Tengdar greinar

Hollasta hreyfing sem hægt er að stunda

Flest höfum við séð myndir af  Asíubúum í hópi iðka Qigong eða  gera Tai chi æfingar úti undir beru lofti í stórborg einhvers staðar í heiminum. Hópurinn virðist eins og í leiðslu, hreyfir sig ákaflega hægt, allir eins. Þetta rifjaðist upp fyrir blaðamanni Lifðu núna, þegar hann kom í miðstöð Qigong/Tai chi á Íslandi í Suðurhlíðum í Reykjavík. Það var forvitni sem rak hann þangað og staðurinn er alger andstæða íslenskra líkamsræktarstöðvar þar sem menn hlaupa og hjóla í gríð og erg, í takt við popptónlistina sem dúndrar í salnum. „Þetta er allt annar taktur en í líkamsræktarstöðvunum“, segir Kristrún Heimisdóttir Qigong iðkandi sem við hittum þar fyrir. „Mér finnst óbærilegur hávaði þar og þoli ekki tónlistina sem er spiluð þar hátt, og jafnvel of hátt. Ég held því fram að það sé streituvaldandi að stunda líkamsræktarstöðvar“. Gunnar Eyjólfsson leikari var meðal þeirra fyrstu sem fóru að bjóða uppá tíma í Qigong hér á landi.

Teygjur skipta öllu máli

Filip Woolford, sem er af bandarískum ættum en fæddur á Íslandi, kennir í miðstöðinni, en það var dóttir hans Þórdís Filipsdóttir sem átti hugmyndina að stofnun hennar. „Hún hefur lokið námi í 4 greinum af fimm í kínverskri læknisfræði“, segir hann og bætir við að hún sé einmitt stödd í Kína til að bæta við sig þekkingu“.   Kínversk læknisfræði byggist á Qigong therapíu, nálarstungum, Qigong/Tai chi æfingum og mataræði. Qigong á sér mörg þúsund ára hefð í Kína.  Þegar menn stunda Qigong standa þeir kyrrir á sama blettinum og gera ákveðnar mjúkar hreyfingar.  En Tai chi æfingarnar byggjast upp á skrefum fram og tilbaka, sem stuðla að samhæfingu bæði hugans og líkamans.  Þau feðgin starfa bæði í miðstöðinni. Hann er með tíma síðdegis á mánudögum, miðvikudögum og föstudögum en Þórdís er með nálarstungur og svo Tai chi teygjur í hádeginu. „Þær skipta öllu máli“, segir Filip. „Fólk gerir sér almennt ekki grein fyrir hvað teygjur skipta miklu máli og vill rjúka beint í æfingarnar“. Björn Bjarnason fyrrverandi ráðherra er svo með tíma á þriðjudags- og fimmtudagsmorgnum.

Var send í nálarstungur og Tai chi

„Þeir hjá Harvard segja að þetta sé hollasta hreyfing sem hægt er að stunda“, segir Kristrún „ og það sem er sérstakt við hana er að það er hægt að stunda hana alla ævi“. Það var Þórdís, sem á þeim tíma starfaði sem einkaþjálfari sem kynnti Qigong fyrir Kristrúnu. Áhugi hennar jókst svo enn frekar þegar hún áttaði sig á hversu stórt mál þetta var í Ameríku. „Ég þurfti að fara á heilsugæsluna í Colombia háskólanum í New York þegar ég var þar, til að fá læknisvottorð. Þeir sendu mig í nálarstungur og síðan í Tai chi á Broadway og þannig byrjaði ég í þessu“ segir hún.

Eins og að hugleiða með öllum líkamanum

„Þetta er svo heildræn hreyfing“, heldur Kristrún áfram. „Þegar maður er búinn með æfingatímann í Qigong, er maður búinn að hreyfa allan líkamann. Og þetta er meðvituð hreyfing, æfingarnar eru eins og hugleiðsla  með öllum líkamanum. Það er stóri galdurinn í þessu. Þegar ég er búin að gera svona æfingar upplifi ég svo mikla ró, um leið og ég verð skýrari í hugsun og reiðubúnari að takast á við lífið og tilveruna“.  Kristrún nefnir mörg dæmi þess að menn hafi náð sér af ýmsum kvillum með því að stunda Qigong. Hún segir að íslenskar heilbrigðisstofnanir séu byrjaðar að nota nálarstungur, en það sé eingöngu staðbundið. En kínverskar nálarstungur taki tillit til orkubrauta líkamans. „Það gera líka æfingarnar. Hreyfingarnar tengjast líka orkubrautunum. Það er mjög vísindaleg hugsun á bak við þetta“.

Mikil forvörn í að iðka Qigong

Fólk á öllum aldri stundar Qigong í Kína og þar eiga sumar fjölskyldur sér ákveðnar æfingar, nokkurs konar fjölskylduæfingar eða form eins og það er kallað, sem hafa gengið milli kynslóða og fjölskyldan stundar reglulega. Það eru til þúsund tilbrigði við æfingarnar og menn tileinka sér eitthvað ákveðið form.  Kristrúnu finnst vanta að fólk hér á Íslandi viti almennilega af þessu, en segist hafa séð að þessar æfingar geri gæfumuninn fyrir marga. „Ég er sannfærð um að þetta eru bestu æfingar sem hægt er að bjóða. Þetta er fyrir allan aldur, mjúkt og einfalt og það er mikil forvörn í að iðka Qigong. Sums staðar, eins og í Frakklandi, eru þessi vísindi orðin hluti af heilbrigðiskerfinu. Ef ég fengi að vera heilbrigðisráðherra í einn dag myndi ég gera þetta ókeypis fyrir alla sem eru orðnir sextugir og eldri“, segir hún.

Tveir heimar

Tveir heimar hafa staðið fyrir ýmsum mannbætandi námskeiðum. Svo sem heimspekikaffi, matreiðslunámskeiði, skapandi skrifum og fleiru sem þau feðgin Filip og Þórdís telja samræmast því sem þau eru að gera. Austurlenska kerfið er heildstætt og felur í sér nálarstungur, æfingar, grasalækningar og nudd.  Það er einnig boðið uppá einkatíma fyrir þá sem vilja læra tai chi 24 yang style, sem er vinsælasta tai chi formið í heiminum í dag. Sjá meira um Tvo heima með því að smella hér.

Ritstjórn janúar 18, 2018 10:58