Að fá fíknsjúkdóm á efri árum

„Fíknsjúkdómur er algengur sjúkdómur og hann kemur fram hjá öllum aldurshópum. Þeir sem eru komnir á efri ár eru þar engin undantekning. Sjúkdómurinn hefur alvarlegar líkamlegar, andlegar og félagslegar afleiðingar. Hann veldur skertum lífsgæðum hjá einstaklingnum sjálfum og ástvinum hans,“ segir Hildur Þórarinsdóttir læknir í nýjum pistli á vef SÁÁ.

„Í sumum tilvikum hafa einstaklingar fengið sjúkdóminn snemma á ævinni. Sjúkdómurinn er langvinnur og því er einstaklingurinn áfram með hann á efri árum. Þá getur einstaklingur átt á hættu að hefja neyslu að nýju síðar á ævinni, sérstaklega þegar önnur líkamleg veikindi koma upp eða þegar það verða miklar breytingar á félagslegri stöðu, svo sem að fara á eftirlaun eða að missa maka. Í öðrum tilvikum veikist fólk af fíknsjúkdóm þegar það er komið á efri ár

Það er mikilvægt að eldra fólki og ættingjum standi til boða sérhæfð meðferð, úrræði og stuðningur þegar einstaklingurinn veikist af fíknsjúkdóm.

Þegar fólk er komið á efri ár er það viðkvæmara fyrir líkamlegum afleiðingum sjúkdómsins og slysum. Þá er það einnig líklegra til að vera með aðra króníska sjúkdóma sem erfitt eða ómögulegt er að meðhöndla vegna fíknsjúkdómsins. Lyf, áfengi og/eða vímuefni fara illa saman. Vímuefni hafa einnig áhrif á hugræna getu og minni fólks.

Þegar eldra fólk kemur á bráðamóttöku, eða þarf að leggjast inn á sjúkrahús, er algengt að fíknsjúkdómur sé orsök eða meðorsök innlagnar. Ef fíksjúkdómurinn er ekki greindur og fólki ekki vísað í rétt úrræði eru batalíkur ekki góðar og viðbúið að einstaklingurinn þurfi að leggjast inn að nýju síðar. Því er mjög mikilvægt að greina sjúkdóminn og vísa eldra fólki í rétt úrræði. Eldra fólk svarar meðferð mjög vel og jafnvel betur en yngra fólk. Meðferð sérsniðin að þörfum þeirra sem eru eldri myndi líklega skila enn betri árangri og hefur SÁÁ hug á því að auka þjónustu við þennan hóp.

Í dag eru rúmlega 5000 einstaklingar á lífi sem eru 65 ára eða eldri sem hafa leitað meðferðar hjá SÁÁ. SÁÁ tekur vel á móti fólki sem komið er á efri ár,“ segir Hildur ennfremur í pistli sínum.

Ritstjórn maí 7, 2019 07:21