Kynngimagnaðar íslenskar jurtir

Íslenskar jurtir eru máttugar. Þær hafa lifað af hér á þessu harðbýla landi og lært að aðlaga sig eldi og brennisteini, sem rignir ofan frá eldfjöllum, frostavetrum og umhleypingum. Hér áður fyrr trúðu menn að jurtir hefðu lækningamátt og það merkilega er að nútímarannsóknir styðja þá trú. Lúpínan og hvönnin eru þar auðvitað fremstar í flokki. En ýmis blóm hafa að auki töframátt og geta lagað ólíklegustu hluti. Lítum á nokkur.

Hjónagras

Ástarblómið

Brönugrös hafa löngum þótt góð til að laga vandamál í ástalífinu. Brönugrös fá nafn sitt af tröllskessunni Brönu sem segir frá í Hákonarsögu Brönufóstra. Hún var ráðagóð og þegar fóstursonur hennar, Hákon, þurfti að heilla konungsdóttur lét hún hann hafa jurt sem hún sagði honum að lauma undir koddann hennar og myndi hún þá strax láta heillast. Þetta gerði pilturinn og það gekk eftir, stúlkan varð ástfangin af honum og jurtin heitir brönugras upp frá því. Menn trúðu því að rót þeirra gæti vakið ástir. Ef strákur var skotinn í stelpu átti hann að grafa brönugrasið upp og gæta þess vel að ræturnar skemmdust ekki. Síðan átti hann að lauma annarri rótinni undir kodda stelpunnar en setja hina undir sinn kodda. Þá brást ekki að stelpan varð ástfangin af honum. Að sjálfsögðu gilti það sama ef stelpa vildi ná ástum stráks. Nú ef fólk hafði náð saman

Brönugras

Brönugrös eru af orkideuætt og nokkur fleiri slík blóm vaxa hér á landi meðal annars friggjargras, hjónagras og barnarót. Þessar jurtir eru tvíærar og hafa tvær forðarætur sem þykja minna óþyrmilega á ákveðinn líkamshluta karlmanna þegar báðar eru bústnar. Önnur er þó yfirleitt bústnari en hin því það gengur á forðann í þeirri sem jurtin notar fyrra árið. Kannski er það þess vegna sem fólki þótti líklegt að seyði af rótum þessara plantna væri líklegt til að laga ástalífið. Seyði af rót friggjargrass er gott að lauma í glas elskunnar þinnar svo hún snúi nú augum að þér,  barnarót eykur hins vegar frjósemi og ef hjón drekka seyðið er næsta víst að barnsvon verði í sambandinu fljótlega eftir það, hjónagrasið eykur hins vegar samlyndi hjóna og ef þau drekka bæði seyði af rótinni fellur allt í ljúfa löð á milli þeirra.

Allt opið

Ferlaufungur er stundum nefndur lásagras en þetta er mjög sjaldgæf jurt og sumir þekkja hana betur undir nafninu fjögurra laufa smári. Þeir sem finna og eiga þessa plöntu eru hins vegar happamenn því með hjálp hennar geta þeir opnað hvaða lás sem er. Hún dugir einnig vel ef konum gengur illa að fæða því þá borgar sig að leggja ferlaufung á lífbein konunnar og þá munu ljúkast upp lendar hennar og barnið koma í heiminn.

Stúfa

Konuvæn jurt

Undir Eyjafjöllum og víða með fram suðurströndinni vex lítil látlaus jurt sem kallast stúfa. Hún kann vel við sendinn jarðveg en það er ekki auðvelt að koma auga á hana. Konur ættu þó sannarlega að hafa augun opin á ferð um þetta svæði því gott er að eiga þessa jurt í handraðanum. Hafi kona grun um að eiginmaður hennar sé farinn að renna augunum oftar en gott þykir til annarra kvenna þarf hún ekki annað en að lauma stúfu undir koddann hans og lætur hann þá strax af öllum slíkum ósiðum.

Brunavörn

Burnirót er brunavörn. Hér áður trúðu menn því að ef burnirót yxi á þekjunni myndi bærinn þeirra ekki brenna. Sagt er að landnámsmennirnir hafi haft þessa heimvörn með sér utan frá Noregi og plantað henni á og við bæi sína eftir að hingað kom. Nú á dögum þykir áreiðanlega betra að treysta á reykskynjara en það sakar alla vega ekki að rækta burnirót í garðinum.

Jurt með marga kosti

Ef þú ert einn af þeim sem ekki átt maka og felldir tár annaðhvort á konudegi eða bóndadegi, þá er ég algjörlega með lausnina handa þér. Hún felst hvorki í sálfræðitímum né deiti á öldurhúsum. Forfeður okkar voru með mun einfaldari lausn á þessum vanda, þeir notuðu lækningajurtir við öllu!

Ein af þeim jurtum sem var vinsæl í þessum tilgangi var vallhumall en hann vex allstaðar á landinu fyrir þá sem vilja tína hann í sumar og finna sér maka. Vallhumall þótti góður til að spá fyrir um örlög fólks og væri vallhumall settur undir kodda og eftirfarandi vísa höfð yfir átti það að kalla fram mynd af tilvonandi maka að morgni:

Thou pretty herb of Venus’ tree,

Thy true name it is yarrow;

Now who my bosom friend must be,

Pray tell thou me to-morrow.

(Úr Halliwell’s Popular Rhymes)

Eins var það trú manna að seyði af vallhumli notað til andlitsþvotta eyddi hrukkum og ef vallhumall væri í brúðarvendi tryggði það hamingju í sjö ár. Á miðöldum var hefð fyrir því að brúðhjón bæru jurtina á sér til að tryggja langt og farsælt ástarlíf.

Burtséð frá ágæti vallhumals við makaleit  þá er hann ákaflega fjölhæf lækningajurt sem á sér margra alda sögu í grasalækningum. Hann þykir t.d. góður til að stöðva blæðingar og græða sár, auka matarlyst og stöðva niðurgang. Eins er vallhumall afar gagnlegur gegn kvefi, hálsbólgu, flensu og hita og er líka notaður til að koma reglu á tíðablæðingar og við tíðaverkjum. Svo er hann einnig talinn geta lækkað blóðþrýsting, dregið út bólgum og gigt ásamt því að vera vatnslosandi.

Mjaðjurt

Mjaðjurt og Freyjugras

Mjaðjurt er notuð til að komast að því hver hafi stolið. Á Jónsmessunótt á að tína hana, setja hreint vatn í skál og leggja hana á vatnið. Ef hún flýtur þá hefur kona framið þjófnaðinn en ef hún sekkur er það karlmaður. Skugginn af jurtinni sýnir hver þjófurinn er.  Þá á maður að hafa þessi orð yfir: „Þjófur, ég stefni þér heim aftur með þann stuld er þú stalst frá mér með svo sterkri stefnu sem guð stefndi djöflinum úr paradís í helvíti.“

Freyjugras er líka notað til að vita hver hefur stolið frá manni. Fyrst á að láta það liggja í vatni í þrjár nætur og síðan að leggja það undir höfuðið og sofa á því og mun maður þá sjá hver þjófurinn er.

Lækjasóley

Lækjasóley eða hófsóley er afar merkileg en það kostar töluverða fyrirhöfn að nýta hana. Þú átt að tína hana í ljónsmerkinu (frá 13. júli – 12. ágúst) dýfa henni í blóð úr lambi og leggja tönn úr úlfi hjá henni.  Líklega verðurðu að fara til útlanda til að ná í þessa tönn því að hér á landi eru engir úlfar. Svo áttu að vefja lárberjalaufi utan um og stinga þessu inn á þig. Þá tala allir fallega og friðsamlega við þig, enginn skammar þig. Ef einhver stelur frá þér og þú leggur þetta við augað sérðu hver þjófurinn er.

Sortulyng

Ef þú tekur sortulyng og vefur það inn í litaðan pappír og stingur því inn á þig hefurðu frið fyrir öllum draugum. Hins vegar skaltu vara þig á berjunum á sortulynginu. Ef menn borða þau verður maður grálúsugur um allan kroppinn. Þess vegna eru þau oft kölluð lúsamulningar.

Þess má geta að nú er komin út hjá Forlaginu ferðavæn útgáfa af Flóru Íslands með teikningum eftir Jón Baldur Hlíðberg og varla hægt að hugsa sér betri ferðafélaga.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna skrifar.