Bannað að segja „Heyrðu Kristján“ við skipsstjórann

 

Börkur Thoroddsen

Börkur Thoroddsen

Börkur Thoroddsen tannlæknir skrifar:

 

Ég ætla að hafa nokkur orð um þéringar og hvað það er að þúa, að drekka dús og vera dús.

Þéringar hafa lagst af á Íslandi. Síðast var ég þéraður fyrir þremur áratugum. Þá þéraði mig patient minn á stofunni, aldraður maður – læknir, sem hafði verið  nám og störf í Svíþjóð. Læknirinn var góður vinur afa og ömmu á Seyðisfirði og hafði sinnt mér sem veiku barni, þegar ég dvaldi hjá þeim sumarlangt. Mér fannst óþægilegt þegar hann þéraði mig. En sá gamli vildi hafa þetta svona. Honum fannst eðlilegt að prófessional fólk þéraðist í starfinu. Ég þéraði á móti.

Þegar ég var 13 ára var ég sendill á Rannsóknarstofu Háskólans í meinafræði. Þar lærði ég að þéra. Forstöðumaðurinn var Niels Dungal. Það datt engum í hug að þúa hann. Ég var orðinn svo góður í þessu að ég gat þérað í þriðju persónu. Ég bankaði uppá hjá Dungal á mánudagsmorgnum og sagði „Á ég að þvo bíl prófessorsins núna“. Á þessum árum var enginn að skipta sér af því hvort starfsfólk Rannsóknarstofunnar vann verkefnin fyrir stofnunina eða fyrir Dungal prívat. Eða hvort  98% spírinn – fortarinn svokallaði var til notkunar við rannsóknir eða til heimabrúks hjá Dungal. Veislur hans voru frægar og þótti mikil upphefð að vera boðið. Orkideurnar sem Dungal nældi í konurnar, þegar þær gengu í salinn, ræktaði hann í gróðurhúsinu heima á Suðurgötunni og voru trúlega bara eitt af rannsóknarverkefnum háskólans.

Laugardaginn 1. júní 1957 kl. 12 á mínútunni lét Gullfoss úr höfn í Reykjavík. Um borð var ég, 15 ára að hefja sjómennsku. Ég fór í yfirmannamessan, var þjónn yfirmanna. Á Gullfossi var danskur matur, danskir siðir og mikil stéttaskipting. Þérað var í þriðju persónu. Ég sagði: „Já, stýrimaður“. „Má bjóða brytanum kaffi“ og „Ræs, loftskeytamaður, klukkan er átta“. Ég passaði mig á því að klukkan væri 0800 nákvæmlega þegar ég vakti loftskeytamanninn til morgunverðar. Á Gullfossi var áhersla lögð á stundvísi.

Sigmundur Sigmundsson, var 1. stýrimaður á Dettifossi. Áhöfnin í brúnni þéraðist í þriðju persónu. Hinn 15. september 1941 barst skeyti frá Eimskip, þar sem sagði að nú fengi Sigmundur stýrimaður sitt eigið skip og að hann ætti að taka við skipstjórn á Selfossi. ,,Má bjóða stýrimanninum dús,“ sagði þá skipstjórinn.

Mér finnst miður að þéringar hafi lagst af. Þéringar í þriðju persónu. Það er erfiðara nú að greina á milli athafna embættis í stjórnsýslunni og framkvæmd þess karls eða konu sem gegnir embættinu. Heitið ráðherra er karlkynsorð. Það er óheppilegt að ekki skuli vera til heitið „ráðfrú“ Í spænsku eru notuð heitin ministró og ministra þegar ráðfrúin er kona. El presidente og la presidenta. Í fréttum og umræðum hér á landi er greint frá því að dómsmálaráðherra hafi verið sökuð, ekki sakaður, um framkvæmd umdeilda eða vafasama í málefnum hælisleitenda. Dómsmálaráðherra er að fylgja lögum eða stefnu ríkisstjónarinnar. Vísað er hér til persónunnar – konunnar, en ekki embættis ráðherrans. Vinir hælisleitenda eða pólítískir andstæðingar lauma því inn hjá almenningi að Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir sé slæm manneskja. Væri ráðherrann karl sem sakaður væri um gjörninginn beindist „sakaður“ ekki svo afgerandi að persónunni

Þéringar höfðu þann kost að auðveldara var að halda fólki í fjarlægð, fólki sem maður kærði sig ekki um að kynnast náið. Það á ekki alltaf við að vera kammó. Svo þéraði maður þá sem maður vildi sýna virðingu. Á Spáni þérar yngra fólk þá eldri. Það mætti nú alveg þéra okkur, heldri borgara, sýna okkur virðingu. Innan frímúrarareglunnar ávörpum við embættis-mennina á réttan hátt. Við segjum ekki „Heyrðu Kristján“ við Stórmeistarann. Við sögðum heldur ekki „Heyrðu Kristján“ við skipstjórann á Gullfossi. Skipstjórann ávarpaði maður ekki að fyrra bragði. Ekki kann ég við þegar fréttamaður segir við Forseta Íslands: „Hurðu Halla, kva sei-iru“. Á Gullfossi hefðum við sagt: „Hvað segir forsetinn um þetta“. Margrét Danadrottning svaraði alþýðlegum fréttamanni sem þúaði hana: „Jeg tror ikke vi er dus“.