Á ferð umhverfis landið með trylltum vísindamanni

Það getur verið þrautin þyngri fyrir börn að sitja löngum stundum í bíl með systkinum, foreldrum eða afa og ömmu. Til að ferðin heppnist sem best fyrir alla, bæði unga sem aldna ætti fólk að skipuleggja eitthvað skemmtilegt til að hafa ofan af fyrir börnunum. Fyrir fimm árum kom út bókin Umhverfis Ísland í 30 tilraunum eftir Ævar vísindamann.  Lifðu  núna mælir svo sannarlega með að rykið sé dustað af þessari skemmtilegu bók.  Ævar segir raunar að það sé hægt að gera tilraunirnar í bókinni hvar sem er en ráðleggur þeim sem ætla að nota bókina á ferðalögum um landið og gera tilraunir í ferðalaginu að fara vel yfir það sem þarf að taka með  og pakka því ofan í sérstaka tösku. „þú getur kallað hana Vísindatöskuna ógurlegu.“

Á blaðsíðum 134 og 135 í bókinni er til að mynda að finna „tryllta jafnvægistilraun“  og þar ætlum við að grípa niður.

Jarðskjálftar geta verið svolítið ógnvekjandi því þegar jörðin undir fótum manns hristist og skelfur stendur manni ekki á sama. Árið 1976 varð mjög öflugur jarðskjálfti við Kópasker og þess vegna fannst mér við hæfi að kenna þér örlitla jafnvægistilraun. Þannig getur þú æft þig að standa í báða fætur ef þú skyldir einhvern tímann lenda í jarðskjálfta. Og af því að jarðskjálftar geta auðvitað orðið að nóttu til gerum við sérstakan hluta tilraunarinnar með lokuð augu.

Það sem þú þarft:

Þú.

Fallegur grasbakki eða herbergi með nægu plássi.

Hvað gerirðu?

  1. Stattu í báða fætur í smástund. Það virðist ekkert svo erfitt, er það nokkuð?
  2. Prófaðu að loka augunum og reyna að halda jafnvægi í 20 sekúndur:
  3. Stattu á öðrum fæti með opin augu. Það getur verið pínu snúið en er samt ekkert svo erfitt. En bíddu bara….
  4. Lokaðu nú augunum og reyndu að standa á öðrum fæti í 20 sekúndur.

Á næstu síðu má svo lesa hvað gerist í tilrauninni. Það verður ekki annað sagt en þetta sé einföld tilraun sem hægt er að gera næstum alls staðar. Það sem er líka svo skemmtilegt við bókina að í henni er að finna skemmtilegan fróðleik um valda staði hringinn í kringum landið. Textinn er einfaldur og flestir krakkar ættu að skemmta sér konunglega.  Við ljúkum þessari umfjöllun á Langanesi en vísindamaðurinn segir þetta meðal annars um nesið: „Langanes skagar næstum 40 kílómetra út í hafið og endar í lítilli „tá“ sem heitir Fontur. Sérðu hana?  Það má til gamans geta að við erum ekki eina landið í heiminum sem er með einhverskonar landfræðilegan skófatnað. Ítalía lítur út eins og stígvél.“

Ritstjórn júní 6, 2019 14:52