tískunni og fjárfesta í landi. Hún keypti stóra landareign í Cornwall og byggði þar glæsilegt sveitasetur. Í kringum höllina var skipulagður skrúðgarður en jafnframt voru þar nytjagarðar og búgarðar því eignin varð að sjá fjölskyldunni fyrir mat og öðrum nauðsynjum. Hver kynslóð bætti síðan við ræktunina og setti sinn svip á garðana.
Á viktoríutímabilinu ferðuðust breskir landkönnuðir og vísindamenn heimshorna á milli og fluttu heim með sér sýnishorn af plöntum hvaðanæva að úr heiminum. Þá komst í tísku að reyna að rækta þessar plöntur á heimaslóðum og hvergi gekk það jafn vel og í Cornwall. Tremayne-fjölskyldan lét ekki sitt eftir liggja og ótal hitabeltisplöntur voru ræktaðar á landareign hennar. Eftir heimstyrjöldina fyrri féllu garðarnir við Heligan hins vegar í gleymsku og dá. Fæstir garðyrkjumannanna sneru aftur úr stríðinu og fáir aðrir höfðu kunnáttu til að halda görðunum í horfinu. Auður Tremayne-ættarinnar fór dvínandi og árið 1928 neyddist hún til að selja húsið. Landareignin var eftir sem áður í eigu ættarinnar og það var ekki fyrr en árið 1990, þegar John Willis hlaut hana í arf, að menn fóru að gera sér grein fyrir hvers lags fjársjóður var þarna falinn.
Einstök útsjónarsemi
John skoðaði arleifð sína ásamt vini sínum, Tim Smit, og þeir gerðu sér grein fyrir að þarna myndu vera leifar af einstökum skrúðgörðum. Tim þessi hafði auðgast á plötuútgáfu og var auk þess mikill áhugamaður um sambýli manna og jurta. Hann keypti landareiginina og hófst handa við endurreisn garðanna eftir gömlum uppdráttum og ljósmyndum. Garðarnir við Heligan eru ekki síst merkilegir fyrir þá sök að þeir eru einstök heimild um hvernig þess konar garðar litu út á blómskeiði sínu. Þar má enn fremur rekja sig í gegnum sögu ræktunarkassa, gróðurhúsa og nytjajurtagarða.
Garðyrkjumenn viktoríutímans vissu sannarlega sínu viti og í Heligan fundust leifar af hitunarstokkum sem byggðir höfðu verið í bakvegg elsta gróðurhússins. Heilmiklir viðarofnar voru grafnir í jörð og hitanum frá þeim veitt upp í stokkana og húsin hituð þannig. Glerið í þessu fyrsta gróðurhúsi ber þess einnig merki að tæknin var ekki meiri en svo að menn gætu framleitt nema mjög litlar glerrúður. Garðyrkjumenn lafði Tremayne ræktuðu handa henni banana, vínber, epli, appelsínur og ananas. Það eitt og sér að geta ræktað banana á svo norðlægum slóðum er einstakt en það að geta náð að rækta fullþroskaðan ananas ber vitni um einstaka útsjónarsemi og þekkingu á þeim möguleikum sem náttúran hefur upp á að bjóða.
Ananasinn var ræktaður í gróðurkössum sem hitaðir voru með stokkum sem lágu með fram bakinu á kössunum. Hitann framleiddu menn með því að búa þarna til safnhaug og leyfa húsdýraáburði að rotna í hólfunum. En þegar nútímamenn reyndu að leika þetta eftir komust þeir fljótt að því að ekki er sama hvaða húsdýraáburður er notaður því metangas myndast gjarnan í safnhaugum og nái það ákveðnu stigi springur haugurinn. Með því að nota hrossatað og hálm er hægt að halda við ákveðnu hitastigi án þess að illa fari og í görðum Heligan er nú aftur framleiddur ananas með sömu aðferð og notuð var fyrir rúmlega öld.
Nýr paradísargarður
Edensverkefnið er eitt af þeim þúsaldarverkefnum sem Bretar réðust í. Tim Smit fannst ekki nóg að gert þegar garðarnir við Heligan skörtuðu sínu fegursta að nýju svo hann setti saman hugmynd að edensgarði sem bæði mætti njóta vegna fegurðarinnar og fræðslugildisins. Í stærsta gróðurhúsi í heimi hefur verið endurskapað gróðurfar nánast allra landsvæða í veröldinni. Þar er nú að finna sýnishorn af næstum öllum plöntum sem þekktar eru. Til stendur að smíða eitt hús enn og hýsa þar eyðimörk en þá mun því markmiði náð að hafa sýnishorn af öllum gróðri sem þekktur er í heiminum.
Verkefninu var fundinn staður ofan í gamalli námu sem var beinlínis blettur á umhverfinu. Húsin sjálf eru í raun ákveðið verkfræðilegt afrek því koma þurfti stórum krönum fyrir inni í þeim til að hægt væri að koma rúðunum fyrir í grindinni og mikla hugkvæmni þurfti til að koma krönunum út úr húsunum aftur þegar búið var að setja þau saman. Þessi sérstæðu kúluhús nýttust svo framleiðendum James Bond myndanna til að skapa heimili hins illa Gustavs Graves í Die Another Day. Með hjálp tölvutækninnar voru húsin flutt til og sett niður við skriðjökulinn í Jökulsárlóni á Breiðamerkursandi.
Í görðum edensverkefnisins er hægt að eyða mörgum dögum ef því er að skipta. Ríflega tvær milljónir manna heimsækja staðinn árlega og þetta er vinsælt útivistarsvæði heimamanna. Fólk kemur gjarnan með nesti með sér og eyðir þarna deginum. Annars þarf enginn að hafa áhyggjur af því að svelta í paradísargarðinum. Þar eru margir veitingastaðir sem hafa á matseðlinum rétti sem henta bæði fullorðnum og börnum. Á haustin, þegar uppskerutími ýmissa nytjajurta hefst, er fólki boðið að koma, taka þátt í vinnunni og hafa með sér heim hluta af afurðunum. Einna vinsælast er að koma þegar lavenderinn er í fullum blóma og taka með sér heim stóra vendi til að leggja milli rúmfatanna í línskápnum, setja í baðið og stilla upp í vasa. Ilmurinn af lavender er frískandi og sefandi, að sögn ilmolíusérfræðinga. Hann veitir í senn bæði hvíld og endurnýjaða orku.
Snert, horft og smakkað
Víða í gróðurhúsunum eru stöðvar þar sem fólki gefst færi á að kynnast framandi jurtum betur til að átta sig á hvernig samspili þeirra og mannsins er háttað. Hægt er að staldra við, smakka þurrkaða banana, epli eða aðra ávexti eða koma við í lyktarstöðinni og anda að sér ilmi ýmissa jurta. Kryddjurtirnar eru geymdar í litlum skúffum sem dregnar eru fram og þá gýs upp ilmurinn af eðalkryddi sem sæfarar fyrri tíma lögðu líf sitt í hættu við að sækja og flytja til Evrópu. Þar eru einnig úðastútar sem sprauta má úr höfugum ilmi þeirra jurta sem helst eru nýttar til ilmvatnsgerðar. Gestir eru einnig hvattir til að snerta plönturnar en sumar þeirra er trékenndar, aðrar flauelsmjúkar og sumar svo viðkvæmar að þær leggja saman blöðin eða lokast þegar mannshöndin kemur við þær.
Í regnskóginum er hægt að skoða dæmigerð híbýli íbúa í þeim heimshluta þar sem slíkar plöntur vaxa og það er svolítið skondið á sjá sjónvarp inn í strákofa og litla vespu fyrir utan. Sýnishorn af kofum Afríkubúa og bústöðum fólks við Miðjarðarhafið má einnig sjá í sínu umhverfi.
Minjagripaverslanirnar á edenssvæðinu eru mjög skemmtilegar því þar er selt handverk úr nágrenninu og sérstök áhersla lögð á að vera með muni úr jurtum. Þar má líka fá ýmsar afurðir jurta, eins og sultur, ilmsápur og fleira. Að undanförnu hefur skapast töluverð umræða um malarnám á Íslandi. Sjálfstæðismenn höfðu áhyggjur af Geldinganesi fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar, Ómar Ragnarsson af Ingólfsfjalli og umhverfissinnar hafa bent á ljótar holur eftir malarnám víða um land. Kannski er það umhugsunarefni fyrir Íslendinga, með sína gróðurhúsamenningu, hvort ekki sé hægt að nýta þessi ljótu ör á landslaginu líkt og gert hefur verið í Cornwall.
Stærsta gróðurhús í heimi sem hýsir edensverkefnið eitt best heppnaða þúsaldarverkefni Breta. Þessi gróðurhús voru flutt í tölvu í Jökullón á Breiðamerkursandi í nýjustu Bond-myndinni.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.