Best að vera um tvær mínútur í kalda pottinum

Þeir sem sækja sundlaugarnar daglega, hafa veitt því athygli að kaldir pottar eru að verða jafn algengir og heitir pottar í laugunum, sem hefði þótt saga til næsta bæjar fyrir nokkrum áratugum. Einhvern veginn virðist ekki mjög aðlaðandi í kulda og myrkri að skella sér í kaldan pott. En margir gera það og fara jafnvel í kalda pottinn og þann heita til skiptis. Sumir eru stutt í kalda pottinum en aðrir lengur. Það er allur gangur á þessu. Lifðu núna ákvað að kynna sér köldu pottana betur.

Vilhjálmur Andri Einarsson

Náði heilsunni með köldum böðum

Vilhjálmur Andri Einarsson hefur verið að kynna notkun kaldra potta fyrir landanum, en hann náði heilsu, eftir langvarandi veikindi, með því að stunda köld böð. Hann lamaðist fyrir neðan mitti 13 ára og eitthvað skaddaðist í mænunni, þó hann fengi máttinn í fæturna aftur. „Svo tóku við þrír áratugir af volæði, ég gat ekki hreyft mig, var orðinn 30 kílóum of þungur og kominn á mörg lyf. Það var ekki fyrr en ég fór að stunda köld böð sem ég náði heilsunni aftur. Ég losnaði við mígreni, þunglyndi og 90% af bólgunum í bakinu“, segir hann.

Stress veldur bólgum í líkamanum

Andri skýrir aðsóknina að köldu pottunum með því að fólk finni mun bæði andlega og líkamlega, þegar þar fer að stunda köld böð og gera öndunaræfingar. Hann segir mikið talað um stress í þjóðfélaginu. Stress sé tengt við auknar bólgur í líkamanum og bólgur séu tengdar við ýmsa sjúkdóma. Kuldinn vinni bæði á stressi og bólgum.

Margir kunna ekki að nota köldu pottana

Andri kennir fólki kalda meðferð og hvernig er hægt að nota kuldann til að ná niður bólgum í líkamanum og ná stjórn á taugakerfinu. Hann segir að  margir noti kalda pottinn á rangan hátt. Þeir fari á milli potta, reyni að sitja eins lengi og þeir mögulega þola í kalda pottinum og hlaupa svo yfir í heita pottinn. Við það fái fólk kulda sjokk, hafi það verið of lengi í kalda pottinum og það séu engin vísindi sem segi að það sé hollt. Hann segir að við það að fara í kalda pottinn í um 2 mínútur, fái menn alla kostina við að fara í kalt bað. Best er svo að enda í kalda pottinum.

Lykilatriði að slaka á í kalda pottinum

Öndunin skiptir máli þegar farið er í kalda pottinn og Vilhjálmur segir það lykilatriði að fara slakur í pottinn, slaka á öllum líkamanum. „Þegar þú kemur uppúr þá áttu að bíða“, segir hann. „Það á  alltaf að hlusta á eigin líkama“.   Andri byggir kenningar sýnar á svokallaðri Wim Hof aðferð.  „Wim Hof er Hollendingur sem hefur notað kuldann í áratugi til að vinna á andlegum og líkamlegum kvillum“, segir hann og bætir við að það sé ótrúlegt að sjá vísindin á bak við þetta. Bólgur valdi sjúkdómum, en kuldinn dragi úr þeim. Hér hefur einungis verið drepið á það helsta sem snýr að notkun köldu pottanna í sundlaugunum, en fyrir þá sem vilja kynna sér málin betur, er bent á heimasíðuna www.andriiceland.com  Næsta námskeið hjá Andra hefst 8.janúar.

 

Ritstjórn janúar 3, 2019 09:30