Dönsk huggulegheit

Litla kaffihúsið í Kaupmannahöfn eftir Julie Caplin er nýjasta ljúflestrarbókin í búðunum en ástarsögur hafa selst í bílförmum á Íslandi á undanförnum árum.

Bókin segir frá Lundúnastúlkunni Kate Sinclair sem er í draumastarfinu sem kynningarfulltrúi hjá almannatengslafyrirtæki, stöðuhækkun er á næsta leiti og flottur kærasti á kantinum. Þegar kærastinn svíkur hana og hirðir sjálfur stöðuhækkunina með hugmynd frá Kate eru góð ráð dýr. Henni býðst nánast óvinnandi verkefni í kjölfarið við að kynna fyrirhugaða verslunarmiðstöð sem danskur auðkýfingur ætlar að opna í borginni. Kate hefur örskamman tíma til undirbúnings og stingur upp á kynningarherferð þar sem dönsk huggulegheit yrðu í forgrunni. Skömmu síðar er hún komin til Kaupmannahafnar og með henni fimm ólíkar fjölmiðlamanneskjur. Ferðin gengur út á að hópurinn upplifi hvernig eigi að njóta lífsins á danska vísu, fái skilið hvað hygge-stemingin standi fyrir og kynni vonandi herlegheitin í miðlum sínum. Ef allt færi að óskum yrði Kate vonandi metin að verðleikum og fengi langþráða stöðuhækkun.

Þessi stutta ferð til Danmerkur verður ekki bara viðburðarík, heldur líka örlagarík, fyrir Kate og aðra í hópnum. Greinilegt er að höfundurinn, Julie Caplin, er yfir sig hrifin af Kaupmannahöfn og öllu því sem danskt er, nánast einum of, en hverjum finnst Köben svo sem ekki vera dásamleg?

Bókin er ljúf og þar eru kunnugleg stef kveðin eins og vera ber. Aðalpersónurnar tvær hafa andstyggð hvor á annarri í upphafi en samt nær lítill neisti að kvikna á milli þeirra og eftir að hafa kynnst betur í hygge-ferðinni verður neistinn að litlum loga. Svo verða auðvitað ýmsar flækjur og misskilningur áður en allt fer eins og best verður á kosið.

Persónugallerí bókarinnar er frekar svarthvítt, gott fólk og vont fólk, en það er samt svo miklu betra en þegar til dæmis kvenkynssöguhetjur eru látnar vera krúttlegir gallagripir; klaufskar, heimskar, kaupsjúkar og læra á síðustu stundu, rétt áður en maðurinn yfirgefur þær og börnin vaxa frá þeim, að starfsframi sé ekki fyrir konur.

Kate, okkar kona, er sannarlega ekki neinn gallagripur, hún er góð manneskja, heiðarleg, klár og góð í sínu starfi, vissulega vanmetin og var óheppin með val á síðasta kærasta.

Ástarsögur eru misgóðar. Meira að segja þessar af betra taginu geta verið dísætar, væmnar, ótrúverðugar og fullar af klisjum um rómantík. Samt, það getur ekki verið annað en hollt fyrir sálartetrið að lesa annað slagið ljúfar bækur sem enda vel.

Litla kaffihúsið í Kaupmannahöfn var tilnefnd sem besta ljúflestrarbókin í Bretlandi árið 2019.

Kristín V. Gísladóttir þýddi, Ugla gefur út.

Guðríður Haraldsdóttir, blaðamaður Lifðu núna, skrifar

Ritstjórn október 22, 2023 17:22