Hlökkum til að taka aftur út pallhýsið

Rannveig Guðmundsdóttir og eiginmaður hennar Sverrir Jónsson hafa búið í fallegu húsi við Hlíðarveg í Kópavogi í um 50 ár. Þar hafa barnabörn þeirra – sem eru á aldursbilinu þriggja mánaða til 35 ára – átt margar góðar stundir í faðmi ömmu og afa.

„Við eigum kornung barna- og barnabarnabörn,“ segir Rannveig brosandi sínu breiða brosi sem þjóðin þekkir frá því hún var í forystusveit stjórnmálanna, og bætir við: „Við höfum fengið að vera amman og afinn fyrir þessi yngstu barnabörn alveg eins og fyrir þessi stóru og ég er sannfærð um að það að hafa þessi litlu barnabörn svona seint haldi okkur við, haldi okkur ungum. Við höfum lagt okkur fram um að vera alveg eins amma og afi, geta leikið o.s.frv., eins og við vorum með fyrstu barnabörnin.“ Þau Rannveig og Sverrir eiga þrjú börn, níu barnabörn og tvö barnabarnabörn.

Væntingar um vor og sumar og útivist

Rannveig segist núna vera mest upptekin af því að þessi þungi vetur, þetta tímabil með veirufaraldri og veikindum, sé að taka enda og betri tíð framundan. „Það eru væntingar um vor og sumar og ferðalög og útivist,“ segir hún. Þau hjónin hafi alltaf verið mjög upptekin af útiveru og ferðalögum um Ísland á sumrin. Þau keyptu sér pallbíl árið 1995 og pallhýsi og byrjuðu að fara í ferðalög upp á hálendið.

Að Fjallabaki: Rannveig, Sverrir, Sólveig og Sveinn. Pallhýsin í baksýn.

„Í yfir 20 ár vorum í hópi sem fór saman reglulega í ferðalög um hálendið, þvers og kruss. Svo hætti þessi hópur en við höfum haldið áfram tvenn vinahjón, við Sverrir og hjónin Sólveig Erlendsdóttir og Sveinn Skúlason.  Við höfum þekkzt lengi og höfum með árunum, eftir að við fórum á eftirlaun, orðið enn nánari vinir. Við erum búin að fara um nánast hvern krók og kima á hálendinu og á öll landshorn. Tókum líka upp á því fyrir svona tíu árum að fara saman í ferðalög til útlanda. Höfum t.d. farið í þrjár stórar einstaklega áhugaverðar siglingar. En frá því við komum úr þeirri síðustu árið 2019 höfum við hjónin ekki hreyft okkur út fyrir landsteinana,“ segir Rannveig.

Frá því kórónuveirufaraldurinn hófst hafi ástandið í samfélaginu einfaldlega verið þannig að þau hafi ekki langað að ferðast. „Lengi vel var það þannig að maður var að passa bæði sjálfan sig og ungviðið í fjölskyldunni,“ segir Rannveig og bætir við að þau hjónin séu enn ekkert farin að huga að nýjum utanlandsferðum. „En bíðum eftir að geta tekið út pallhýsið – í nokkur ár höfum við ætlað að fara í enn eina ferð á Strandir. En í hvert sinn sem hafa verið komnar dagsetningar hjá okkur fjórmenningunum þá hefur viljað svo til að það var svo vont veður á Ströndum að við breyttum um og fórum annað. Í fyrra vorum við í hópi þeirra sem þvældust um Austfirðina og fundum þar marga unaðsreiti að setja okkur niður á og gista,“ segir hún. Og bætir svo við:

Rannveig, Sverrir, börn, tengdabörn og yngstu barnabörnin í Dýrafirði sumarið 2020.

„Ég verð að nefna að fyrir tveimur árum fórum við í eftirminnilega tveggja vikna ferð um Vestfirði með börnunum okkar þremur Sigurjónu, Eyjólfi Orra og Jóni Einari ásamt mökum þeirra Kristjáni, Geirnýju og Rannveigu ásamt minnstu barnabörnunum. Það var dásamlegt að fara með þeim vítt og breytt um þetta stórbrotna svæði og á æskuslóðir okkar Sverris og finna hvað þau upplifðu sterkt okkar minningar og frásagnir.“

Heilsan er lykilatriði

Rannveig snýr þá talinu að forsendum þess að hægt sé að njóta svona ferðalaga, líka þegar komið er fram á níunda áratug ævinnar. „Það er rosalega gaman að hafa góðan tíma og þegar maður er orðinn svona fullorðinn þá gerir maður sér grein fyrir því að þetta snýst eiginlega allt um heilsu. Það er heilsan sem ræður því hvort efri árin verða góð hvort þú ert virk áfram í því sem þú varst virk í í gegnum tíðina. Og það er heilsan sem ræður því hvort þú getur passað barnabörnin, leyft þeim að gista og gert skemmtilega hluti með þeim þótt þú sért komin yfir á níunda áratuginn. Við erum afskaplega þakklát fyrir þetta og gerum auðvitað í því að halda þessari stöðu. Ferðirnar okkar, bæði innanlands og utan, hafa líka verið alveg einstakar og gefið okkur mikið.“

Jafnaðarmennskan í blóð borin

Með vænan Veiðivatnaurriða.

Víkur þá talinu að stjórnmálunum, sem Rannveig lifði og hrærðist í um áratugaskeið. „Ég var náttúrulega afskaplega lengi í pólitík. Ég kem frá Ísafirði, sem var mjög pólitískur bær, mikið velferðarsamfélag og lítil stéttskipting í raun og veru. Ekkert sem við börnin í skólanum fundum fyrir að minnsta kosti. Pabbi minn var skipstjóri og var einn af þeim sem bæði stofnaði og vann fyrir Samvinnubátana á Ísafirði. Það mótaði mín æskuár. Þessi hugsjón, að það er hægt að gera allt með samtakamættinum. Þegar kreppan kom og margir hröktust jafnvel suður fóru barnakarlar ásamt sjómannafélaginu og bæjarstjórnin í það að kaupa báta; þeir fóru ekki úr bænum heldur byggðu upp atvinnulíf. Ég held að þetta hafi mótað mig mjög til framtíðar,“ segir Rannveig um kjarna sinnar pólitísku sannfæringar.

„Svo búum við hjónin í Noregi í sex ár á átta ára tímabili – fyrst af því hann er að mennta sig en svo þar sem hann er að vinna hjá norsku fyrirtæki, hérna heima og úti. Þar kynnist ég því hvernig þetta samfélag verður sem jafnaðarmenn hafa mótað eins og var alla síðustu öld á Norðurlöndunum. Það var hrífandi að kynnast samfélagi sem tók til eiginlega allra þátta mannlífsins og þar sem var verið að leita að eins miklum jöfnuði og jafnræði og unnt var,“ rifjar Rannveig upp.

Snöruð í bæjarstjórn – og á þing

Aðstæður höguðu því þannig að þegar fjölskyldan var flutt heim frá Noregi er Rannveig hvött til að gefa kost á sér í prófkjöri Alþýðuflokksins fyrir bæjarstjórnarkosningar. „Ég var með yngsta barnið mitt af þremur tveggja ára þegar þetta var og ég hafði stuttan umþóttunartíma. Ég var svo mikil jafnréttiskona að mér fannst ég verða að segja já. Ég hélt reyndar að það væri engin hætta á því að ég lenti í bæjarstjórn. En þá vill svo til að A-flokkarnir vinna svo svakalega á í þessum kosningum, bæði bæjarstjórnar- og þingkosningum 1978. Fyrst komu bæjarstjórnarkosingarnar og ég lendi bara í bæjarstjórn! Og við búum til meirihluta, vinstri meirihluta sem hafði mjög mikil áhrif hér í bænum í þrjú kjörtímabil,“ segir Rannveig stolt af sínum hlut í þessum kafla í sögu Kópavogsbæjar.

Það leið svo ekki á löngu unz farið var að falast eftir því við Rannveigu að hún gæfi kost á sér fyrir Alþýðuflokkinn í kosningum til Alþingis. „Af því að ég var hér og af því að konur voru farnar að hasla sér völl og flokkar þurftu líka á því að halda – ekki sízt eftir að Kvennalistinn kom fram – að konur kæmu til forystu bæði í sveitarstjórnum og til þings, þá verða það mín örlög að gefa kost á mér til þingsins og lendi sem varamaður út úr kosningunum 1987,“ rifjar Rannveig upp, en seinna á því kjörtímabili hættir Kjartan Jóhannsson sem formaður og þingmaður.

Rannveig við ríkisstjórnarborðið 1994. Eini kven-ráðherrann.

„Ég kem þá inn í hans stað, á miðju kjörtímabili,“ segir Rannveig og bætir við að henni hafi á sínum pólitíska ferli verið fengin flest þau hlutverk sem fólk er yfirleitt að sækjast eftir til að fá ábyrgð. „Maður lærir líka mjög vel hve mikil ábyrgð fylgir vegsemd,“ segir hún og leggur áherzlu á orð sín. „Það er ekkert þannig að það sé bara gaman að fá einhver hlutverk. Það er ofboðslega mikilvægt að vita hvað felst í því, vita til hvers er ætlazt af manni, vera meðvitaður um hverjum við, hinir kjörnu fulltrúar, erum að þjóna.“

Pólitíkin er ennþá áhugamálið

Rannveig staldrar við og segir: „Það sem mér fannst mikilvægast í pólitíkinni var að finna það að ég var borin fram af fólki í grasrótinni sem ekki var að vinna að neinu fyrir sig, heldur bara leggja sitt af mörkum því það langaði svo til að þessi stjórnmálahreyfing myndi breyta samfélaginu.“ Þess vegna þyki sér mjög mikilvægt að leggja sitt af mörkum til að styðja við bakið á þeim sem á eftir koma, þeim sem bera kyndil jafnaðarstefnunnar áfram fyrir næstu kynslóð. „Þegar ég, eftir 30 ár í pólitík, var komin á eftirlaun var ég gallhörð á því – og hef staðið við það fram á þennan dag – að styðja við bakið á þeim sem eftir koma. Verið partur af grasrót flokksins og því fólki sem nennir að leggja sitt af mörkum,“ segir hún.

Það sem hafi verið svo skemmtilegt, kannski fyrir utan barnabörn, ferðalög „og náttúrulega garðinn minn og þetta, sumarið og sólina, þá er hitt áhugamálið mitt að hitta fólk í flokknum mínum, styðja við þá sem eru í framvarðasveit Samfylkingarinnar, vinna með þeim að bæjarstjórnar- og þingkosningum,“ segir hún. Segist vera alls ófeimin við það, enn þann dag í dag, að hringja út í kosningabaráttu. „Oft er það stórkostlega gaman þegar fólk þekkir röddina „Heyrðu, er þetta Rannveig“, og samræður spinnast út frá því,“ segir hún.

„Í dag er þetta ennþá áhugamálið mitt. Ég sagði þegar ég var í pólitíkinni að hún þarf að vera allt, saumaklúbburinn, áhugamálið, fyrir utan að vera vinnan.“ Það sé svo gott að finna fyrir því að vera í hópi með góðu og öflugu fólki sem vinnur að sama markmiði. „Það er svo einstaklega gaman að vinna með góðu fólki sem vill verða forystufólk í bæjarstjórn eða fara til þings,“ segir ástríðustjórnmálakonan Rannveig Guðmundsdóttir.

 

Auðunn Arnórsson, blaðamaður Lifðu núna, skrifar.

Ritstjórn apríl 22, 2022 09:58