Í hulduheimum skáldskaparins

Spegillinn svarar

Hvað er gerist þegar spegli er haldið upp að spegli? Hver verður spegilmyndin þá? Michael Ende snýr öll á hvolf, leiðir okkur inn í völundarhús mannlegrar tilveru þar sem allt getur gerst og ekkert er öruggt, ekki frekar en þegar Lísa steig í gegnum spegilinn inn í þá súrealísku veröld sem beið hinum megin.

Spegillinn í speglinum kom fyrst út árið 1984 og er safn þrjátíu smásagna og myndskreytt með myndum eftir föður höfundarins, Edgar Ende. Áður þekktu flestir höfundinn helst gegnum hugljúfar barnasögur á borð við Söguna endalausu en þessar sögur eru ekki barnameðfæri. Spegillinn í speglinum er safn dæmisagna á borð við dæmisögur Esóps. Okkur er ætlað að taka lexíu eða lexíur úr hverri og einni. Hér eru innstu rök tilverunnar undir, hamingjan, græðgin, virðingarleysið gagnvart náttúrunni, miskunnin, miskunnarleysið, samkenndin og afskiptaleysi. Eiginlega allt er snýr að mannlegri tilveru. Michael dregur úr lifandi og sterkar myndir í dæmisögum sínum og lesandinn situr eftir hljóður og skilur að hann verður sjálfur að velja hvern þann veg hann kýs að ganga.

Sjálfur sagði höfundurinn reyndar um þessa bók að lesandanum væri ekki ætlað að skilja hana og ef hann þættist hafa náð skilningi hefði hann aðeins náð að smætta þær niður í eitthvað sem hann þekkti fyrir, eitthvað kunnuglegt. Ímyndunaraflið og meðvitundin séu ávallt eyðilögð eða breytt þannig að ómögulegt sé að halda í þetta tvennt. Og kannski þarf ekki að skilja þessa bók, aðeins að njóta hennar, upplifa hana því það er sannarlega hægt. Hér er ímyndunaraflið óbeislað, ævintýrin gerast og alls konar heimar, verur og möguleikar birtast. En þótt hver og einn skilji sínum skilningi, leitist við að smætta og umbreyta til að ná utan um þann einstaka heim eða heima sem þarna birtast er þarna boðskapur. Boðskapur um mennsku, ákall um aukna virðingu fyrir náttúrunni hvert öðru. En fyrst og fremst er þetta er stórkostlega bók, afburðavel skrifuð og heillandi.

Af þessum heimi en þó ekki

Kristín Ómarsdóttir er ótrúlegt skáld. Móðurást, Draumþing er framhald af Móðurást, Oddný sem kom út í fyrra. Hér er Ísland á nítjándu öld endurskapað og gert að unaðslegum draumheimi. Við sjáum allt með augum Oddnýjar litlu í Bræðratungu. Hún er byggð á langömmu skáldkonunnar, Oddnýjar Þorleifsdóttur. Hún skarpgreind og frjó, hugurinn á sífellt að draga upp myndir, leita lausna og skoða heiminn.

Móðurást: Draumþing gerist ári eftir fermingu Oddnýjar. Hún er fimmtán ára og ævintýri sumarsins er að fara á Jónsmessumót til Setselju frænku sinnar á Syðri-Reykjum. Og þvílíkt ævintýri. Konurnar baða sig, tala saman tengjast og ilma af erlendum jurtum úr sápunni. Það borðað, dansað og kysst. Dagurinn og nóttin líða sem í draumi og Oddný litla sem rambar á fínni línu milli bernskuheimsins og fullorðinsveruleika færist skrefi nær því sem framtíðin ber í skauti sér.

Texti Kristínar er svo einstaklega fallegur, vel samansettur, úthugsaður og meitlaður. Þessi saga spannar aðeins 160 síður en manni finnst eins og þær vaxi og verði eitthvað svo miklu meira. Hún kann að skapa lifandi umhverfi, segja mikið með fáum orðum og kveikja ímyndunarafl lesenda sinna. Hér verður til dásamlegur draumaheimur, draumaþing, skálduð veröld full af von, hamingju, einfaldleika og umhyggju undir vökulu auga móðurinnar.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn október 25, 2024 07:00