Þetta er sáningartíminn. Nú er gott að koma sér fyrir í bílskúrnum eða eldhúsinu og sá fyrir kryddjurtum sumarsins, taka afleggjara eða umpotta blómunum. Sumar jurtir eru svo harðgerðar að þeim má planta beint út í garð en hér á landi er öruggara að gefa fræinu tíma til að spíra og verða að ræktarlegri plöntu áður en farið er með hana út. Yfirleitt þurfa fræin fjórar til átta vikur til að verða að nægilega stórri og sterkri jurt. Eftir það má fara með þær út og koma þeim fyrir í þeim beðum sem þeim er ætlað að skreyta. .
Fræ og mold
Í flestum garðvöruverslunum er hægt að kaupa fræpoka. Aftan á þeim eru yfirleitt góðar upplýsingar um hvernig best sé að sá innihaldinu, vaxtartíma og æskileg vaxtarskilyrði. Gott er að sá í bakka en litlir pottar eru líka fyrirtak. Sumir kjósa reyndar að endurnýta jógúrt dósir eða önnur ílát undan matvörum í einmitt þetta. Góð sáðmold er líka fáanleg í garðvöruverslunum og hún hefur einmitt rétta samsetningu og á að vera skimuð sérstaklega þannig að í henni séu hvorki óæskileg meindýr, annar gróður eða sjúkdómar. Til að tryggja sig enn frekar er gott að þvo úr vel heitu vatni öll áhöld sem menn ætla að nota við sáningu. Algengasta aðferðin við sáningu er að hella 6-7 cm þykku lagi af sáðmold í bakka og þjappa síðan létt yfir þar yfirborðið er orðið nokkuð slétt. Fræjunum er dreift yfir eða komið fyrir einu og einu í litlum holum ef þeim er dreift yfir moldarlagi komið fyrir ofan á þeim, ekki mjög þykku. Moldin er síðan vökvuð og henni haldið vel rakri en ekki rennandi blautri fyrstu vikurnar meðan á spírun stendur. Fíngerð fræ eins og af brúðarauga, tóbakshorni eða ljónsmunna eru látin liggja ofan á moldinni og ekki hulin. Mörg fræ þurfa góða birtu til að spíra en ef þau eiga að spíra í myrkri er gott að setja laust plast ofan til að halda við rakanum.
Sáðtöflur
Sumir kjósa að nota sáðtöflur en þær eru seldar víða í garðvöruverslunum. Þær samanstanda af samanþjappaðri svarðmold eða kókosmold, Sáðtaflan er sett í vatn þá þrútnar hún út og vex þar til hún hefur náð að verða á stærð við blómapott. Þá má koma henni fyrir í potti og sá síðan fræinu eða fræjunum í hana. Utan um sáðtöfluna er net og ræturnar vaxa gegnum það. Það má svo auðveldlega koma þessu fyrir í stærri potti eða beint út í beð þegar plantan hefur náð æskilegri stærð.
Passa að merkja
Það borgar sig alltaf að merkja vel pottana eða bakkana því sjaldnast man maður hvaða jurtir eru á hvaða stað. Það gott að hafa mynd af plöntunni eða skrifa sem mestar og bestar upplýsingar t.d. tegund, litur eða litbrigði og hvenær var sáð.
Birta og ylur
Flest fræ þurfa að vera á hlýjum stað til að spíra. 18°-20° C er æskilegt hitastig. Ef plast hefur verið lagt yfir bakkana þarf að fjarlægja það um leið og spírurnar taka að koma upp. Þá þurfa plönturnar gott loft. Sumar þurfa einnig birtu og best að færa þær sem fyrst í hana.
Gróðursetning
Næst tekur við grisjun og í sumum tilfellum sáning í aðra potta eða bakka. Kímplönturnar þurfa pláss ef þær eiga að ná að vaxa sem hraðast og best og þess vegna er um að gera að byrja snemma að skipta þeim upp. Þær eru færðar yfir góða gróðurmold og stærri bakka. Það þarf að gróðursetja þær þannig að kímblöðin séu sem næst moldinni og gefa þeim vaxtarrými sem er sirka 6×6 cm fyrir hverja plöntu en það fer þó einnig eftir því um hvers konar plöntu er að ræða. Nú er nauðsynlegt að þær fái góða birtu en fremur lágt hitastig er æskilegt eða um það bil 18°C.
Moldin þarf helst að vera alltaf ofurlítið rök en það þarf ekki að gefa áburð ef notuð er tilbúin gróðurmold. Algengast er að planta sumarblómum hér á landi um mánaðamótin maí/júní. Það fer þó alveg eftir veðurfari en margar jurtir þola alls ekki vorkuldann hér og ekki hægt að tryggja að ekki komi frost jafnvel þótt komið sé fram í júní. Sumir fara þá leið að setja sumarblómin fyrst út í pottum og kippa þeim inn ef veðrið versnar. Börn hafa gaman af að sjá hvernig jurt vex upp af fræi og sérlega gaman að hafa barnabörnin með þegar verið er að gróðursetja.