Dollywood

Inga Dóra Björnsdóttir mannfræðingur

Inga Dóra Björnsdóttir skrifar

Nýlega varð ég þeirrar ánægju aðnjótandi að heimsækja Dollywood, sem er skemmtigarður í Piegon Forge, Tennessee, og er tileinkaður söngkonunni frægu Dolly Parton. Piegon Forge er smábær í austanverðum Smokey Mountains, en þar upp í fjöllunum ólst Dolly Parton upp í sárri fátækt í hópi tólf systkina.

Faðir Dollýar vann fyrir hinni barnmörgu fjölskyldu sinni með því að tína bómull upp á hlut á bómullarekrum og bar lítið úr bítum. Til að sjá fjölskyldunni farborða skaut hann villibráð til matar, börnin sáu um að tína villiber sem uxu í skóginum í fjallshlíðinni fyrir ofan hjallinn þar sem þau bjuggu.  Og móðir Dollýar var með stóran kálgarð, sem sá fjölskyldunni fyrir grænmeti og kartöflum.  Fatnaður var af skornum skammti og skór voru munaðarvara. Til að spara skóna gengu börnin tólf um berfætt á sumrin. Öll föt voru samnýtt og var mamma Dollýar dugleg við að sauma nýjar flíkur upp úr gömlum fötum. Eitt frægasta lag Dollýar “Coat of Many Colors” fjallar einmitt um jakka sem mamma hennar saumaði handa henni úr gömlum fataafgöngum.  Dollý mætti stolt í nýja, marglita jakkanum sínum í skólanum og var samstundis strítt út af honum. Hún lét það ekki á sig fá, vissi að hann var saumaður af ást, og er jakkinn nú til sýnis á safni í skemmtigarðinum, sem er tileinkað lífi og frama Dollýar.

Þrátt fyrir fátæktina ríktu miklir kærleikar og gleði á heimili Dollýar og þar var mikið sungið. Mamma Dollýar sagði að þegar Dollý hætti að gráta sem smábarn, hafi hún byrjað að syngja  og hún var svo lagvís og taktviss að hún gat sungið hvað sem var.  Dollý var ung þegar hún var fullviss um að hún ætti sér framvon í söngnum og byrjaði að semja eigin lög og koma fram á skemmtunum.  Ekki þarf að hafa mörg orð hér um velgengi Dollýar, hún er löngu orðin að bandarísku þjóðartákni og hefur unnið til ótal verðlauna á sínu sviði.  Hún er þó ekki aðeins þekkt fyrir söng sinn, heldur líka fyrir kvikmyndaleik, myndin 9 til 5 sló í gegn, en þar lék hún aðalhlutverkið ásamt Jane Fonda og Lily Tomlin.

Þó frami Dollýar hafi verið mikill og hún búið fjarri heimabyggð sinni meiri hluta ævinnar, hefur hún alla tíð haft sterkar taugar til æskuslóðanna. Og það var einmitt til að styrkja tengsl hennar við Smokey Mountain, sem hún kom upp með hugmyndina um Dollywood skemmtigarðinn og var hann opnaður með pompi og prakt árið 1986. Garðurinn er að hluta tileinkaður henni, þar er safn með hlutum úr lífi hennar þar sem finna má gull og demanta, útgáfur af metsöluplötunum hennar, glæsikjóla hennar, öskubuskuskópör í röðum og fleira áhugavert sem varpar ljósi á ævintýralegan feril Dollýar.

Fjölskylda Dollýar syngur reglulega í tónleikahöllinni og þá er Dollý stundum með á skjá

Í garðinum er líka að finna eina af mörgum rútum, sem Dollý hefur látið innrétta í sínum vel þekkta glamúr stíl, sem hún notaði til tónleikaferða.  Dollý var ekki eini söngfuglinn í fjölskyldunni, tónlistin lá einnig vel fyrir systkinum hennar og frændfólki. Hópur frændfólks hennar undir forystu bróður Dollýar, skemmta gestum með því að syngja lög Dollýar, minnst þrisvar sinnum á dag í tónleikahöll í garðinum, sem er tileinkuð henni.

Dollý vildi þó ekki að garðurinn snérist einungis um hana, heldur líka um fólkið hennar úr fjöllunum.  Hún vildi sýna að þrátt fyrir ímyndina um Hill Billies, þá væri þeim margt til lista lagt og í garðinum eru verkstæði, þar sem iðnaðarmenn og konur hafa til sölu framleiðslu sína, eins og járnverk, leirker, smíðagripi og hluti úr leðri og gleri.

Dollý var líka í mun að rækta ungt og efnilegt tónlistafólk og er gott framboð af tónlist í garðinum. Hægt er að ganga á milli staða og  hlusta á góða þjóðlagatónlist og horfa á listamenn dansa með.

Loks er að finna í garðinum allt sem maður finnur í skemmtigörðum yfirleitt: Þar er rússibani, parísarhjól, hringekjur og fljótabátar á á, sem rennur í gegnum garðinn. Loks er svo lest sem tekur gesti í smá hringferð um fjallið fyrir ofan garðinn, og er þar að finna hjall af sömu gerð og Dollý ólst upp í.

Þetta var dágóð skemmtun og gaman að kynnast sögu Dollýar Parton aðeins nánar. Hún er auðvitað alveg einstök að hafa komið upp skemmtigarði sem mun bera nafn hennar um aldur og ævi. Og nú er hún , 71 árs gömul, enn í fullu fjöri og ferðast um í flottri rútu milli staða, þar sem hún skemmtir fólki að venju fyrir troðfullu húsi. – Geri aðrir betur. Og þegar hún er ekki á tónleikaferðalagi, ferðast hún um með manni sínum í húsvagni þeirra hjóna og skoðar landið sitt stóra og fagra.

Inga Dóra Björnsdóttir október 16, 2017 09:43