Írski rithöfundurinn Claire Keegan er án efa einn besti og athyglisverðasti höfundur samtímans. Sögur hennar er stuttar en meitlaðar og miðla mannlegum sársauka svo skerandi að það skilur engann eftir ósnortinn. Málfar hennar er einfalt á yfirborðinu og stíllinn látlaus en undir niðri er þungur straumur og djúpur mannskilningur.
Þrjár bækur hennar hafa komið út í íslenskri þýðingu, Fóstur, Smámunir sem þessir og Seint og um síðir. Þær eru allar einstaklega áhrifamiklar og skilja lesandann eftir ígrundandi og fullan löngunar til að bæta heiminn. Sú nýjasta er Seint og um síðir. Það er safn þriggja smásagna en sú fyrsta varð til þegar Claire tók dæmi af því hvernig hversdagslegir atburðir geta orðið að sögu til að mynda þegar maður að nafni Cathal lýkur vinnu á föstudegi og tekur strætisvagninn heim.
Þegar heim kemur mætir honum tómt hús og einmanaleg tilvera en smátt og smátt verður ljóst hvers vegna Cathal býr einn með kettinum sínum. Næsta saga fjallar um rithöfund sem er nýkominn á afskekkta eyju og ætlar að vinna í friði þegar þýskur maður krefst þess að fá að skoða húsið sem hún hefur fengið að dvelja í og sú þriðja fjallar um gifta konu sem ákveður að halda framhjá manni sínum. Allar þessar sögur eiga það sameiginlegt að fjalla á einn eða annan hátt um yfirgang karlmanna og ofbeldi gegn konum og hvernig þær bregðast við.
Þegar hún hóf að skrifa Smámunir sem þessir átti sagan upphaflega að vera smásaga en það breyttist og úr varð stutt skáldsaga út frá sjónarhorni Bills Furlong, kolasölumanns. Bill var óskilgetinn en svo heppinn að móðir hans fékk skjól hjá góðri konu og hann ólst því upp við ástríki þótt honum mættu fordómar í íhaldsömu írsku samfélagi. Snemma morguns rétt fyrir jól er Bill að fara með sendingu af kolum í klaustrið rétt við bæinn þar sem hann býr. Hann finnur stúlku illa haldna, lokaða inni í kolageymslunni. Áður hafði hann orðið vitni að annars konar atviki í klausturgarðinum sem gerir það að verkum að hann er nokkuð viss um að ekki sé vel með ungu konurnar farið. Sjálfur á hann fimm dætur. Hann og kona hans, Eileen, eru góðir foreldrar og vilja mennta stúlkurnar sínar en hugsunin um stúlkurnar í klaustrinu lætur Bill ekki í friði.
Kærleikurinn og trúin
Eitt þema sögunnar snýst um foreldrahlutverkið og kærleikann sem við berum til okkar eigin barna og annarra. En er sá góður faðir sem getur litið framhjá illri meðferð á barnungum stúlkum og börnum þeirra? Og hvar er kærleikur þeirra sem segjast kristin en pynda hiklaust annað fólk? Claire byggir þessa sögu á raunverulegum atburðum. Magdalenu þvottahúsin voru rekin á Írlandi fram til ársins 1996 og í raun vissu allir af þeirri hræðilegu glæpastarfsemi sem þar fór fram og mannvonskunni er þar ríkti.
Írland er að meirihluta kaþólskt land og getnaðarvarnir voru bannaðar þar í landi nánast fram að aldamótum 21. aldar. Að eignast barn utan hjónabands var ein versta synd sem nokkur kona gat drýgt og skelfilegt hvernig farið var með margar stúlkur og konur sem urðu barnshafandi. Þeim var útskúfað úr fjölskyldum sínum og í raun allar bjargir bannaðar aðrar en að leita á náðir kirkjunnar. Magdalenu þvottahúsin voru heimili fyrir ógiftar mæður og yfirlýstur tilgangur þeirra var að hjálpa þessum ógæfusömu og lauslátu stúlkum að skapa sér framtíð þrátt fyrir að vera fallnar konur.
Veruleikinn var hins vegar allt annar. Stúlkurnar fengu ekki að umgangast og hugsa um börnin sín. Þær þræluðu í þvottahúsunum dagana langa og mörg barnanna voru seld velstæðum, kaþólskum hjónum sem mörg hver voru búsett í Bandaríkjunum. Þar beið barnanna misjöfn æska. Írland er enn að gera upp þessa hræðilegu glæpi en barnadauði var mikill í Magdalenu þvottahúsunum og fjöldagrafir barna fundist við sum þeirra. Smámunir sem þessir er alls ekki eina bókin sem skrifuð hefur verið um þennan svarta blett á írskri sögu.
Kannar þanþol manneskjunnar
The Lost Child of Philomena Lee er önnur en það var írski blaðamaðurinn Martin Sixsmith sem skrifaði hana um leit sína og Philomenu Lee að syni hennar sem hafði verið seldur til Bandaríkjanna. Því miður var hann látinn þegar þau loks fundu hann en Philomena komst í samband við eiginmann sonar síns. Einstaklega falleg kvikmynd, Philomena, var gerð eftir þessari bók með Judi Dench og Stephen Frears í aðalhlutverkum og í fyrra sýndi BBC þáttaröðina The Woman in the Wall en þar er saga kvenna er áttu börn sín í Magdalenu þvottahúsi þungamiðja þáttaraðarinnar.
Sjálf hefur Claire sagt í viðtölum að hún hafi áhuga á að kanna þanþol manneskjunnar og hvernig við þraukum í gegnum lífið. Sögur hennar endurspegla iðulega það kvenhatur og misrétti sem er ríkjandi á Írlandi. Hún hefur einnig sagt að hún hafi velt fyrir sér hvernig venjulegt fólk gat litið framhjá því að ungar stúlkur og konur hafi verið neyddar til að vinna þrælavinnu í þvottahúsunum og mannréttindi þeirra þverbrotin. Ekkert hafi verið eðlilegt eða nauðsynlegt í því hvernig farið var með þær en engu að síður leit almenningur framhjá þessu og lét það viðgangast. Og það er ekki eins og þetta hafi gerst í fjarlægri fortíð.
Enn í dag hefur kaþólska kirkjan ekki beðist afsökunar á sínum þætti í þessum glæpum en þáverandi forsætisráðherra Írlands, Enda Kenny, baðst afsökunar fyrir hönd írskra stjórnvalda árið 2013. Smámunir sem þessir hlaut Kerry-verðlaunin sem besta írska skáldsagan þegar hún kom út og í fyrra var frumsýnd mynd gerð eftir sögunni með Cillian Murphy í hlutverki Bills Furlong.
Lesið milli línanna
Bækur Claire Keegan eru mannlegar og hlýjar og þær skilja lesandann eftir ríkari að lestri loknum. Fóstur er fyrsta saga hennar sem kom út á íslensku og er saga stúlku sem send er í fóstur til skyldmenna meðan móðir hennar fæðir enn eitt barnið. Heimili hennar er fátækt og nokkuð augljóst að fátæktin á sér fleiri orsakir en þær að barnahópurinn er stór. Á heimili Kinsella-hjónanna ríkir hins vegar velmegun og annað andrúmsloft. Þar eru engin leyndarmál þótt ekki sé endilega talað um ákveðna hluti. Milli stúlkunnar og hjónanna myndast samband en svo kemur að því að þau þurfa að skila henni heim.
Á milli línanna og undir hverju orði liggur svo mikið, allt hið ósagða sem vegur svo þungt. Textinn er einfaldur en blæbrigðaríkur og þessi saga er í senn svo skerandi sorgleg og falleg að það er ekki hægt annað en að gráta svolítið yfir henni en líka gleðjast að alls staðar og alltaf verður til gott fólk.
Claire Keegan hefur skrifað fimm bækur til þessa. Þær eru allar stuttar, rétt um 100 blaðsíður en hún segist trúa því að lesandinn eigi að bæta við og klára bókina og því sé ekki nauðsynlegt að skrifar langan texta. Hið ósagða vegur ætíð þungt í öllum hennar bókum og undiraldan er þung. Sjálf var hún alin upp í mikilli fátækt og engar bækur voru til á heimilinu. Samt hafði hún þessa miklu þörf fyrir að skrifa og segja frá. Hún var fyrst í sinni fjölskyldu til að fara í háskólanám. Hún byrjaði á að fara til New Orleans til að læra stjórnmálafræði en skipti yfir bókmenntir. Það segir mest hafa verið að þakka einum kennara sinna, Mary McCay en hún tileinkaði henni bókina, Smámunir sem þessir. Claire hefur lengst af starfað sem kennari og kennt ritlist í þrjátíu ár. Hún segist ævinlega leitast við að sýna nemendum sínum fram á að saga þurfi ekki að vera löng til að vera dramatísk og orðaflaumur tryggi ekki áhrifamikinn texta.