Svanfríður Inga Jónasdóttir, fyrrverandi alþingismaður og bæjarstjóri

Svanfríður Inga Jónasdóttir er ein af þeim konum sem hefur verið áberandi í íslensku samfélagi og tekið að sér mörg hlutverk. Hún er upphaflega kennari að mennt og margt af því sem hún hefur tekið sér fyrir hendur um ævina hefur tengst menntamálum á einn eða annan hátt. Hún var alþingismaður frá 1995 – 2003 og síðar varð hún bæjarstjóri á Dalvík, þar sem hún býr.Eftir að hún hætti í því starfi árið 2014 hefur hún ekki setið auðum höndum  Hún segir að nú, þegar síðari hluti ævi hennar sé hafinn, megi segja að henni líði ekki ólíkt því þegar hún fór á gelgjuskeiðið. “Ég hef í rauninni verið að prófa ýmislegt sem ég hafði ekki tíma til að gera áður og nú með alla reynsluna í farteskinu,” segir Svanfríður. “Ég man vel þegar ég var unglingur og skynjaði að ég var að komast inn í ólíkan fasa í lífinu sem var gelgjuskeiðið og nú finn ég svipaða tilfinningu. Ég er í raun að ganga inn í nýjan fasa og nú er eitthvað nýtt, spennandi og óvænt í vændum. En þá erum við heppin sem höldum góðri heilsu því þetta gelgjuskeið byggist mikið á því að heilsan haldi. Þá getur lífið verið svo skemmtilegt.”

Eftir að Svanfríður hætti í bæjarstjórastarfinu stofnaði hún  ráðgjafafyrirtækið Ráðrík ásamt þeim Eyrúnu I. Sigþórsdóttur og Guðnýju Sverrisdóttur en þær höfðu allar hætt sem sveitarstjórar á svipuðum tíma. Allar hafa þessar konur langa og margvíslega reynslu af sveitastjórastörfum og eru því RÍKAR AF RÁÐUM. Þar kemur því saman kraftur sem býr í reynslumiklu fólki og nýtist nú öðrum. Svanfríður segir að þeim í Ráðrík hafi verið þakkað fyrir að leggja sitt af mörkum til að breyta merkingu þessa orðs því það þurfi sannarlega ekki að vera neikvætt að vera “ráð-ríkur”. “Við vissum allar af reynslunni að í litlum sveitarfélögum er stundum nauðsynlegt að fá auka hendur til að fara í gegnum ákveðin verkefni og við buðum fram okkar starfskrafta þar sem reynsla okkar gat nýst.”

Svanfríður fór líka fljótlega að vinna líka fyrir Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar, Símey. Hún hafði á sínum tíma gert rannsókn og skrifað meistararitgerð um nám fullorðinna og var hún því fengin til að vinna fyrir Símey í nokkur ár. “Ég var alltaf mjög áhugasöm um nám fullorðinna og hafði setið í stjórn Símey. Þau leituðu því til mín og báðu mig að taka að mér ákveðið verkefni. Það vatt svo uppá sig. Mér þykir einna vænst um að hafa komið að raunfærnimati, sem er ákveðin aðferðarfræði, sem er  notuð til að meta þekkingu fólks sem er búið að vinna lengi við ákveðin störf. Þannig fær viðkomandi þekkingu og reynslu sína metna í gegnum þetta mat og á þá auðveldara með að fara í formlegt nám til að bæta stöðu sína á vinnumarkaði. Ég er enn að hlaupa í þetta af því mér þykir þetta svo áhugavert og það er svo geysilega mikilvægt að styðja fólk í þessari stöðu. Oft eru þetta konur sem hafa ekki haft tök á því að mennta sig en hafa mjög oft verið í mismunandi þjónustustörfum og búa yfir mjög mikilli reynslu og þekkingu. Mér þykir svo mikið réttlætismál að þær fái hana metna með formlegum hætti og geti framvísað matinu og búið sér í haginn bæði á vinnumarkaði og ef þær kjósa að fara í nám. Það er skylda samfélagsins að styðja við þegna sína á þennan hátt,” segir Svanfríður og eldmóðurinn leynir sér ekki. Hún var líka fengin til að halda  utan um samstarf framhaldsskólanna á svæðinu en þeir eru fimm og mjög ólíkir. “Það var líka mjög áhugavert og skemmtilegt starf, en með þessu öllu fór Ráðrík af stað og hefur sótt í sig veðrið frá stofnun.”

Svanfríður hefur sannarlega dregið lærdóm af öllu því sem hún hefur komið nálægt. Hún segist alltaf vera tilbúin til að leggja svolítið á sig til að setja sig inn í nýja hluti. “Það eru forréttindi að fá að starfa á fjölbreyttum vettvangi og kynnast mörgu, af því það gerir lífið miklu ríkara og skemmtilegra,” segir Svanfríður sem hefur sannarlega dregið lærdóm af mörgum störfum sem hún hefur komið nálægt á langri ævi en hún er nú orðin 69 ára. Við hin erum svo heppin að geta notið reynslu samborgara sem heldur fullri starfsorku eftir langa ævi og er ekki gert að hætta að vinna.

 

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.

 

Ritstjórn nóvember 25, 2020 07:32