„Það hægir á líkamanum þegar fólk eldist. Fólk sem er komið á miðjan aldur og þaðan af eldra er mun lengur að hreinsa úr líkamanum nikótín og önnur eiturefni sem eru í sígarettum,“ segir Jóhanna K. Kristjánsdóttir, forstöðumaður Ráðgjafar í reykbindindi. Samkvæmt nýjum talnabrunni Landlæknisembættisins eru reykingar algengastar meðal þeirra sem eru um og yfir fimmtugt. Á undanförnum áratugum hefur dregið verulega úr reykingum hér á landi og eru reykingar hér hvað minnstar í Evrópu. Mest hefur dregið úr reykingum í yngstu aldurshópunum.
Jóhanna segir að fólk sem komið er yfir miðjan aldur taki síður ákvörðun um að hætta að reykja, staðreyndin virðist vera sú að hafi fólk ekki hætt á meðan það var á barneignaaldri þá haldi það áfram að reykja. „Það er eins og sumu eldra fólki finnist ekki taka því að hætta.“ Þrátt fyrir það segir hún að það reynist þessum aldurshóp ekki erfiðara að hætta en öðrum. „Þetta snýst um sjálfsaga,“ segir hún. Jóhanna segir mjög mikinn heilsufarslegan ávinning af því að hætta að reykja, alveg sama þó fólk sé komið yfir áttrætt. Það minnki hættuna á hjarta og æðasjúkdómum, heilablóðfalli, blóðþrýstingurinn batni og svo mætti halda áfram að telja. Helmingur þeirra sem reykja daglega deyr úr reykingatengdum sjúkdómum.
Ýmis úrræði eru í boði fyrir þá sem vilja hætta að reykja. Krabbameinsfélag Reykjavíkur hefur boðið upp á námskeið, þeir sem vilja hætta geta fengið stuðning hjá Ráðgjöf í reykbindindi og þar er mikinn fróðleik að finna fyrir þá sem vilja hætta eða draga úr reykingum. Auk þess eru á markaðnum ýmis nikótín lyf. Jóhanna segir að nýjar rannsóknir bendi til þess, að það að minnka reykingar geti bætt heilsuna. Þeir sem séu að draga úr reykingum séu því að bæta heilsuna.