
Nanna Rögnvaldardóttir
Nanna Rögnvaldardóttir rithöfundur skrifar.
Ég er mjög ánægð með að hafa valið að heimsækja nokkrar af Azoreyjum – fimm af níu – fyrst ég er hér á annað borð og verð í nærri mánuð. Ef ég hefði ekki gert það hefði ég misst af miklu, vegna þess að eyjarnar eru svo ólíkar. Jú, það er margt líkt með þeim en líka margt ólíkt, mér finnst ég ekki endilega vera alltaf í sama landi. Í síðustu viku var ég á Pico, núna á Faial. Það er til þess að gera örstutt á milli (hálftíma ferjusigling) og höfuðstaðir þessara eyja, Madalena og Horta, horfa hvor á móti öðrum, en eru afar ólíkir.

Hortensíur eru afar algengar á öllum Azoreyjum, notaðar í limgerði og margt annað. Hér á Faial eru þær bláu algengastar en því miður eru þær ekki í sumarlitunum núna.
Azoreyjar eru kallaðar hver sínu litarheiti. Þær eru að vísu allar iðjagrænar nema helst Pico, en Sao Miguel, stærsta eyjan, er samt sú sem kölluð er græna eyjan og er kannski best gróin af þeim öllum. Terceira, þar sem ég var fyrst, er fjólubláa eyjan, ekki bara vegna fjólubláu hortensíanna sem vaxa út um allt (nema ekki núna, það er vetur), heldur vegna annarra jurta í þeim litaskala og húsanna, sem mörg eru fjólublá. Pico er gráa eyjan út af öllum hraungrýtisgörðunum. Faial, þar sem ég er núna, er bláa eyjan af því að hún tengist sjónum enn meira en hinar og svo er mjög mikið um bláar hortensíur. Sao Jorge er brúna eyjan því að þar er mikið um brúna kletta.

En allar eru eyjarnar grænar á veturna og afar gróðursælar vegna rigninganna.
Og svo eru það eyjarnar sem ég heimsæki ekki – að minnsta kosti ekki í þetta skiptið: Hvíta eyjan Graciosa (hvítir klettar), Flores, bleika eyjan (hortensíur og önnur bleik blóm, Flores þýðir einmitt „blóm“), svarta eyjan Corvo (hraun og svartir klettar) og svo gula eyjan í suðaustri, Santa Maria. Hún er sólríkust, hlýjust og þurrust eyjanna því að þar gulnar gróðurinn á sumrin vegna þurrka.
Nú er ég semsagt í Horta á Faial, um 7000 manna bæ. Ég lýsti Madalena á Pico sem samblandi af sveit og sjávarþorpi en Horta er bær, það fer ekki á milli mála; bær með langa sögu, byggðist á 15. öld (um 300 árum á undan Madalena). Hér er göngugata meðfram allri höfninni þar sem hægt er að spásséra og þar eru veitingastaðir, hér er fjöldi kaffihúsa (ekki bara hálfgerðar sjoppur sem selja bara espresso og bjór), gamlar hallir, margar kirkjur og fleira og fleira. Hér er höfn sem á sumrin er full af seglbátum því að Horta er vinsæll viðkomustaður á siglingum um Atlantshafi og það er hefð fyrir því að áhafnir á skútunum mála hver sinn reit á veggjum og gangstéttum við höfnina og skreyta á ýmsan hátt.

Skútuhöfnin í Horta er rækilega skreytt af þúsundum áhafna sem þar hafa haft viðkomu.
Horta á að mörgu leyti merkilega sögu. Hér var mikilvægur viðkomustaður á verslunarleiðum milli heimsálfa. Héðan var mikill útflutningur á ýmsu sem ræktað var á eyjunum, ekki síst víni frá Pico, og hér voru auðugir höfðingjar og klaustur, sem varð til þess að ásókn sjóræningja var mikil og þess vegna eru mörg virki hér og víðar á Faial.
Seinna var mikið um að amerísk hvalveiðiskip hefðu hér viðkomu og hér var hvalstöð. Fyrsti sæsímastrengurinn á milli Ameríku og Evrópu var lagður um Horta og árið 1919 var fyrsta flugferðin á milli heimsálfanna flogin með viðkomu í Horta (og fleiri stöðum).
Fyrsta daginn sem ég var hér skoðaði ég miðbæinn og hafnarsvæðið. Og þar sem veðurspáin var góð fyrir næstu tvo daga ákvað ég að nota þá í langar gönguferðir. (Hina dagana reikna ég með að vera mest heima í íbúðinni sem ég leigi og skrifa.)

Eldfjöllin tvö sem ég gekk á, Monte Queimado til vinstri, Monte da Guia til hægri.
Ég gekk á eldfjall á jóladag í Angra. Hér gekk ég á þriðjudaginn á heil tvö eldfjöll, að vísu bæði fremur lág (eldhólar væri kannski réttara) en bæði nokkuð brött og stígarnir misjafnir. Það er enginn skortur á eldfjöllum á Azoreyjum og þessi eru bæði í bæjarlandinu í Horta. Ég hefði ekki treyst mér í þau fyrir tveimur árum, engan veginn, enda var ég þá hátt í 50 kílóum þyngri og eftir því stirð, en nú var þetta leikur einn (næstum því). Skemmtileg ganga og ég var mjög ánægð með sjálfa mig á eftir.

Þrettándakolkrabbi á Peter‘s Cafe Sport.
Þegar ég kom af fjöllunum eins og hver annar jólasveinn settist ég inn á veitingastað við höfnina, Peter‘s Cafe Sport, sem mun vera alþekktur, ekki síst meðal skútusiglingafólks. Sem ég er reyndar ekki. Þetta var á þrettándanum og daginn áður hafði mbl.is haft samband við mig með spurningar um þrettándamat og m.a. spurt hvað ég ætlaði að hafa í matinn. Ég sagði að mig langaði allavega mest í kolkrabba. Og viti menn, þegar ég leit á matseðilinn var kolkrabbi það fyrsta sem ég sá svo að auðvitað fékk ég mér kolkrabba í þrettándamatinn. Ég hafði góða matarlyst eftir eldfjallagönguna en þetta var samt allt of stór skammtur fyrir konu sem hefur farið í magaminnkun. En góður var hann.

Azorskt sauðfé. Jú, ég var komin út í sveit.
Daginn eftir gekk ég svo upp í hæðirnar hér efst í bænum (það er mikið um brattar brekkur í Horta) og svo til vesturs lengst út í sveit. Eða nei, það var kannski ekki mjög langt. En fín gönguferð fyrir mig.

Eitt af því sem vekur oft áhuga minn og ég tek gjarna myndir af eru gömul, yfirgefin hús. Það er eitthvað við þau sem heillar mig. Það er töluvert af þeim hér í Horta.
Eitt af því sem mér finnst gott við að vera ein að ferðast er að ég get farið í margra klukkutíma gönguferðir, gengið á mínum hraða, tekið alla mögulega króka án þess að ráðfæra mig við aðra – ég hef nefnilega ekki endilega áhuga á að skoða það sama og aðrir vilja sjá, og öfugt – stoppað þegar mér sýnist – eða ekki: mér finnst nefnilega fínt að ganga í fjóra klukkutíma án þess að stoppa, nema kannski andartak til að taka mynd af einhverju sem vekur athygli mína. Það er af sem áður var, þegar ég vildi helst stoppa á korters fresti, setjast inn á kaffihús eða bar, hvíla mig, fá mér vatn, kaffi eða Aperol …
Einu sinni fór ég með ungan dótturson minn til útlanda og eldri systir hans, sem hafði farið í nokkrar slíkar ferðir með mér, sagði: „Ég vara þig við. Hún vill alltaf vera á kaffihúsum.“
En næstu daga ætla ég semsagt mest að sitja inni eða á svölunum og skrifa, enda á að rigna einhver ósköp. Geng kannski eitthvað á sunnudaginn, þá er góð veðurspá – sem er óvíst að rætist. Og á mánudaginn fer ég frá bláu eynni til grænu eyjarinnar.







