Barnabörnin og starfslokin kölluðu þau suður

Það var árið 2020 þegar starfslok nálguðust hjá þeim hjónum Séra Sigurði Rúnari Ragnarssyni og Ragnheiði Hall í Neskaupstað, að þau ákváðu að flytja suður. Þá voru börnin þeirra þrjú öll fyrir sunnan, ein dóttir í Mosfellsbæ og tvö í Reykjavík og barnabörnin að koma til skjalanna. Það skipti þau miklu máli, en þau hafa eignast þrjú barnabörn á síðustu tveimur árum.

Fylgdust með gosinu út um gluggann

Þau bjuggu 21 ár í í Mosfellsbæ þar sem Sigurður Rúnar starfaði sem prestur í 1 ár. Þaðan lá leiðin austur í Neskaupstað árið 1999 þar sem Sigurður var skipaður sóknarprestur,  og þar voru þau önnur 21 ár „Svo ætlum við að vera 21 ár hérna, er það ekki bara hár lífaldur“, segir Ragnheiður og hlær. Við sitjum í fallegu stofunni í nýju íbúðinni þeirra í Neðstaleiti 4 í Reykjavík og horfum út um gluggann þar sem nær allur Reykjanesskaginn blasir við. „Við gátum horft á gosið frá upphafi hér út um gluggann“, segir Sigurður og bendir á stóran kíki sem þau notuðu mikið á meðan gosið stóð yfir.

Allir með grímur og allt lokað

Sigurður Rúnar er fæddur og uppalinn í Neskaupstað, en Ragnheiður er Reykvíkingur og fjölskylda hennar bjó lengst af í Norðurmýrinni. Hún var að vinna í Þjóðleikhúsinu þegar Sigurður fékk prestsstarfið í Neskaupstað og hafði ekki áhuga á að hætta þar, en sló til. „Ég kem í 5 ár“, sagði hún. Á meðan þau voru í Neskaupstað vann hún á skrifstofu Síldarvinnslunnar.  Nú eru þau komin aftur suður og hafa sest að í Reykjavík.  „Ég var farin að hlakka til að flytja suður og geta farið í leikhús, á tónleika og hitt ættingja og vini. Hvað tók svo við? Allir með grímur og allt lokað!“, segir hún.  Þau eiga hins vegar lítið hús niður við sjóinn í Neskaupstað og hafa í hyggju að dvelja þar af og til. Þar eru þau líka með bát sem þarf að dytta að.

Presturinn og hringaberinn í brúðkaupi Katrínar Halldóru

Barna og barnabarnalán

Börnin þeirra eru Ragnar Árni sem er lögfræðingur í Seðlabanka Íslands, Þóra Kristín lögfræðingur   sem einnig er hárgreiðslukona og svo Katrín Halldóra leik- og söngkona, sem söng sig inn í hjörtu þjóðarinnar í hlutverki Ellýjar Vilhjálms í Borgarleikhúsinu.  Þau eru öll komin með fjölskyldur og barnabörnin eru tveir drengir sem fylgdu með mökum barnanna, 15 og 23 ára  og svo fjögur til viðbótar, ein stúlka sem er 7 ára og svo 2  litlir drengir 1-2ja ára og 1 dama 1 árs.  Það er Ragnar sem á 15 ára stjúpsoninn Val Kára sem er grunnskólanemi og mjög efnilegurl körfuboltadrengur og dæturnar Jóhönnu Katrínu sem er 7 ára og Ingveldi Kötlu sem er rúmlega 1 árs.  Þóra Kristín á soninn Elmar Dag sem er ársgamall og Katrín Halldóra soninn Stíg sem er að verða tveggja ára og stjúpsoninn Óðinn Ívar sem býr á Akureyri. Hann er 23 ára og starfar hjá Securitas.

Gott að geta skilað þeim

Sigurður Rúnar og Ragnheiður segjast hafa verið mjög upptekin þegar börnin þeirra voru að alast upp, eins og foreldrar gjarnan eru. Nú séu þau komin í bæinn og hætt að vinna, þannig að þau hafi tíma fyrir barnabörnin. „Okkur finnst það yndislegt og var farið að þyrsta í að vera meira með þeim“, segja þau. Á síðustu tveimur árum hefur orðið sprenging hjá fjölskyldunni, með fæðingu þriggja barnabarna.  „Það er frábært að fá þetta tímabil núna, við erum ekki í vinnu og getum hjálpað til ef eitthvað er“, segir Sigurður og Ragnheiður bætir við: „Það er líka gott að geta svo skilað þeim“.  Þau spila golf í góðra vina hópi og hafa hugsað sér að halda því áfram, eins ferðast þau talsvert mikið.  Þá hefur Sigurður einnig gaman af veiðiskap og er líka félagi í Kór eldri Fóstbræðra og Ragnheiður er í gönguhópi.

Barnabörnin eru svo ólík

Eins og margir afar og ömmur hafa þau komið sér upp dóti fyrir  barnabörnin,  þremur barnastólum til að hafa við borðstofuborðið og ýmsu fleiru. „Við fórum bara í barnaloppuna“, segir Ragnheiður. Þau segja einna skemmtilegast að horfa á  barnabörnin vaxa og þroskast. Svo sé gaman að sjá hvað þau eru ólík. Jóhanna Katrín sé mjög lifandi og uppátektarsöm stúlka, alger brandarakerling og litla systir Ingveldur Katla brosmild og ákveðin.  Elmar Dagur sé hins vegar mjög íhugull og vakandi yfir öllu á meðan Stígur sé mikill stuðbolti og alltaf kátur.  Eldri drengirnir sem fylgdu tengdabörnunum séu einnig frábærir. „Við hefðum ekki getað verið heppnari með börnin, tengdabörnin og barnabörnin öll“, segir Sigurður Rúnar.      Greinin var uppfærð 14.nóvember 2022.

Elmar Dagur, Stígur,Jóhanna Katrín og Ingveldur Katla

 

 

 

Ritstjórn maí 3, 2022 07:00