Blaðamaður Lifðu núna hitti á Arnar Björnsson afleysingafréttamann hjá Ríkisútvarpinu í dúndurstuði, enda var hann nýkominn úr golfi og sestur við tölvuna til að spá í gang heimsmála, þegar slegið var á þráðinn til hans. Hann gaf sér samt stutta stund til að ræða við okkur.
Það er algengt að þeir sem eru að leita sér að vinnu á sextugsaldrinum eigi ekki auðvelt með að fá störf og það vakti því athygli ritstjórnar Lifðu núna að Ríkisútvarpið réði í sumarafleysingar, fyrrum fjölmiðlamenn sem eru komnir yfir miðjan aldur.
„Ég hef sennilega aldrei verið í betra formi,“ segir Arnar sem finnur sannarlega ekki fyrir því að hann hafi misst starfslöngunina. Honum finnst skrítið að láta fólk hætta of snemma á vinnumarkaðinum. „Ég leita til dæmis alltaf að eldra starfsfólki í Byko. Það skilur mig og ég skil það,“ segir hann hlæjandi.
Fór að leika sér og spila golf
Arnar á langan fjölmiðlaferil að baki. Hann varð ungur ritstjóri Víkurblaðsins sem var blaðið í hans heimabæ, Húsavík. Á háskólaárunum samdi Arnar texta sem vinur hans, Bjarni Hafþór Helgason, samdi síðan lag við. Lagið, Er ekki tími til kominn að tengja, rataði síðan á borð hljómsveitarinnar Skriðjökla. Af Víkurblaðinu fór Arnar til starfa hjá Ríkisútvarpinu á Akureyri og varð síðan íþróttafréttamaður Ríkisútvarpsins í höfuðstöðvunum í Reykjavík. Eftir 11 ára starf hjá RÚV færði hann sig yfir í íþróttirnar á Stöð tvö. Honum var sagt upp hjá stöðinni fyrir tæpum tveimur árum eftir rúmlega tveggja áratuga starf. „Uppsagnarfresturinn var langur, þannig að ég fór að leika mér og spila golf,“ segir Arnar. „Ég fann svo að mig langaði að halda áfram á vinnumarkaði og ákvað að sækja um hjá RÚV og var ráðinn í sumar.
Önnur tækni, en sama inntak
Hvernig er að koma í fréttirnar hjá Ríkisútvarpinu eftir rúmlega 20 ára fjarveru? „Það er svolítið annað, það er önnur tækni og annað vinnuumhverfi en maður var vanur. Tæknin hefur breyst mikið og fréttastofa RÚV er með annað fréttakerfi en Stöð tvö var með. Af því að ég var orðinn vanur því kerfi, þá fannst mér kerfið hjá RÚV alltof þungt í vöfum. Það fer meiri tími í handavinnu sem maður slapp við á Stöð tvö. Þeir sem þekkja ekki það kerfi læra auðvitað strax á fréttakerfið hjá RÚV. Alveg eins og menn hafa lært á tæki og tól í fréttamennskunni í gegnum tíðina. Ég kunni til dæmis á ritvél þegar ég byrjaði, en margir vita ekki hvers konar apparat það er.“
Arnar segir að þótt tæki og tól séu önnur í fréttunum núna, þá sé inntakið það sama, það hafi í sjálfu sér ekkert breyst. Þetta sé alltaf spurning um fréttamat, skrif og það að koma fréttinni frá sér. Vefir og samfélagsmiðlar hafi svo bæst við ljósvakamiðlana. „Ég er frekar maður útvarps og sjónvarps en samfélagsmiðla, sem mér finnst stundum svolítið skrítnir miðlar, en þetta eru miðlar samtímans.“
Vakinn og sofinn yfir heimsfréttunum
„Nú er ég mikið í erlendum fréttum, en þær fóru nú stundum inn um annað eyrað og út um hitt hjá mér,“ segir Arnar sem er þessa dagana vakinn og sofinn yfir því sem er að gerast í heimsfréttunum. Hann hefur hins vegar kúpplað sig út úr íþróttafréttunum. Stundum missir hann af hvaða leikir eru í gangi. „Maður er svo upptekinn í núinu og er að lesa sér til um deilur úti í heimi.“
Arnar er hæstánægður á fréttastofunni sem hann segir mjög öfluga. „Hér er ég að vinna með svo góðu fólki,“ segir hann en það þótti honum einmitt erfiðast þegar hann fór yfir á Stöð tvö að sætta sig við að missa af vinnufélögunum á RÚV. „Ég saknaði fólksins sem mér þótti vænt um,“ segir hann.
Arnar segir að tíminn hjá Ríkisútvarpinu í sumar hafi verið rosalega góður. „Það kom mér á óvart hvað mér var vel tekið, ég þekkti fullt af fólki og menn þekktu mig. Það er ekki sjálfgefið að koma aftur inn á svona vinnustað eftir svona langan tíma.“ Það blundaði alltaf í Arnari að fara aftur í fréttir. „Sportið er þannig að það er einn leikur í dag og annar á morgun. Þú ert fastur í leik sem tekur aldrei enda,“ segir hann.
Fetar í fótspor föður síns
Einn af vinnufélögum Arnars á RÚV er dóttir hans, Kristjana Arnarsdóttir, sem hefur meðal annars fetað í fótspor föður síns í íþróttunum. „Það er fyndið að mamma hennar kemur úr heilbrigðisgeiranum, en það var aldrei inni í myndinni að hún færi í eitthvað slíkt. Hún kláraði markaðsfræði, vann eitt ár sem flugfreyja og Hilmar Björnsson á íþróttadeildinni plataði hana til að fara að vinna á vefnum og síðan færðist hún meira í fang. Hún hefur farið þetta allt á eigin verðleikum,“ segir hann stoltur og bætir við að líklega hafi hún fengið bakteríuna þegar hún var ritstjóri skólablaðsins í Versló.
Vill vera í kringum lífsglatt fólk
Arnar segir að hann sé alveg til í að halda áfram að vinna á RÚV. „Ég er til í það eða bara að vinna við einhvers konar fjölmiðlun eða ritvinnslu og yfirlestur á texta og þýðingar koma einnig til greina. Mér finnst gaman að vinna með texta og gaman að vinna með fólki. Ég er félagsvera þó að mér finnist líka gott að vera einn með sjálfum mér og dunda.“ Hann segir góðan anda á fréttastofunni, lifandi og skemmtilegt fólk sem sé gaman að hafa í kringum sig. „Það er þannig hjá mér að ég er ekki þar sem mórallinn er leiðinlegur. Ég vil vera í kringum lífsglatt fólk sem hefur gaman af lífinu og tilverunni,“ segir Arnar að lokum.
Fleira yngra fólk sem sækir um
Það er ekki algengt að fólk um sextugt sé ráðið í sumarafleysingar hjá Ríkisútvarpinu, segir Rakel Þorbergsdóttir fréttastjóri. „Við fáum einfaldlega mun fleiri umsóknir um sumarstörf frá yngra fólki, og þeir sem eldri eru sækja frekar um þegar fastráðning er í boði. Við reynum alltaf að ráða fólk á ólíkum aldri og í fyrra voru t.d. þrír af sumarfréttamönnum okkar á aldrinum 50–56 ára. Þar af eru tveir þeirra enn í vinnu hjá okkur,“ segir hún.
Augljós fengur að fá inn þrautreynda fréttamenn
En hvernig stóð á því að hún réði þessa tvo fyrrverandi starfsmenn sem eru komnir yfir miðjan aldur til starfa í sumar?
„Breytt aldursbil og fjölbreyttur bakgrunnur fréttamanna RÚV eru að mínu mati lykilatriði í að tryggja að við speglum samfélagið og fjöllum vel um ólík málefni. Það er ótvírætt einn helsti styrkur fréttastofu RÚV. Að fá inn þrautreynda fréttamenn eins og Arnar og Ólöfu Rún var því augljós fengur fyrir fréttastofuna. Fréttamannsstarfið á þriggja miðla fréttastofu í dag er hins vegar gerólíkt því sem það var fyrir 15–20 árum og meiri tölvu- og tæknikröfur gerðar nú en áður. Í sumar réðum við fréttamenn í afleysingar á aldrinum 23–63 ára og af því erum við stolt. Unga fólkið kemur með ferska sýn og aðlögunarhæfileika og þeir reyndari byggja á traustum grunni og sjálfstrausti sem er mikilvægt,“ segir Rakel.
Vaktavinnan stundum flóknari fyrir ungt fólk með börn en þá eldri
Er munur á því að ráða fólk sem er komið yfir miðjan aldur í störf eða ungt fólk sem er að byrja? Þeirri spurningu svarar Rakel þannig:
„Það er allur gangur á því. En auðvitað geta markmið verið ólík eftir aldri, sumir í hópi þeirra yngri vilja spreyta sig á fréttamennskunni tímabundið áður en þeir snúa sér að öðru. En aðrir hafa strax fundið sína fréttaköllun. Reyndir fréttamenn sem koma inn eru ýmist að prófa ljósvakafréttamennsku eftir áralanga blaðamennsku eða eru „að snúa aftur heim“ og hafa þá þennan brennandi áhuga á fréttum sem er nauðsynlegur ef vel á að takast til. Vaktavinnan er stundum flóknari fyrir fréttamenn með ung börn en þá eldri sem eru með tóm hreiðrin.“