Er litla ferðaapótekið nauðsynlegt á ferðalögum?

Hjón á miðjum aldri deila gjarnan um hvort það þurfi virkilega að hafa með sér heilt apótek þegar þau bregða sér út fyrir landsteinana. Eiginmaðurinn er ofurvarkár og vill hafa allt sitt á hreinu og geta brugðist við verði hann eða eiginkonan veik í ferðinni, sólbrenni eða fái flugnabit. Hún á hinn bóginn hnussar og segir að heilbrigt fólk hafi ekkert við það að gera að vera að burðast með allskonar pillur, plástra og krem í farangrinum. Lifðu núna spurði eiginmanninn hvað það væri sem hann tæki með fyrir þau hjón í ferðalagið og hér er listinn.

Sýklalyfin Zitromax og Doxilyn, Histasín-ofnæmislyf, verkjalyfin Parkódín og Panódíl, Pevisone-sterakrem, Atacor kólesterlækkandi lyf, hjartamagnýl, Rennie sýrubindandi töflur, en þær eru fyrirbyggjandi, og Omeprazol sem er sýrubindandi lyf. Auk þess magatöflur til að stoppa niðurgang og flugnasprey auk hælsærisplástra.

Raunar viðurkenndi maðurinn að fæst af þessu væri mikið notað í ferðalögum þeirra hjóna en það veitti honum öryggi að vita af þessu í farangrinum og væri þessu pakkað í litlar einingar tæki þetta alls ekki mikið pláss. Auk þess segir maðurinn gæta þess að vera með nóg af sólvarnarkremum og kremi til að bera á sig eftir sólböð.

Sjúkra- og lyfjatöskur

Í apótekum er hægt að fá litlar fyrirferðarlitlar sjúkra- og lyfjatöskur sem hægt er að kaupa í allt það nauðsynlegasta sem fólk gæti þurft á að halda ef eitthvað bjátar á. Lyfja er til að mynda með slíkar töskur og þar á bæ ráðleggja þeir fólki að taka eftirfarandi lyf með sér í ferðalagið.

 • Verkjatöflur.
 • Ferðaveikitöflur við ógleði.
 • Sýrubindandi lyf við brjóstsviða.
 • Stoppandi töflur við niðurgangi.
 • Salt og glúkósa við vökvatapi.
 • Ofnæmistöflur við hvers kyns ofnæmi.
 • Hálstöflur við særindum í hálsi.
 • Nefdropar, notaðir í flugtaki og lendingu og minnka bjúg og stíflu í nefi og eyrum.
 • Plástur.
 • Sáraumbúðir.
 • Sótthreinsandi þurrkur á sár.
 • Hælsærisplástur.
 • Skæri og flísatöng.
 • Vörn gegn flugnabiti.
 • Áburður á skordýrabit, t.d. steraáburður eða After-bite.

Á vefnum doktor.is er einnig að finna góðar og gagnlegar upplýsingar um hvað eigi að taka með sér af lyfjum og smyrslum í ferðalagið. Það er því um að gera að búa sér til gátlista og muna líka eftir að taka með önnur lyf sem viðkomandi notar að staðaldri.

Ritstjórn júní 28, 2017 09:51