Tengdar greinar

Svo að hún gleymist ekki

Í kaþólskum sið gegnir María guðsmóðir stóru hlutverki og er sá dýrðlingur sem flestir halla sér einhvern tíma að. Hún hefur hins vegar ekki verið Íslendingum ofarlega í huga, í það minnsta ekki frá siðaskiptum. En íslensk kona, Sonja B. Jónsdóttir, leitaði til Maríu í sorg sinni og segir frá því í nýrri ljóðabók, Í myrkrinu fór ég til Maríu.

Sonja skiptir bókinni í fjóra kafla, elska, missa, gráta og sakna. Það er auðvitað vísun í alkunna vögguvísu sem flestar íslenskar mæður syngja fyrir börnin sín en lýsir einnig vel sorginni en úr verður einnig samfelld saga, í senn ævisaga Hörpu og saga Sonju sem syrgjandi móður. Var auðveldara eða erfiðara að yrkja inn í þennan ramma, búa til þessa samfellu?

„Ég veit það eiginlega ekki af því að ég var strax ákveðin í að hafa einhvers konar ramma utan um efnið. Sofðu unga ástin mín er ljóð sem hefur alltaf lifað með mér, mamma söng það fyrir okkur systkinin og ég söng það fyrir mín börn áður en þau sofnuðu á kvöldin. Ljóðið er því eins og mjög sterk taug á milli okkar Hörpu og það var einhvern veginn alltaf undir niðri og allt um kring. Mér finnst Jóhann Sigurjónsson setja fram, í þessu ljóði, fjögur stig sorgarinnar og þau segja allt sem segja þarf: Mennirnir elska, missa, gráta og sakna. Þarna kemur svo skýrt fram að ástin er forsenda sorgarinnar vegna þess að þegar við missum þau sem við elskum grátum við þau og syrgjum og söknuðurinn verður hluti af lífinu,“ segir Sonja.

Gott að hitta aðrar syrgjandi mæður

Bókin heitir Í myrkrinu fór ég til Maríu og titillinn er einnig vísun í upphafslínu eins ljóðsins og oftar er vísað til guðsmóðurinnar. Það gleymist oft að hún var einnig móðir sem missti barn. Hvers vegna fannst þér gott að hverfa til hennar? María hefur nefnilega ekki verið jafn stór persóna í lúterstrú og kaþólsku.

„Ég held að kannski hafi mér fundist svona gott að hverfa til Maríu af sömu ástæðu og mér fannst svo gott að hitta aðrar syrgjandi mæður Sorgarsamtökunum Nýrri dögun en ég var sem betur fer leidd inn í þau samtök skömmu eftir að Harpa dó. Og reyndar var gott að tala við alla syrgjendurna sem ég starfaði með í sorgarsamtökunum hvort sem þau höfðu misst börn eða maka eða jafnvel einhvern annan sem þeim þótti vænt um og elskuðu.

En fundirnir í samtökunum voru bara einu sinni í viku þannig að ég leitaði til Maríu þegar ég var ein. Ég átti líka móður og föður sem ég gat leitað til og talað við. Þau misstu barnabarn sem stóð þeim mjög nærri þannig að þau voru líka syrgjendur og þau stóðu mjög vel með mér allan tímann sem þau áttu eftir hér á jörð. En á endanum er maðurinn alltaf einn, eins og stendur einhvers staðar, og þá er gott að eiga einhvern að eins og ég átti Maríu sem, eins og þú segir réttilega að gleymist svo oft: María var móðir sem missti barnið sitt.“

Erfitt að greina milli sorgar og söknuðar

Söknuður er sár og erfið tilfinning. Margir telja hann auðveldari að eiga við en sorgina. Hver er þín skoðun á því?„Þegar maður missir ástvin sinn eða einhvern mjög nákominn í dauðann þá fylgir söknuður sorginni, hann siglir í kjölfar missisins. Og þá er hann svo erfiður að ég get eiginlega ekki greint á milli þessara tveggja hugtaka. En þegar til dæmis sonur minn eða sonarsonur fara til útlanda án mín þá sakna ég þeirra en þeim söknuði fylgir ekki sorg. Frekar að tilhlökkun geri vart við sig því að ég hlakka til að fá þá aftur heim. En þá getur enn ein erfiða tilfinningin í viðbót gert vart við sig þvi að þá blandast kvíði söknuðinum, sérstaklega kannski hjá okkur sem höfum reynt hvernig lífið getur breyst á einu litlu andartaki,“ segir Sonja.

Fór hljóðlega með handritið

Minningar eru ákaflega verðmætur hluti af mannlífinu og raun það sem gerir okkur að þeim sem við erum. Þú tileinkar bókina Hörpu, dóttur þinni, með yfirskriftinni Svo hún gleymist ekki. Fallegri leið er vandfundin til að geyma minningu einhvers en einmitt í listaverki. En var aldrei erfitt að senda bókina út í heiminn jafnpersónuleg og einstök og hún er og treysta öðrum fyrir henni og þeim minningum sem hún geymir?

„Ég skrifaði bókina sem lokaverkefni til MA-prófs í ritlist og það sem var erfiðast var að fara með fyrstu útgáfu af handritinu til leiðbeinanda míns, sem var Huldar Breiðfjörð. Ég fór eiginlega skjálfandi á beinunum með handritið til hans en þegar hann var búinn að lesa handritið og vildi að ég héldi áfram með það var ég komin yfir hæsta þröskuldinn, held ég.

Eftir útskriftina úr náminu, árið sem ég varð sjötug, tók svo við tími þar sem ég vissi ekkert hvað ég átti að gera við þetta, gefa út sjálf eða senda til útgefanda. Endaði með að senda handritið til Bjarts/Veraldar og þar tók Bjarni Þorsteinsson útgáfustjóri við og var minn ritstjóri við vinnuna sem þá tók við. Þá var ég komin yfir annan þröskuld þannig að ég fór nú eitthvað að róast. En ég viðurkenni að ég fór mjög hljóðlega með þetta handrit, sagði hvorki ættingjum né vinum að ég væri með það í smíðum þannig að þegar bókin kom út hafði enginn lesið handritið nema Huldar, Bjarni, Jóna Dóra Karlsdóttir sem er ein af stofnendum Samtaka um sorg og sorgarviðbrögð, Ásdís Ingólfsdóttir samnemandi minn í ritlistinni og svo maðurinn minn sem þurfti að lesa eða að minnsta kosti heyra öll ljóðin í mörgum útgáfum!

Ég var stödd í Madrid þegar bókin kom út og auðvitað varð andardrátturinn aðeins styttri þegar ég fékk fréttina en ég veit ekki alveg hvort það var vegna þess að ég var ekki heima til að fylgja henni úr hlaði eða vegna þess að ég væri viðkvæm fyrir að senda svo persónulega bók út í heiminn. Ég held þó reyndar að starfið með sorgarsamtökunum hafi hjálpað því að þar talaði ég um sorgina og Hörpu og ég hef aldrei verið feimin við að tala um missinn og sorgina við þau sem hafa nennt að hlusta. Mig langaði líka alltaf til að skrifa bók sem héldi minningu Hörpu á lofti og þó að það hafi bara tekið mig tvö ár að skrifa hana þá hefur hún búið í huga mér í meira en þrjátíu ár.“

Tvær einar í heiminum

Þú áttir dóttur þína ung. Heldur þú að það hafi átt þátt í hversu nánar þið voruð?

„Ég veit það satt að segja ekki. Ég hef alltaf haldið að við höfum verið svo nánar vegna þess að við vorum bara tvær einar í heiminum eða alla vega tvær einar á heimilinu. Við vorum líka mjög nánar foreldrum mínum, ég var náttúrlega í mikilli vinnu sem ung og ómenntuð sjálfstæð móðir og í námi með vinnunni til að klára stúdentspróf og þá voru foreldrar mínir alltaf til í að passa fyrir mig. En svo vænkaðist hagurinn þegar ég fór í Háskólann og gat fengið námslán og verið meira heima með Hörpu og það var nú eiginlega mesti lúxustíminn. En svo fór ég náttúrlega að vinna eftir námið og þá voru vinnudagarnir oft langir.

En kannski hafði það líka áhrif hvað ég var ung, kannski mundi ég betur hvernig það er að vera barn og unglingur og hafði þá ef til vill meiri skilning á því sem gerðist í hennar lífi en eldri foreldrar. Við vorum stundum spurðar að því hvort við værum systur þannig að ég hef náttúrlega verið ósköp mikið barn og eflaust barnaleg í móðurhlutverkinu. Ég held samt að foreldrar og börn geti alveg átt náið samband þótt aldursbilið sé breiðara.“

Óttinn minnkar ekki

Annað sem þú lýsir einkar vel er óttinn um yngra barnið þitt, soninn, eftir að hann fæddist. Hefur sá ótti eitthvað minnkað með árunum eða fylgir hann þér alltaf?

„Ég er ekki viss um að óttinn um son minn hafi minnkað neitt frekar en sorgin vegna missis Hörpu,“ segir Sonja. „Ég held að þarna sé bara sama lögmálið að verki: Maður lærir að lifa með sorginni og maður lærir líka að lifa með óttanum. Ég reyni og hef alltaf reynt að láta ótta minn ekki bitna á honum en það hefur mér náttúrlega alls ekki tekist. Ég held að ég hafi verið með hann í miklu styttri ól en margir foreldrar og hafi þrengt að honum á ýmsa vegu. Það er náttúrlega ekki gott vegna þess að þegar þrengt er að fólki þarf það að brjóta hlekkina. En sonur minn er nú kominn yfir þrítugt og ég tel mig hreinlega ekki hafa leyfi til þess lengur að reyna að stjórna honum. Hann á sitt líf og verður að fá að lifa því í friði. Ég elska hann náttúrlega út af lífinu og við erum í bæði miklu og góðu sambandi.“

Og svo er það sú klassíska, ertu byrjuð á annarri bók eða ætlar þú að láta gott heita núna?

„Ég get ekki sagt að ég sé beinlínis byrjuð á nýrri bók en ég hef alltaf skrifað eitthvað og geri ekki ráð fyrir að ég hætti því. Ég byrjaði að birta ljóð í blöðum einhvern tíma í kringum 1980, einhver þeirra hafa birst í safnritum og svo hef ég líka birt örsögur í Jólabókum Blekfjelagsins, sem er félag ritlistarnema, auk þess sem ég birti ljóð í síðasta eintakinu af tímaritinu Skandala. Ég vann lengi við blaða- og fréttamennsku og skrifaði þá alls konar greinar og viðtöl en lengst af vann ég við kvikmyndagerð og skrifaði þá ýmiss konar handrit. Þannig að ég hef eiginlega alltaf verið skrifandi og mun því eflaust skrifa eitthvað áfram en „hvað það verður veit nú enginn“ – ég held samt að það verði fleiri ljóð og kannski smásögur vegna þess að ég held að knappa formið henti mér betur en lengri textar. Hvort eitthvað fleira verður gefið út er hins vegar önnur saga,“ segir Sonja B. Jónsdóttir að lokum en bókin hennar er áhrifamikil, falleg og full af söknuði og ást.

Steingerður Steinarsdóttir ritstjóri Lifðu núna

Ritstjórn febrúar 9, 2024 07:00