Stórmót Árbæjarsafns og Taflfélags Reykjavíkur fer fram sunnudaginn 1. september og hefst kl. 14. Mótið gefur einstakt tækifæri til að takast á við skákgyðjuna í sögulegu umhverfi Árbæjarsafns segir fréttatilkynningu frá Borgarsögusafni. Í tilkynningunni segir ennfremur:
Tefldar verða sjö umferðir með umhugsunartímanum 4 mínútur auk 2 sekúndna viðbótartíma eftir hvern leik (4+2). Veitt verða verðlaun fyrir þrjú efstu sætin, 15.000 kr., 10.000 kr. og 5.000 kr. Mótið verður reiknað til alþjóðlegra hraðskákstiga.
Þátttökugjald er greitt með því að greiða aðgangseyri inn á safnið samkvæmt gjaldskrá Árbæjarsafns (2.350 kr. fyrir fullorðna). Frítt er fyrir handhafa Menningarkortshafa Reykjavíkurborgar, öryrkja og börn 17 ára og yngri. Þátttökugjaldið er greitt við inngang safnsins. Mótið fer fram í Kornhúsinu sem er neðst á safnsvæðinu.
Óskað er eftir því að keppendur skrái sig í gegnum hefðbundið skráningarform á vef Taflfélags Reykjavíkur eða í viðburðinum á Facebooksíðu Árbæjarsafns.