Heimsókn til Indlands lætur engan ósnortinn, litríkur klæðnaður kvenna á hverju götuhorni, kryddilmur í lofti, umferðarteppa og flaut, ríkidæmi og fátækt hlið við hlið, götumatur á hverju horni og fólk allstaðar, enda landið það fjölmennasta í heimi en þar búa hvorki fleiri né færri en 1,46 milljarðar manns. Þar er ótrúlegur fjölbreytileiki í landslagi og menningu, allt frá snæviþöktum fjöllum Himalaya til pálmatrjáa og stranda Goa, frá iðandi stórborgum eins og Mumbai og Delhi til kyrrlátra vatnasvæða á suðrænni slóðum. Hvert svæði hefur sína sérstöðu í menningu, matargerð, tungumáli og hefðum. Litir spila stóra rullu, gult merkir visku, rautt kraft, grænt líf og blátt hugleiðsla. Hátíðin Holi, þegar fólk kastar litadufti hvert á annað í gleðidansi, er táknmynd landsins – sprengja af lífsgleði og litagleði sem allir smitast af sem taka þátt!
Indland lætur engan ósnortinn!
Trú og hefðir
Hindúatrú eru ríkjandi trúarbrögð á Indlandi og mótar stóran hluta af menningu landsins. Veda-ritin (Rig-, Sama-, Yajur- og Atharvaveda), lögðu grunninn að hugmyndafræðinni en þau eru talin vera um 3200 ára gömul og geyma sálma, helgisiði, heimspeki og hugleiðslu. Þar má finna hugtök sem við þekkjum, eins og karma, moksha og yoga ásamt Ayurveda læknisfræðinni sem er fornt indverskt lækningakerfi, meira en 3.000–5.000 ára gamalt. Ayurveda snýst um að finna jafnvægi og góða heilsu með mataræði, nuddi og olíumeðferðum, jóga og hugleiðslu og heilbrigðum lífsstíl (svefn, hreyfing, daglegar rútínur).
Skoðaðu meira um Veda ritin í þessu bloggi: https://www.fidrildi.is/indland-og-heimspeki-veda/
Hofin, með sínum litríku skúlptúrum af hindúastyttum (Murti) og helgisiðum, skapa andrúmsloft þar sem andi og líkami fá að hvílast í einstökum frið. En ef þú skyldir hitta á eina af fjölmörgu hátíðum hindúa, þá máttu vera viss um að barið sé á bumbur og blásturshljóðfærin þanin og þá er ekkert sérstaklega hljóðlátt á svæðinu!
Þó að hindúatrúin sé mest áberandi á Indlandi þá má þar finna önnur trúarbrögð; múslimatrú, kristindóm, sikhatrú, búddisma og jainisma, og búa iðkendur þessara allra trúarbragða í sátt og samlyndi.
Kryddaðu lífið!
Indland er einnig vagga kryddræktunar þar sem ilmandi kardimomma, túrmerik, kanill, cummin, engifer, pipar og karrí eru óaðskiljanlegur hluti af indverskri matargerð. Það má segja að á Indlandi sé fólk með sjúkrakassann í eldhúsinu, þar sem kryddin eru ekki aðeins notuð til matargerðar, heldur einnig til lækninga samkvæmt Ayurveda-heimspekinni. Kerala er heimkynni kanils, kardimommu og pipars – hér er paradís kryddsins“. Indverskur matur er fjölbreyttur og spennandi – allt frá grænmetisréttum í suðri til kryddugra kjötrétta í norðri. Í hverri máltíð er jafnvægið milli sæts, súrs, sterks og beisks í forgrunni. Á Indlandi borðar fólk með fingrunum, sem okkur finnst sérstakt en það er ekki aðeins hefð heldur líka leið til að tengjast matnum betur. Það er um að gera að prufa !
Að fíla fíla !
Fíllinn er heilagt dýr á Indlandi og tengist guðnum Ganesha, sem hefur fílshöfuð og er guð visku og velgengni. Hann er talinn tákna blessun, styrk og vernd til þeirra sem ákalla hann. Fjölmargir villtir fílar eru á Indlandi og eru þeir verndaðir. Einnig hefur fíllinn verið taminn og notaður í helgi og trúarathöfnum og ennfremur í ferðamennsku, þar sem hægt er að fara á bak og upplifa ótrúlega sterkan líkama þessa magnaða dýrs. Hann er þannig menningarlegt og trúarlegt tákn.
Hér koma nokkrar sturlaðar staðreyndir um Indland
Á Indlandi er Hindí móðurmálið og enska opinber tungumál en auk þess eru yfir 22 önnur opinber tungumál og meira en 1.600 tungumál/mállýskur. Enskan er þannig ekki beint móðurmál en er tungumál sem notað er til samskipta.
Á Indlandi er er stærsta kosningakerfi heims og þegar kosið er til þings á Indlandi, fer næstum einn milljarður manns á kjörstað. Það er eins og að allir Evrópubúar, Bandaríkjamenn og Brasilíumenn standi í röð fyrir utan einn kosningaklefa!
Á Indlandi er hof sem eldar máltíðir fyrir 100.000 manns á dag – án þess að rukka neitt! Það er stærsta „súpueldhús“ heimsins og heitir Golden Temple í Amritsar. Hofið er helgasti staður síkha en er opið öllum sem þangað vilja koma.
Kýr eru heilagar í hindúatrú, og á sumum stöðum eru til kúahæli/hótel þar sem hugsað er vel um þær og eru þessir staðir reknir annaðhvort af trúfélögum, sjálfseignarstofnunum eða ríkinu. Það er mjög algengt að sjá kýr á flandri um borg og bý og eru þær látnar óáreittar og er þeim oft gefinn matur því það er gott karma. En athugaðu hvar þú stígur, því að þú gætir stigið í kúadellu!
Indland er stærsti framleiðandi og neytandi krydda í heiminum. Um 70% af öllum kryddum í heiminum koma þaðan. Spáðu í það næst þegar þú eldar mat!
Í Rajasthan er borg sem heitir Jodhpur þar sem nær öll hús eru máluð blá. Ekki vegna þess að einhver var „fan“ af Smurfs, heldur til að halda hitanum niðri og moskítóum frá. Önnur borg er bleik og það er Jaipur, en öll húsin voru máluð bleik í tilefni af heimsókn prinsins af Wales árið 1876. Bleiki liturinn var valinn vegna þess að hann táknaði gestrisni og vináttu í menningu Rajastan héraðsins. Í dag er það skylda að byggingar í miðbænum haldi þessum bleika lit.
Þú getur þakkað Indlandi fyrir núllið. Í sanskrít var orðið śūnya (शून्य) notað en það þýðir tómt eða ekkert. Seinna byrjuðu Indverskir stærðfræðingar að nota sérstakt tákn fyrir tómið í útreikningum – og það varð upphafið að núllinu. Indland þróaði staðgildiskerfi með tíu tölustöfum (1–9 + núll) og barst kerfið frá Arabíu til Evrópu. Án núllsins væri ekki hægt að skrifa tölur eins og við gerum í dag (100, 2025, 1.000.000…) og gerði núllið okkur mögulegt að þróa algebru, reiknifræði og síðar tölvutækni. Í raun má segja að allur nútímatækniheimurinn byggi á þessari indversku uppfinningu!
Á Indlandi (og víðar í Suður-Asíu) mála foreldrar svartan blett eða línu með kohl lit í kringum augu barns – oft kölluð kajal eða kohl dot. Þetta er talin vernd gegn illu auga, en talið er að börn séu viðkvæm fyrir illu augnaráði og ef einhver dáist of mikið af barninu þá geti að kallað fram ólán.
Viltu kynnast Indlandi betur og upplifa ævintýri þess? Fiðrildaferðir bjóða nú upp á ógleymanlega ferð í janúar 2026 en sjá má dagskrá ferðarinnar hér.
https://www.fidrildi.is/trip/indland/
Fiðrildaferðir verða með kynningarfund á ferðinni þann 12.september kl. 18.00 og hægt er að skrá sig á fundinn hér:
Ásdís Guðmundsdóttir
Stofnandi Fiðrildaferða