Beinahús Guðrúnar

Glæpasaga hefur nú bæst á fjölskrúðuga ritferilskrá Guðrúnar Guðlaugsdóttur, blaðamanns, sem í áratugi hefur haft lífsviðurværi af ritstörfum af ýmsu tagi. Hún hefur sent frá sér viðtalsbækur, ævisögur, ljóðabækur, ástarskáldsögur, smásögur, meira að segja eina erótíska, auk þess sem hún hefur tekið viðtöl við fjölda fólks og skrifað pistla í blöð og tímarit sem og á netið, t.d. hér á Lifðu núna. Bókartitillinn, Beinahúsið, hljómar ábyggilega vel í eyrum unnenda glæpasagna, sem nú þegar hafa trúlega réttilega giskað á að sagan fjallar um dularfullan beinafund. Í gömlu húsi við Grettisgötu nánar tiltekið.

„Reyndar „flutti“ ég þangað hús, sem ég kom oft í sem barn og hagræddi svolítið herbergjaskipan og innanstokksmunum í þágu sögunnar,“ upplýsir Guðrún. Í stuttu máli segir hún aðalsöguhetjuna, Ölmu, blaðamann, fá inni í þessu húsi til að skrifa ættarsögulega skáldsögu. Óvæntir atburðir verði svo til þess að hún leggur þá sögu á hilluna og fer ásamt Sveinbjörgu, æskuvinkonu sinni, að rannsaka sögu fyrstu íbúa hússins.

Hvað gerðist, hvernig og hversvegna?

„Beinahúsið gerist á þremur tímaskeiðum, á seinni hluti 19. aldar, stríðsárunum og í nútímanum. Borgarlífið kallast á við sveitina og nútíminn speglast í hinu liðna. Ég þurfti því að leggjast í dálitlar sagnfræðirannsóknir til að hafa ýmislegt á hreinu varðandi staðhætti, tíðaranda og þess háttar. Þetta er þó fyrst og fremst saga um glæp, áherslan er á atburði og að finna út hvað gerðist, hvernig og hvers vegna. Sagan hverfist um sekt eða sakleysi og sannleikann og inn í hana fléttast dularfull fortíð, ástir, örlög og afbrýðisemi. Margt óvænt kemur upp úr dúrnum eftir því sem sögunni vindur fram,“ segir Guðrún, en tekur fram að léttleiki tilverunnar sé þó aldrei langt undan.

Í Beinahúsinu er komið inn á ofbeldi, einkum gegn konum og þeim sem minna mega sín. „Þótt glæpurinn og ráðgátan séu í fyrirrúmi er undirtóninn sammannleg málefni og samskipti,“ segir Guðrún. Sem fréttamaður á RÚV og blaðamaður á Morgunblaðinu í áratugi kynntist hún mörgum hliðum mannlífsins, tók ótal viðtöl og mörg við þá sem átt hafa um sárt að binda. „Hringingar til lögreglunnar voru eitt af skylduverkum helgarvaktanna á fréttastofu RÚV en strákunum sem unnu þar með mér fannst ég full ljóðræn í sakamálin. Og vissulega las ég mikið af ljóðum og menningartengdu efni í útvarpið, þau ár sem ég var dagskrárdeildinni,“ segir hún og kímir. Og spurð hvort svolítil Alma blundi kannski í henni svarar hún: „Nei, Alma er ekki ég. En auðvitað á ég ýmislegt sameiginlegt með henni – og öðrum konum. Í fjölskyldum og starfi koma upp mál sem þarf að fylgja eftir og leysa, stundum erfið, en þau gera mann reynslunni ríkari. Öll þau persónulegu viðtöl, sem ég hef tekið um dagana, hafa kannski ómeðvitað orðið mér uppspretta hugmynda. Í rauninni hef ég alltaf verið að fjalla um örlagasögur, verið á bólakafi í örlögum fólks og á það líklega helst sammerkt með söguhetju minni að vera forvitin eins og allir blaðamenn eru eflaust.”

Undirmeðvitundin að störfum

Guðrún segist í nokkur ár hafa velt fyrir sér að skrifa glæpasögu, sem fjallaði um ráðgátu í kringum beinafund. „Nánari útfærsla var þó óljós þar til í vor að sagan og sögupersónur komu bara eins og ljóslifandi til mín þegar ég var að keyra dótturdóttur mína í vinnuna einn morguninn. Ég hafði verið að vinna að handriti, sem ég var ekki ánægð með hvernig þróaðist. Ég ákvað því að leggja það til hliðar og skrifa allt öðruvísi bók. Þegar heim kom settist ég við eldhúsborðið og skrifaði fyrsta kafla Beinahússins. Morguninn eftir skrifaði ég annan kaflann, – kannski ekki ósjálfrátt, en var samt hissa á hve efnið lá ljóst fyrir. Og svona gekk þetta dag eftir dag, eftir að ég hafði gert sögupersónum upp ýmsa eiginleika og lagt helstu línur í plottinu. Það var eins og söguþráðurinn lifði sínu lífi í undirmeðvitundinni. Þegar ég fór að sofa á kvöldin var ég alltaf dálítið spennt að vita hvað myndi gerast daginn eftir.“

Svo vel sóttust Guðrúnu skrifin að Beinahúsið var aðeins tvo mánuði í smíðum, enda andinn yfir henni allan tímann. Að vísu þurfti hún drjúgan tíma til að fínpússa hér og þar eins og gengur á betri bæjum. Hún lætur fátt uppi um söguþráðinn, slíkt væri enda hálfgerður glæpur þegar glæpasaga á í hlut. Ölmu lýsir hún hins vegar sem rúmlega fimmtugri blaðakonu, sem stendur á krossgötum í hjónabandi sínu, og á uppkomnar tvíburadætur. „Annars er hún frábitin börnum, ekki alveg frábitin ástarævintýrum og er á þeim eftirsóknarverða stað í lífi sínu að vera frjáls. Sveinbjörg, vinkona hennar, er heimsborgari, búsett í Frakklandi, en snýr aftur til Íslands, sem hún ímyndaði sér að væri ennþá eins og þegar hún fluttist út, hún talar og hugsar svolítið öðruvísi en landinn og saman leggja þær stöllur upp í mikla rannsóknarleiðangra.“

Lífsreynslan og sögurnar

Guðrún er menntaður leikari, lék m.a. Línu langsokk hjá Leikfélagi Kópavogs árið 1969. Hún var formaður Leikfélagsins Grímu þegar leikritið Hvað er í blýhólknum, eftir Svövu Jakobsdóttur var sett upp á sínum tíma. Hún er á því að leikhússreynslan hafi skólað sig í bókaskrifum og líka sem blaðamann. „Þegar leikarar fá handrit þurfa þeir að setja kjöt á beinin, ef svo má segja, ákveða hvað hangir á spýtunni, hvernig eigi að túlka orðin og skilja hvaða hugarfar býr að baki. Þetta kenndi mér að oft notar fólk orð til að dylja hug sinn, ekki síður en að segja hann. Í viðtalsspjalli staldrar fólk stundum við, svo kemur kannski saga, sem það vill þó ekki endilega að birtist opinberlega. Það bitastæðasta birtist því oft ekki. En blaðamaðurinn fær vitneskjuna og auðvitað er hann bundin trúnaði. Vitneskjan býr samt með manni og kemur kannski löngu síðar fram á órekjanlegan hátt, t.d. í bókum,“ segir Guðrún. „Jafnvel í Beinahúsinu, hver veit?,“ bætir hún við íbyggin á svip.

Þótt margir minnist efalítið nýliðins sumars sem mikils rigningarsumars, gegnir öðru máli um Guðrúnu, fyrir henni var sumarið 2014 sólskinssumar. Beinahúsið sá til þess. Og Alma er ekki alveg horfin úr huga hennar, ýmsar ráðgátur þarf hún hugsanlega að leysa síðar.

 

 

Ritstjórn október 7, 2014 10:53