Veitt úr jólabókaflóðinu

Fólkið á ritstjórn Lifðu núna er bókelskt og les mikið. Jólabókaflóðið er því kærkomið og tíminn fyrir og um jólin yfir góðri bók dýrmætur. Við forvitnuðumst um hvað blaðamenn væru að lesa núna og hvað þeir geymdu sér til jólanna.

„Þríleikinn eftir norska skáldið Jon Fosse,“ segir Sólveig Baldursdóttir. „Bækurnar nefnast Andvaka, Draumar Ólafs og Kvöldsyfja en fyrir þær hlaut Fosse Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2015. Stíll bókanna er mjög óvenjulegur en þær eru skrifaðar án punkta eða komma. Höfundur notar endurtekningar til að leggja áherslu á sum atriðin. Það er nánast dáleiðandi að lesa slíkan texta en hann heldur algerlega. Hver saga er ekki mörg orð en vekur spennu og löngun til að lesa þá næstu. Hjalti Rögnvaldsson íslenskaði textann meistaralega.

Ég mæli líka með, Smámunir sem þessir, eftir írsku skáldkonuna Clair Keegan en hún var tilnefnd til Booker-verðlaunanna 2022. Bókin hefur ferngið geysilega góða dóma um allan heim en hún fjallar um von, hugrekki og samlíðan í samfélagi þar sem spilunum er ekki deilt jafnt. Þetta er mjög áhrifamikil saga.

Þriðja bókin á náttborðinu mínu er eftir Nönnu Rögnvaldardóttur og nefnist Valskan. Fyrirmynd Nönnu er formóðir hennar en sagan er frábær aldarfarslýsing. Nanna skrifar textann af mikilli leikni og þar sem hún hefur ritað ótal bækur um mat þá er skemmtilegt að sjá hvernig hún fer með bragð og ilm sem hún kemur lystlega frá sér á blaðsíðurnar.“

„Ég las tvær ljómandi fínar nýlega; Miðilinn eftir Sólveigu Pálsdóttur og Hvítalogn eftir Ragnar Jónasson,“ segir Guðríður Haraldsdóttir. „Er byrjuð á Völsku eftir Nönnu Rögnvaldardóttur en ætla að treina mér hana til jóla, ásamt Dauðadjúpri sprungu eftir Lilju Sigurðardóttur og Þvingun eftir Jónínu Leósdóttur sem eru komnar í hús og bíða girnilegar á náttborðinu. Aksturlag innfæddra eftir Þórdísi Gísladóttur verður líka lesin og sömuleiðis Deus Sigríðar Hagalín og miklu fleiri. Hlakka til að hámlesa um hátíðarnar.“

„Ég hef lesið gríðarlega mikið í haust og finn hvað það er gaman að finna aftur taktinn í þeirri afþreyingu,“ segir Steingerður Steinarsdóttir. „Þótt kvikmyndir og sjónvarpsþættir séu frábært listform er eitthvað alveg einstakt við bókina. Ég heillaðist af nokkrum ljóðabókum nýlega og ætla að njóta þess að lesa þær aftur og aftur um jólin. Þar á meðal eru Stjörnufallseyjur eftir Jakub Stachowiak, Eina hverfula stund eftir Njörð P. Njarðvík, Dulstirni og Meðan glerið sefur eftir Gyrði Elíasson. Mig langar líka að sökkva mér ofan í nokkrar ævisögur og þar má nefna Afi minn stríðsfanginn eftir Elínu Hirst og Gangandi bassi eftir Tómas R. Einarsson.“

„Mig langar að lesa Serótónínendurupptökuhemla eftir Friðgeir Einarsson vegna þess að mér finnst stíll Friðgeirs spennandi.  Lýsingar hans á smáatriðum finnast mér oft spaugilegar og persónur alltaf áhugaverðar. Friðgeir er húmoristi af guðs náð og spennandi að sjá hvernig hann tekst á við málefni eins og þunglyndi. Svo er ég afskaplega spennt að lesa Duft eftir Bergþóru Snæbjörnsdóttur. Það sem ég hef lesið eftir Bergþóru situr enn í mér. Mér finnst hún draga fram hliðar mannfólksins sem ekki eru oft dregnar fram í sviðsljósið. Svo býr hún yfir þeim eiginleika að geta smíðað setningar sem eru gífurlega fallegar og marglaga,“ segir Eva Halldóra Guðmundsdóttir.

Ritstjórn desember 12, 2023 08:03