Enginn skyldi vanmeta Dolly Parton. Þrátt fyrir þrýstin barminn, rauðan stútinn á vörunum og platínuljósa hárið sem er eins og steypt á hausinn á henni er engin ljóska hér á ferð. Í það minnsta ekki í þeim skilningi sem fólk almennt leggur í það orð. Dolly semur lög og texta, er frábær söngkona, frambærileg leikkona og bráðsnjöll bisnisskona.
Segja má að gríðarlegur haddur af platínuljósu hári, barmur á stærð við tvo meðalkörfubolta, þrýstnar fagurrauðar varir og örmjótt mitti hafi einkennt hana frá því hún fór að koma fram og syngja sjálf árið 1967. Fyrir þann tíma hafði Dolly samið nokkur vinsæl lög fyrir aðra. Níðþröngur satínklæðnaður, alsettur marglitum gervidemöntum og kögri bættist svo fljótlega við sem staðalbúnaður þegar hún var á sviði og utan þess virtist konan ekki síður hafa áhuga og ánægju af að skreyta sig. „Lifandi Barbídúkka handa fullorðnum,“ sögðu margir og hristu höfuðið. En ekki er allt sem sýnist, undir skrautlegu yfirborðinu leynist einstaklega hæfileikarík listakona og bráðskörp bissnesskona sem veit nákvæmlega hvað hún vill og hvernig hún á að nálgast það.
Og ekki nóg með það, hún hófst úr sárri fátækt til auðæfa og flest það sem hún hefur tileinkað sér er sjálflært. Dolly Rebecca Parton fæddist þann 19. janúar árið 1946 í litlum bjálkakofa við bakka Little Pigeon River í Pittman Center í Tennessee. Hún var fjórða í röð tólf systkina og hefur lýst aðstæðum fjölskyldunnar í laginu Coat of Many Colors en þar dregur hún upp einstaklega fallega mynd af móður sinni, Avie. Pabbi hennar, Robert Lee, var landbúnaðarverkamaður og ólæs og óskrifandi. Síðar í lífinu átti hún eftir að segja um hann að þrátt fyrir skort hans á menntun hafi hann verið einn greindasti maður sem hún hefði kynnst um ævina. Til marks um aðstæður þeirra má nefna að bjálkahúsið var aðeins eitt herbergi og Avie var aðeins þrjátíu og fimm ára þegar hún eignaðist tólfta barnið.
Með tónlistina og peningavitið í blóðinu
Líklega vildi það Dolly litlu og systkinum hennar til happs að móðurafi hennar var predikari og kirkjurækni var stór hluti af lífi þeirra og tónlistarhefð rík í bæði kirkjunni og í móðurfjölskyldunni. Avie var heilsutæp, hugsanlega höfðu tíðar barneignir þar eitthvað að segja, en hún var natin móðir og naut þess að segja börnunum sínum sögur og syngja fyrir þau. Þegar Dolly var enn mjög ung eignaðist faðir hennar sinn eigin bóndabæ og þangað fluttu þau. Vegna þessa hefur Dolly oft sagt að listahæfileikar hennar séu frá móðurinni en skynbragð hennar á peninga frá föðurnum.
Kirkja afa hennar, Jake Robert Owens, hét The Church of God og aðeins sjö ára var Dolly farin að spila á heimasmíðan gítar við messur. Móðurbróðir hennar færði henni fljótlega betra hljóðfæri og níu ára gömul var hún farin að koma reglulega fram í útvarps- og sjónvarpsþáttum í litlum staðbundnum ljósvakamiðlum í fylkinu. Þrettán ára tók hún upp tvö lög sem gefin voru út á lítilli plötu. Í kjölfar þess kom hún fram í hinu þekkta tónlistarhúsi Grand Old Opry í Nashville. Þar hitti hún Johnny Cash og hann hvatti hana til að gera tónlistina að ævistarfi og láta ævinlega eigið innsæi ráða för í öllum ákvörðunum.
Árið 1964 útskrifaðist Dolly úr „high school“ eða bandarísku ígildi menntaskóla og flutti daginn eftir til Nashville. Hún hafði þá þegar skrifað undir samning við Combine Publishing Company en starfið sem hún var ráðin í var lagahöfundur. Lög hennar voru flutt af nokkrum vinsælustu skemmtikröftum þess tíma og rötuðu á plötur þeirra en ekkert hljómplötufyrirtæki vildi taka þá áhættu að leyfa Dolly að syngja eigin tónlist. Henni var sagt að rödd hennar hæfði ekki sveitatónlistinni. Hún of skær og vibratóið of mikið.
Fórnarlamb eigin ímyndar
En Dolly gafst ekki upp. Hún hafði trú á sjálfri sér og þegar Porter Wagoner, vinsæll sveitasöngvari, bauð henni að vera hluti af sjónvarpsþætti hans, stökk hún á tækifærið. Til að byrja með var henni ekki vel tekið. Fyrirrennari hennar, Norma Jean Beasler, var mjög vinsæl og margir töldu að Dolly hefði bolað henni burtu. Oft var þess vegna púað á hana þegar hún gekk fram á sviðið og klappað og kallað eftir Normu Jean. Það þarf sterk bein til að þola slíkt. Dolly hafði þrautseigjuna sem til þurfti. Porter var einnig ákveðinn í að styðja hana og fljótlega fór einlægni hennar og opinn persónuleiki að hafa áhrif og ekki spillti falleg röddin. Porter tókst einnig að sannfæra yfirmenn sína hjá RCA Records að taka upp litla plötu með henni. Lagið Just Because I’m a Woman kom út árið 1968, náði sautjánda sæti á vinsældalistanum en skilað litlu öðru. Á sama tíma nutu dúettar sem hún söng með Porter mikilla vinsælda. Það var ekki fyrr en lagið Joshua kom út árið 1971 að hjólin tóku að snúast og menn að átta sig á hverslags hæfileikakona væri hér á ferð. Jolene kom síðan út árið 1973 og segja má að síðan þá hafi Dolly Parton ekki þurft að hafa áhyggjur af starfsferlinum.
Dolly hefur reynst vera mikið kameljón og getað tileinkað sér margvíslega tónlistarstíla. Hún á fyrir utan ótal þekkt sveitatónlistarlög, marga popphittara ef nota má þá slettu en einn sá þekktasti er án efa 9 to 5 en Dolly lék í samnefndri kvikmynd. Um tíma var hún með eigin sjónvarpsþátt, var einnig mjög vinsæl tónleikstjarna og þótti hafa skemmtilega sviðsframkomu. Síðasta tónleikaferð hennar var farin árið 2016 og Dolly hefur enn ekki lýst því yfir að hún sé hætt slíku þótt hún sé orðin sjötíu og átta ára. Auk alls þessa hefur hún verið upptökustjóri á mörgum plötum annarra listamanna og verið dugleg að gefa hæfileikafólki tækifæri.
Þegar femínisma tók að vaxa fylgi í Bandaríkjunum urðu margir til að gagnrýna Dolly fyrir ýkt útlit hennar. Margar konur töldu að hún gæfi viljandi þá hugmynd að hún væri heimsk, viðkvæm og ósjálfstæð. Sjálf hefur Dolly Parton sagt um eigið útlit: „Fólk fæst ekki til að trúa því að undir þessu öllu saman leynist listamaður sem tekur sig alvarlega. Á þann hátt má segja að ég sé fórnarlamb minnar eigin ímyndar. En þetta útlit er vörumerki mitt, það vekur athygli og það selur. Reyndar er dýrt að líta svona ódýrt út. En þegar ég var lítil, þá sá ég eitt sinn konu með mikið aflitað hár, eldrauðar varir og neglur og hún gekk á himinháum hælum. Þetta var það alflottasta sem ég hafði séð og svona langaði mig til að vera. Mamma sagði mér að þetta væri hóra og ég svaraði því til að þá vildi ég verða hóra þegar ég yrði stór.” En Dolly varð ekki hóra og hún varð heldur ekkert sérlega stór, en hún er rétt rúmir 150 sentimetar á hæð.
„Lög hennar flutt af nokkrum vinsælustu skemmtikröftum þess tíma og rötuðu á plötur þeirra en ekkert hljómplötufyrirtæki vildi taka þá áhættu að leyfa Dolly að flytja eigin tónlist.“
Afkastamikill og virtur lagasmiður og viðskiptajöfur
Dolly Parton hefur selt yfir hundrað milljónir platna á ferli sínum og hlotið ýmis verðlaun, þar á meðal sjö Grammy verðlaun. Aðalvettvangur hennar hefur verið sveitatónlistin en hún hefur þó flutt ýmsa aðra tónlist. Dolly semur mestalla tónlist sína sjálf og hefur einnig samið tónlist fyrir ýmsa tónlistamenn. Einnig hefur hún spreytt sig á kvikmyndaleik með prýðisárangri. Fyrir utan það að flytja og semja tónlist er Dolly Parton umsvifamikill viðskiptajöfur en hún er talin vera ríkasti sveitasöngvari heims. Hún á framleiðslufyrirtæki sem framleiðir vinsælar kvikmyndir og sjónvarpsþætti, á fjölda veitinga- og skemmtistaða og rekur hinn vinsæla skemmtigarð Dollywood, sem er staðsettur í Smoky Mountains í Tennessee, þar sem hún ólst upp. Fátæktin og skorturinn á uppvaxtarárunum er henni þó alltaf ofarlega í huga þrátt fyrir alla velgengnina og ríkidæmið. Hún styður fjölda góðgerðarmála, eitt dæmi um það er The Imagination Library, þar sem öll börn undir fimm ára aldri sem búa í sýslunni þar sem hún ólst upp fá bók að gjöf mánaðarlega.
Tvítug að aldri giftist hún malbikunarmanninum Carl Dean og þau eru ennþá gift. Hjónunum hefur ekki orðið barna auðið en þau ólu upp nokkur yngri systkini Dollyar. Eiginmaðurinn er lítið gefinn fyrir athygli fjölmiðlanna og Dolly hefur lítið viljað tjá sig um hann í gegnum árin. Það hefur heldur betur gefið kjaftasögunum byr undir báða vængi og ýmsar sögur komist á kreik um framhjáhald hennar og ýmis glæsimenni verið nefnd til sögunnar í því sambandi. Sjálf hefur Dolly sagt um slíkan orðróm: „Ef ég hef ekki verið með þessum mönnum, þá er það ekki vegna þess að mig hafi ekki langað til þess.” Svo mörg voru þau orð.
Dolly hefur verið ófeimin við að viðurkenna að hafa farið í ýmiss konar fegrunaraðgerðir en segist ekki hafa látið breyta neinu, aðeins látið „fríska lítillega upp á sig.” Árið 2011 var svo mikið um það rætt, í kjölfar ævisögu Roseanne Barr, að handleggir Dollyjar væru allir tattúeraðir. Hún kemur jafnan fram í langerma toppum, kjólum eða samfestingum þótt hún sé ekki feimin að sýna barminn. Í gegnum tíðina hafa margar getgátur verið um hvað hún sé að hylja. Sjálf segist Dolly ekki sýna tattúin vegna þess að sér leiðist hversu mikið veður fólk geti gert út af smámunum. Tattúin séu hins vegar til að hylja ör sem hún hafi fengið á handleggina en húð hennar sé þannig að hún fái varanleg og ljót ör eftir litla áverka.
Eitt sinn var því haldið fram að NASA, Geimferðastofnun Bandaríkjanna, hefði hannað sérlegan útbúnað handa Dolly til þess að gera henni kleift að halda jafnvægi vegna þess hve þyngdarhlutföllin eru skökk út af fyrirferðarmiklum barminum. Hún hefur lofað að sitja fyrir allsnakin í Playboy þegar hún verður 100 ára. „Ég tek brandara um heimskar ljóskur alls ekki til mín. Í fyrsta lagi er ég alls ekki heimsk og í öðru lagi er ég síður en svo ljóshærð.” En hvað svo sem fólki kann að finnast um útlit hennar verður aldrei undan því vikist að Dolly Parton hefur hagað lífi sínu nákvæmlega eins og henni hentar best og nýtur þess til fulls.
„Pabbi hennar, Robert Lee, var landbúnaðarverkamaður og ólæs og óskrifandi. Síðar í lífinu átti hún eftir að segja um hann að þrátt fyrir skort hans á menntun hafi hann verið einn greindasti maður sem hún hefði kynnst um ævina.“
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.