Brátt fer að verða óhætt að setjast út í garð og njóta matar og drykkjar. Það er oftast dásamlegt en þó geta leiðinlegar flugur spillt upplifuninni en við eru til ráð sem einnig fegra umhverfið og skapa betra andrúmsloft í garðinum.
Ýmsar jurtir eru náttúrulegar flugnafælur. Flestar manneskjur njóta þess að anda að sér ilminum af kryddjurtum en vágestir í garðinum eru ekki eins hrifnir. Mýflugur forðast til að mynda basilíku og þess vegna getur verið gott að vera með hana í potti á svölunum, veröndinni eða á matborðinu í garðinum. Þessi dásamlega kryddjurt passar sérlega vel við alla pastarétti en er einnig góð í salöt. Einfaldasta og skemmtilegasta leiðin til að nota hana er að rista litlar brauðsneiðar í ofni, nudda þær með hvítlauk og dreypa yfir ólífuolíu. Skera mozzarella-ost og kokteiltómata í sneiðar setja ofan á og skreyta síðan með basilíkulaufum.

Sítrónugras
Sítrónugras hefur sömu áhrif en hafi menn ekki áhuga á að rækta það má kaupa útikerti með sítrónuilmi. Annars er sítrónugras ómissandi í tælenskri matargerð og lyftir pottréttum á annað stig. Það verður hávaxið en einfalt og gott er að rækta það í víðum góðum pottum.
Sítrónutímían er skordýrafæla og passar mjög vel í steinabeð eða grýttan jarðveg. Það er náskylt blóðbergi og hefur frískandi ilm. Það passar vel í alls konar kjötrétti, ekki hvað síst með lambakjöti. Margir taka nokkrar greinar af því og leggja í vatn eða olíu og koma fyrir ofan á ofni. Þetta húsráð hreinsar andrúmsloft í húsinu og skapar notalegan híbýlailm.
Lavender er hægt að rækta hér á landi þótt hann þurfi gott skjól. Hann fælir frá mý, mölflugur, flær og plöntulýs. Honum er þess vegna mjög oft komið fyrir í nágrenni við aðrar lúsasæknar jurtir. Ilmurinn er sterkur en flestum finnst hann góður. Frakkar nota lavender mikið í snyrtivörur og hann er slakandi út í baðvatnið. Hann er einnig gott krydd og er oft notaður til að skreyta eftirrétti. Á haustin er gott að klippa hann niður og þurrka. Litlir lavendervendir inni í fataskápum draga úr skápalykt en líka er sniðugt að mylja hann og koma fyrir í litlum grisjupokum en þá er auðvelt að leggja í hillur og skúffur innan um fatnaðinn.
Krísantema eða chrysanthemums er oft kölluð tryggðarblóm. Sú trú var á henni í gamla daga að hún yki samlyndi hjóna og tryggð í ástarsamböndum. Hún hefur hins vegar þveröfug áhrif á alls kyns skorkvikindi á borð við kakkalakka, maura, bjöllur, blóðmaura og mítla, lýs, flær, veggjalýs og fleiri. Auðvitað er stór hluti þessara kvikinda ekki vandamál hér á landi en krísantema er dásamlega fallegt blóm, blómstrar stórum, glæsilegum blómum svo hún veitir mikla ánægju allt sumarið. Hún gefur frá sér efnið pyrethrum en það drepur skordýr og er oft notað sem uppistaða í eiturúða til að eyða þeim. Krísantema er ekki æt. Hún þrífst hins vegar mjög vel í kerjum og pottum í góðu skjóli og flott að koma henni fyrir víða um garðinn eða pallinn.
Morgunfrú er ilmsterk og hana forðast mjög margar flugur. Rætur hennar vinna einnig vel jarðveginn fyrir aðrar plöntur og henni því gjarnan plantað með rósum í beð því hún fælir burtu þráðorma. Þeir eru reyndar ekki vandamál hér en það er notalegt að hafa þessi fallegu blóm í nágrenni við sig og prýði að þeim hvar sem er.
Tóbakshorn eða petúnía er stundum nefnt skordýraeitur náttúrunnar. Ekki þarf að óttast blaðlús í nágrenni við tóbakshorn og það passar vel upp á nágranna sína. Það er eitt vinsælasta sumarblómið hér á landi og kemur í ótal litbrigðum. Maður getur alltaf á sig tóbakshorni bætt.
Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.