Foss á Síðu uppáhalds staður Magga Kjartans

„Það er voðalega erfitt að svara því“, sagði Magnús Jón Kjartansson hljómlistarmaður þegar hann var spurður hver væri uppáhaldsstaðurinn hans á Íslandi. Eftir smá umhugsun sagði hann að aðkoman að Fossi á Síðu væri einn af hans uppáhaldsstöðum. „Þetta er svo fallegt, þarna höfum við jökul, fjöll, eldfjöll, afrétt, klettabelti og foss. Síðan eru svakalegir melar alveg niður að sjó. Þetta er eins og stór randalína, þverskurður af fallegu landslagi“. Magnús segist hafa ekið þarna framhjá eins og aðrir og hann hefði oft pælt í hvað væri þarna á bak við. „Þetta greip mig einhvern veginn“, segir hann.

Magnús fékk mann frá þessum slóðum til að fara með hóp í viku hestaferð um svæðið inn af Fossi á Síðu. „Við riðum austur og upp með Þverá. Komum niður í Skaftártungu, og áðum á Hunkurbökkum. Enduðum síðan á Fossi. Þetta var stórkostlegt“.

Magnús Jón Kjartansson hljómlistarmaður

Ætlar til Flateyjar í fyrsta sinn

Magnús sem verður sjötugur í sumar og segir að hann hafi þurft að velja sér stað til að fara á því hann ætli að vera „að heiman“  á afmælisdaginn.  Farið verður um suðurfirðina á Vestfjörðum, Látrabjarg og Rauðasand, sem hann segist eiga eftir að skoða almennilega. „ Ég hef farið þarna um allt, en bara á milli félagsheimila“, segir hann hlæjandi, en auðvitað spilaði hann á sveitaböllum á sínum tíma með hljómsveitum eins og Brunaliðinu, Brimkló og Mannakorni. „Svo ætla ég til Flateyjar á Breiðafirði í fyrsta skipti, ég veit ekki hvaða skoðun maður hefur þá. Kannski skipti ég um skoðun á mínum uppáhaldsstað. Það var alltaf þannig í gamla daga, það var kosin ný fegurðardrottning á hverju ári“ segir Magnús og hlær enn hærra.

Ræturnar kalla sterkar og sterkar

„Annars má segja að uppáhaldsstaðurinn minn á Íslandi sé Ísland, en ræturnar kalla sterkar og sterkar á mig“, segir Magnús sem á rætur að rekja til Grindavíkur og Keflavíkur. Móðir hans var frá Grindavík og Keflavík og faðir hans fæddist og ólst upp í Aðalvík, sjálfur ólst hann upp í hjarta Keflavíkur. Hann segist eitt sinn hafa fengið félaga sína í hestamennskunni, sem alltaf vildu halda í austur eða norður, til að snúa við og fara öræfin á Reykjanesi sem nú eru mest í fréttum. „Það er stórkostlegt að hafa þetta blys í gangi“, bætir hann við.

Magnús segist halda að allir eigi það sameiginlegt að vilja leita uppruna síns, þó þeir viðurkenni það ekki endilega. Fólk yfirgefi heimaslóðirnar af ýmsum ástæðum, en sér þyki ósköp vænt um þetta svæði. „Það var ákveðin fordæming hér áður fyrr, vegna herstöðvarinnar í Keflavík. Það var litið á staðinn  sem nokkurs konar „Klondæk“ bæli spillingar og hermangs. En ég sá það aldrei þannig og skil ekki hvers vegna menn líta ekki á Reykjanesið eins og hverjar aðra sveit, rétt eins og bæina á Snæfellsnesi. Stafnes fyrir sunnan Grindavík, Hafnir, Reykjanes, Háibjalli og Þorbjörn, eru þekkt örnefni á Reykjanesinu.  Það er dásamlegt að átta sig á því að þessir staðir eru til, það er hægt að ganga þangað og skrítið, að fólk sem býr á suðvesturlandi skuli ekki hafa heimsótt meira þetta horn í bakgarðinum hjá sér, fyrr en gosið hófst“.

 

Ritstjórn júní 9, 2021 07:54