Tengdar greinar

68 ára í formi eins og 53ja ára

Gönguhópurinn stoppar til að gera æfingar

„Næringin vegur 80% og hreyfingin 20% þegar fólk vill léttast“, segir Rannveig K. Baldursdóttir iðjuþjálfi og einkaþjálfari hjá Heilsuklúbbnum í Hlíðarsmára 14  í Kópavogi. „Það er mikilvægara að byrja á næringunni og taka hreyfinguna inní, því hún spilar svo miklu stærri rullu en fólk heldur“, segir hún.  Rannveig er ein 12 sérfræðinga sem er með starfsemi í klúbbnum, en Heilsuklúbburinn skiptist í marga litla hópa, fjallgönguhóp, hlaupahóp, gönguhóp og Pilateshóp svo einhverjir séu nefndir. Blaðamaður Lifðu núna skellti sér í göngu með gönguhópnum á dögunum til að kynna sér starfsemi Heilsuklúbbsins.

Fá aðstoð við að breyta um lífsstíl

Rannveig segir að í klúbbnum sé verið að hjálpa fólki við að breyta um lífsstíl eða bæta hann. Herbalife er næringarbakhjarl klúbbsins, sem þýðir að þar eru notaðar vörur frá fyrirtækinu.. „Þetta snýst um næringu, hreyfingu og hugarfar“, segir Rannveig. „Við bjóðum upp á ákveðnar lausnir en fólk velur sjálft hvað það vill gera. Fólk fær sér næringarsjeik eftir hreyfingu. Til að greiða fyrir hann kaupa menn sérstök kort. Kort sem gildir í 20 skipti kostar 12.000 krónur, en það er hægt að kaupa færri skipti eða fleiri, allt eftir smekk.  Fólk fær þjónustu hér ókeypis sem það borgar dýrum dómum annars staðar.  Það fær leiðbeiningar og aðstoð við að breyta um lífsstíl, jákvætt samfélag, góðan félagsskap og er hér mikið stuð“, segir hún.

Styrktaræfingar

Hefur misst 20 kíló í vetur

Það var gott veður daginn sem blaðamaður fór í gönguna, eins og sjá má á meðfylgjandi myndum.  Menn spjölluðu glaðlega og tóku svo nokkrar styrktaræfingar. Nokkrir hundar voru með í för og kona sem blaðamaður tók tali, sagðist hafa misst 20 kíló í vetur. Hún sagði að Rannveig væri sín fyrirmynd, en Rannveig hreyfir sig mikið, sér um hlaupahópinn og var einmitt að undirbúa ferð í Lónsöræfin, þegar við ræddum við hana.

Hundurinn dó og konan nennti ekki að ganga með mér

„Það er skemmtilegra að ganga með öðrum. Hundurinn dó og konan nennti ekki að ganga með mér“, sagði Halldór Pálsson glettinn um hvernig það atvikaðist að hann gekk í gönguklúbb Heilsuklúbbsins.  En sannleikurinn er sá að hann var „dobblaður“ í klúbbinn, eins og hann orðaði það. Hann sat í nefnd ásamt Hrafni Ágústssyni stofnanda klúbbsins sem bauðst til að halda fundina hjá sér, í húsnæði heilsuklúbbsins.  Að fundi loknum bauð hann alltaf uppá sjeik.  „Ég vissi ekki hvort þetta var Herbalife, en það barst í tal að það væri þarna gönguhópur og ég var boðinn velkominn í hann. Það er gengið þrisvar í viku, á mánudögum, miðvikudögum og laugardögum“, segir hann og bætir við að teknar séu styrktaræfingar á göngunni og honum finnist þetta hafa góð áhrif á sig.

Heilsan og félagsskapurinn skipta gríðarlegu máli

Árin vinna ekki með manni

Halldór segir að sér þyki fínt að halda sér í því formi sem hann sé í, þannig að hann er ekki að hreyfa sig til að grennast. „Ég er orðinn 69 ára og sé að ég hef bætt mig töluvert. Árin vinna ekki með manni“, segir hann. Hann er ákveðinn í að halda gönguferðunum áfram og finnst gott að hafa ákveðna fasta punkta til að styðjast við. Það sé aðhald að vera í svona hópi og gaman að spjalla við fólk á göngunni. „ Mér finnst þetta verulega gott og það þarf að vera eitthvað mikið að svo ég mæti ekki“, segir hann.

68 ára í sama formi og 53ja ára

„Mér finnst ég vera í góðu formi“, segir hann. „Hrafn er með mæli sem mælir líkamsástand fólks  og eftir tvo mánuði spurði hann hvort hann ætti ekki að mæla mig. Ég mældist mjög vel.  Ég var þá 68 ára en mældist í formi eins og 53ja ára. Það er kona sem gengur með mér, hún er einmitt 53ja ára, en mældist eins og 67 ára. Núna er hún hins vegar komin í form miðað við aldur, og greinist eins og 53ja ára kona.

Mataræðið skiptir máli fyrir marga

Halldór tekur ekki fæðið með í sinni heilsurækt. Hann fær sér sjeik í heilsuklúbbnum eftir göngur, það er það eina. „Það slær á löngun í sælgæti og það er gott að fá vítamín eftir áreynsluna á göngunni. Ég hef vanið mig á að borða hollt, til dæmis góðan morgunverð og drekk vatn í stað gosdrykkja. Ég sé það á mörgum að mataræðið skiptir miklu máli, fólk tekur kúra sem virka vel, en það er þá fólk sem þarf að léttast og ná upp líkamlegum styrk. Ég stefni að því að halda mér í sama formi og áður og hef verið blessunarlega laus við að veikjast eða vera á sjúkrahúsum“, segir Halldór, sem er 69 ára eins og áður sagði, en lítur út fyrir að vera mun yngri.

 

Ritstjórn júlí 3, 2017 09:26