Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.
Enskt orðtak segir að enginn geti fyllilega skilið annan fyrr en hann hefur gengið mílu í skónum hans. Þetta er góð speki vegna þess að í raun og veru er aldrei hægt að dæma nokkurt líf sé horft á það utan frá. Þetta er líka svo skynsamlegt að allir finna að það er satt en samt gleymum við þessu reglulega og setjumst í dómarasæti yfir öðrum. Við þykjumst vita betur og skynja hinn eina stóra sannleika eða innstu rök tilverunnar. Auðvitað á þetta að vera svona og engan veginn öðruvísi. Það er sjálfsagt að fólk felli sig í það mót sem okkur finnst hentugast, enda passar það okkur og ætti því að vera fullgott fyrir alla aðra.
En einmitt þar liggur vandinn þótt hjörtum mannanna svipi saman í Súdan og Grímsnesinu ber samt hvert hjarta einstaklingseinkenni. Þess vegna erum við öll jafnólík og fingraför okkar. Við getum því aldrei fullkomlega verið viss um að við höfum allar forsendur til að dæma aðra. Við getum dæmt en aðeins fyrir okkur sjálf, valið og hafnað eingöngu því sem snertir okkar líf Þess vegna verð ég alltaf jafnundrandi þegar ég heyri fólk tala í niðrandi tóni um lífsstíl, lífsgildi, trúarbrögð eða val annarra á ástvini.
Hverju skiptir það hvort strákur kyssir strák eða stelpa stelpu ef það veitir þeim hamingju? Er það virkilega svo erfitt að læra muninn á kvár og hán eða gleðjast með trans fólki yfir því að það hefur gengist við eigin sjálfi? Er ekki nógu erfitt að höndla hamingjuna svona almennt til að við getum fagnað því innilega þegar einhverjum tekst það? Hvers vegna í ósköpunum látum við það ergja okkur að einhver kýs annars konar gæfu? Er ekki fjölbreytileikinn einmitt stærsta gæfa mannkynsins?
Umburðarlyndi verður að rækta. Það þarf að sá fræjum og vökva þau reglulega til að tryggja viðgang þessa þáttar í eðlinu. Helsti óvinur umburðarlyndisins er dramb. Sú tilfinning að þú hafir einhvers konar yfirburðastöðu og vitir því betur en samborgarnir. Þegar hrokinn nær yfirhöndinni er ekki von á góðu vegna þess að þá sest einstaklingurinn ekki bara í dómarasætið heldur telur sig þess umkominn að predika og skíra aðra til eigin trúar.
Ég hef aldrei geta skilið þá viðleitni. Frá barnæsku hefur efinn fylgt mér hvert fótspor. Efinn um að ég sé að gera einmitt það sem ég á að gera, hafi rétt fyrir mér og sé að vinna verkin á besta mögulega hátt. Vegna þessa hef ég aldrei verið fyllilega sannfærð um að mínar skoðanir séu einmitt þær skynsamlegustu og þess vegna þurfi að viðra þær og neyða aðra til að tileinka sér þær. Mér nægir að vita svona nokkurn veginn frá degi til dags að ég sé að gera það sem ég tel best fyrir sjálfa mig.
Ég leitast líka við að rækta með mér þolinmæði og skilning gagnvart mínum nánustu og vinna að því að styðja þá fremur en að knýja þá til að fara þær leiðir sem ég myndi kjósa þeim til handa. Vegna þess að þetta er heilmikið starf hef ég aldrei hafi tíma til að elta ólar við vandamál konunnar í næsta húsi eða hennar athafnir. Thomas Jefferson sagði að það skipti hann engum hvort nágranni hans héldi einn guð í heiðri eða tuttugu svo lengi sem enginn þeirri tæki upp á að stela frá honum eða fótbrjóta hann. Ég er eiginlega alveg sammála honum og held að það sé jafnauðvelt að brjóta bein í kirkjutröppum og á göngu upp að mosku.
En einmitt í augnablikinu er ég sannfærð um að Ayaan Hirsi Ali hafði rétt fyrir sér þegar hún sagði: „Umburðarlyndi gagnvart hörku og kreddum er ragmennska. Það er engin afsökun til fyrir því að spúa eitruðu hatri yfir fólk vegna eigin skorts á ímyndunarafli og getu til að reyna að ganga mílu í annarra skóm. Ég væri heldur ekki manneskja ef ég þegði. Þótt ég myndi aldrei leggjast jafnlágt og þeir sem kjósa að dreifa hatursáróðri hvort sem það er undir yfirskini skoðana eða húmors verð ég að viðurkenna að slíkir einstaklingar hafa engan skilning á gildi tjáningarfrelsis og þeirri baráttu sem það kostaði að koma því á.“