Þegar Guðrún, móðursystir Jóns Ársæls Þórðarsonar, var að baða hann fyrir skírnarathöfnina gerðust undur og stórmerki. Drengurinn átti að heita, Bjólfur, faðir hans hafði valið honum það nafn eftir landnámsmanni Seyðisfjarðar. En þarna breyttist andlit ungbarnsins í andlit látins vi fyrir augunum á Guðrúnu og hún kallar strax til systur sinnar og þær verða sammála um að hér sé verið að vitja nafns.
Faðirinn reyndi ekki einu sinni að deila við þær systur, enda vissu allir að það kann ekki góðri lukku að stýra að hlýða ekki þegar nafns er vitjað. Þar með var því sem sé afstýrt að Jón Ársæll fengi nafnið Bjólfur. Þessi saga er hins vegar ein af mörgum skemmtilegum sem hann segir í bókinni, Ég átti að heita Bjólfur. Í henni hverfur hann aftur til veraldar þegar börn réðu sig fimm ára í sveit á sumrin og fengu hænu með ungum eða rófupoka í laun. Næst var það svo fiskvinnslan og eftir að hann flutti til Reykjavíkur sendisveinahjólið, grásleppan, eyrarvinna og sjómennska. Enn var búið í torfbæjum í Reykjavík þegar Jón Ársæll hendist um á sendisveinahjólinu og sjálfsagt að börn og ungt fólk gengju í alls konar störf við hlið hinna eldri.
Þetta er skemmtilega skrifuð bók. Jón Ársæll er góður sögumaður og kann vel þá list að leyfa myndum af persónum, umhverfi og aðstæðum að lifna fyrir augum lesenda. Hann er líka glettinn og hvarvetna skín í gegn léttleikinn. En þótt hér séu saklaus bernskubrek til umræðu og lýsingar að staðháttum, venjum, mannlífi og verklagi sem nú er að mestu horfið er oft alvarlegur tónn undir niðri. Heimstyrjöld er nýlokið og Íslendingar fóru ekki varhluta af hættunum sem því fylgdu. Þeir lentu í raun milli stríðandi fylkinga bandamanna annars vegar Breta og hins Þjóðverja. Það var ekki heiglum hent að sigla togurum yfir Atlantshafið á þessum árum en menn gerðu það og meðal annars pabbi Jóns.
Lífsbaráttan var einnig hörð og ekkert um það spurt hvort menn væru duglegir eða ekki. Allir urðu að vinna, annars var engar bjargir að hafa. Síldin kom með sitt silfur en það þurfti líka að hafa fyrir henni. En þótt lesandinn skynji vissulega erfiðisvinnu og hve mjög menn urðu að hafa fyrir hlutunum er enginn vorkunnar- eða sútartónn í þessari bók. Þvert á móti, vinnan er skemmtileg, uppbyggileg og eftirsóknarverð. Það er líka eitthvert indælt sakleysi í þessum frásögnum, bernskur blær sem vekur óneitanlega nostalgíu meðal lesenda sem lifað hafa það sama, þekkja þessa veröld sem var.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.