Að ferðast til að fræðast en ekki fordæma

Kristján og Ásdís á ferð um Morokko 2016.

Segja má að hringfarinn Kristján Gíslason hafi staðið frammi fyrir lúxusvandamáli þegar hann var 45 ára. Það var árið 2000 en þá fékk hann fagfjárfesta inn í fyrirtæki sitt og var í einni svipan með töluverða fjármuni á milli handanna. Hann segist allt of oft hafa séð fólk missa fótanna við að kunna ekki að fara með slíka fjármuni og hvernig það geti farið illa með fólk. Hann ákvað því að leita til þriggja manna til að fá ráð. Tvo þeirra þekkti Kristján vel og vissi að hann gat treyst, en það voru faðir hans og danskur maður, 18 árum eldri en hann sjálfur, sem Kristján hafði verið í viðskiptum við og vissi að var mjög traustur. Sá þriðji var maður úti á götu sem Kristján hafði aldrei talað við en hafði séð ganga um göturnar í mörg ár. Honum fannst maðurinn léttur í spori og á öllu hans fasi réð Kristján að þetta væri maður sem kynni að lifa lífinu. Hann bauð honum í hádegisverð og spjall og bar upp erindi sitt.

Þess vegna leitaði Kristján til vitringanna þriggja

Kristján sagði þessum þremur mönnum að hann væri staddur á þeim tímamótum að hann væri nýbúinn að selja fyrirtækið með góðri ávöxtun og óskað eftir ráleggingum frá þeim varðandi næstu skref.

Daninn sagði: Ferðastu, því þannig verðurðu víðsýnni. Þú munt ná hugarró og verða fordómalausari.

Sá ókunni sagði: Virkjaðu listræna hæfileika sem þú kannt að búa yfir.

Faðir hans sagði: Láttu gott af þér leiða.

„Slagorð pabba alla tíð var “Aldrei hætta að þora” og ég hef alltaf haft það slagorð hugfast þegar ég hef staðið frammi fyrir stórum áskorunum en hann lést á meðan ég var í hringferðinni um hnöttinn“.

“Lífsgildin sem þeir lögðu mér til eru öll óháð peningum en í þeim öllum felst lífshamingja,” segir Kristján. “Þegar ég lít til baka hafa ráð þeirra verið leiðarstef í lífi mínu síðan og ég sé að óttinn við að verða af aurum api var undirliggjandi þegar ég stóð frammi fyrir því að höndla þessa fjármuni. Það vildi ég ekki verða.

Með ferðalagi mínu í kringum hnöttinn hef ég sannarlega orðið víðsýnni og við það hef ég  fundið hugarró, ég efldi  ljósmyndahæfileika mína sem ég sýni í bókinni og nú er ég að láta gott af mér leiða og nú er ég rólegur. Þetta hefði ég auðvitað ekki getað gert á sama máta ef ég hefði ekki haft þessa fjármuni en fyrst ég átti þá er ég sáttur við að hafa varið þeim á þennan hátt.”

Mesta áskorunin að komast yfir eigin fordóma

Kona á Indlandi 2014.

“Það var sannarlega mesta áskorunin í allri ferðinni að komast yfir eigin fordóma,” segir Kristján sem nú er þekktur undir nafninu Hringfarinn. Í ágúst 2014 lagði hann af stað einn síns liðs á mótorhjóli hringinn í kringum hnöttinn. Ætlunin hafði verið að vera fjóra mánuði í ferðinni en þegar upp var staðið urðu mánuðirnir tíu. Kristján er kvæntur Ásdísi Rósu Baldursdóttur og eiga þau saman þrjú börn og þrjú barnabörn. Ásdís er kennari að mennt, starfaði alla tíð í Verslunarskóla Íslands en hún er nú líka hætt að vinna fasta vinnu. Eftir hringferð Kristjáns fékk Ásdís áhuga á mótorhjólinu og hafa þau farið í margar hjólaferðir, í Evrópu, Ameríku, Afríku og Eyjaálfu. Þau Kristján og Ásdís eru fullkomið dæmi um þær breytingar sem hafa átt sér stað á miðaldra fólki frá fyrri kynslóð. Þau eru nú rúmlega sextug og eru ekki á leiðinni í helgan stein heldur lifa þau lífinu sannarlega lifandi og alveg á eigin forsendum.

Gekk inn í fyrirtæki tengdaforeldranna

Maður á Indlandi 2014.

Kristján var einungis 28 ára þegar hann gekk inn í fyrirtækið Radíómiðun sem tengdafaðir hans hafði stofnað og rekið ásamt bróður sínum í 20 ár. Starfsmennirnir höfðu verið fjórir allan tímann og ekki þótti ástæða til að fjölga þeim. Krisján hafði kynnst rekstrinum svolítið þar sem hann hafði aðstoðað og gefið ráð og taldi sig vita hvar tækifærin lægju þegar upp kom hugmynd um að hann gengi inn í fyrirtækið. Og einn daginn sagði  tengdafaðir hans, um leið og hann lét lyklana detta í hendi hans: “Kristján, nú tekur þú við og ég vil bara heyra góðu fréttirnar.” “Þá gerði ég mér ljóst að ábyrgðin væri mín og í mig hljóp kapp því traustið var algert sem tengdafaðir minn sýndi mér,” segir hann. Kristján er kerfisfræðingur að mennt, hafði starfað hjá Sambandinu sem slíkur og vegnað vel þar. “Það var alveg ljóst að tengdaforeldrar mínir voru búnir að fá nóg af puði svo nú var komið að okkur Ásdísi” segir Kristján.

Dæmi um vel heppnaða tilfærslu á milli kynslóða

Fyrirtækið Radíómiðun er dæmi um það þegar tilfærsla milli kynslóða heppnast vel. Eldri kynslóðin skilaði af sér góðu búi svo sú næsta gat nýtt sér góðan grunn og fært inn í reksturinn ýmsar nýjungar eins og Kristján gerði. Hann tölvuvæddi fyrirtækið og endurskipulagði með tilliti til þekkingar sinnar í kerfisfræði. Á nokkrum árum fjölgaði starfsmönnum margfalt með tilheyrandi aukinni ábyrgð sem þýddi auðvitað áhyggjur og svefnlausar nætur eins og alvöru fyrirtækjarekstur orsakar undantekningalítið. Og þar sem Kristján var ungur og ferskur, með nýjar hugmyndir, gat hann byrjað á að stækka og breyta og færa fyrirtækið nær nútímanum.

Litla fjölskyldufyrirtækið tók flugið

Í bókinni Hringfarinn, sem kom út fyrir skömmu, segir Kristján  að sumir væni hann um fullkomnunaráráttu. Sá eiginleiki hafi reyndar komið sér vel þegar hann þurfti að

Úr úgáfuhófi í Þróttaraheimili Laugardal nú í október. Ásdís heldur á yngsta barnabarni þeirra hjóna.

hugsa fyrir hverju smáatriði í undirbúningi ferðarinnar í kringum hnöttinn. En til að byrja með nýttist sá eiginleiki þegar hann tók við rekstri sem hann var ekki alls kostar heima í. Hann hafði til dæmis aldrei “migið í saltan sjó” eins og þar stendur en nú tók við tími þar sem hann var í miklum samskiptum við sjávarútveginn.

Hugbúnaður fyrir kappsiglingar nýttist íslenskum fiskiskipum

Baldur, tengdafaðir Kristjáns, hafði verið á tæknisýningu á Spáni og komið auga á stráka sem voru að kynna siglingabúnað fyrir kappsiglara og sagði Kristjáni frá þeim þegar heim var komið. Kristján kynnti sér betur þennan hugbúnað og komst að því að einungis þeir, sem höfðu yfir þessum búnaði að ráða, höfðu sigrað allar helstu siglingakeppnir í 5 ár þar á undan. Búnaðurinn bauð upp á bestun á siglingaleiðum þar sem atriði eins og vindur og hafstraumar voru tekin með í reikninginn og nú var verið að hanna þennan búnað fyrir sjávarútveginn þar sem hægt var að tengjast öllum helstu siglinga- og fiskileitartækjum og stór skjár gerði notkunina mjög þægilega. Kristján þóttist strax sjá í hendi sér hvað þetta tæki myndi þýða fyrir íslenskan sjávarútveg og hugsaði stórt.

Strákarnir sem höfðu hannað þennan hugbúnaðinn höfðu orðið ósáttir og annar þeirra gengið út úr fyrirtækinu. Kristján notaði tækifærið og bauð hinum að kaupa strax fimmtíu eintök með því skilyrði að Radíómiðun gæti keypt myndarlegan hlut í fyrirtæki hans. Þetta gekk eftir og litla fjölskyldufyrirtækið, Radíómiðun, óx hratt.

Ásdís og Kristján í gönguferð í kringum Mont Blanc.

Óhræddur við að leita ráða

“Við þurftum að endurnýja húsnæðið og setja upp kennslustofur því nú þurfti að kenna skipstjórunum að vinna með tölvur en þær voru framandi fyrir mjög marga á þessum tíma,” segir Kristján og greinilega má finna ástríðuna sem Hringfarinn býr enn yfir þegar um þetta málefni er rætt. Þar sem fyrirtækið óx mjög hratt á þessum tíma gerði Kristján sér fljótlega grein fyrir að nauðsynlegt væri fyrir hann að finna góðan ráðgjafa, einhvern sem hann gæti treyst og gæti skipst á skoðunum við áður en ákvarðanir væru teknar. Hann hófst handa við að leita að slíkum manni og sama nafnið kom upp aftur og aftur en það var nafn Símonar Á Gunnarssonar sem lengst af starfaði hjá KPMG. “Ég setti mig í samband við Símon og bar upp erindið. Símon sagðist vera með fyrirtæki eins og Vífilfell, Toyota og Hagkaup í ráðgjöf og fjögurra manna fyrirtækið Radíómiðun myndi bara passa ágætlega í þann hóp,” segir Kristján brosandi. “Símon kom m.a. með mér til Frakklands og var mér til halds og traust þegar gengið var frá samningunum við hönnuð skipstjórnarhugbúnaðarins. Síðan var gengið í að stækka húsnæði Radíómiðunar og byggja upp fyrir framtíðina“.

Aðkoman að tölvuvæðingu fiskiskipaflotans

Af öllu því sem Kristján vann að á meðan hann rak Radíómiðun  segist hann vera stoltastur af aðkomu sinni að tölvuvæðingu fiskiskipaflota

Kristján við Herðubreið 2018.

Íslendinga. “Þetta var ekki auðvelt því ég var ekki nema rétt um þrítugt og nýráðið starfsfólk var allt yngra en ég. Komum við skipstjórnarmönnunum örugglega fyrir sjónir sem spjátrungar að sunnan,” segir Krisján og brosir. “Ég mætti á fundina fínn og strokinn með bindi og talaði nánast annað tungumál en þeir og þekkti alls ekki talsmáta þeirra. Ég minnist þess til dæmis einu sinni þegar ég fór til Vestmannaeyja á milli jóla og nýárs til að kynna tækið. Ég náði öllum skipstjórunum á kynningarfund á hóteli í Vestmannaeyjum af því það var bræla og allir í landi. Á kynningunni var ég með stóran skjávarpa sem þekktist ekki á þessum tíma. Þá stendur upp Kristján Óskarsson á Emmunni og segir: “Kristján, ég ætla bara að segja þér það að þetta dót fer aldrei um borð í eitt einasta fiskiskip hér í Eyjum.” Mér brá svolítið, en þar sem ég hafði tröllatrú á að þetta væri framtíðin sagði ég við Kristján yfir allan salinn: “Ég ætla að gera þér tilboð sem er að ég kem með tölvuna um borð í skipið þitt, þér að kostnaðarlausu, en það eina sem ég fer fram á er að ég fái tíma til að kenna þér á búnaðinn. Eftir það geturðu haft búnaðinn um borð í hálft ár og ef þú hefur þá komist að því að þetta sé eitthvað sem þú getir ekki nýtt þér kem ég aftur, þér að kostnaðarlausu, og tek allt til baka. Hann gat auðvitað ekki annað en samþykkt þetta og búnaðurinn fór aldrei frá borði aftur.”

Einn af yfirmönnum Hampiðjunar, Gestur Bárðarson, kom Kristjáni eitt sinn á óvart þegar hann sagði við Kristján að Radíómiðun væri orðin einn helsti samkeppnisaðili Hampiðjunnar. Með þessum nýja tölvubúnaði voru skipin hætt að rífa trollin í eins miklum mæli sem voru auðvitað ekki góðar féttir  fyrir framleiðanda þeirra.

En af hverju er þetta ekki í stafrófsröð?

Þegar starfsmenn Radíómiðunar hófust handa við að kenna skipstjórunum á hugbúnaðinn áttaði Kristján sig fljótlega á þekkingarleysi þeirra á tölvum. “Það var auðvitað ekki skrýtið af því þetta var á upphafsárum tölvanna og enginn þessara manna hafði fengið tölvuþjálfun í námi sínu. “Sá fyrsti sem fékk búnaðinn um borð var Hermann Skúlason heitinn, skipstjóri Júlíusar Geirmundssonar ÍS. Hann var þá 42 ára gamall og mjög fær í sínu fagi og kom auga á möguleikana sem þessi nýja tækni bauð. Hann settist með mér fyrir framan tölvuna og sagði undrandi þegar hann horfði fyrst á lyklaborðið: “Kristján, af hverju er þetta ekki í stafrófsröð?”. Þá áttaði ég mig á að við þyrftum auðvitað að byrja á byrjuninni. En það hafðist,” segir Kristján ánægður.

“Yfirbragð fyrirtækisins breyttist mikið á þessum tíma því það varð í raun kennslusetur þar sem við “spjátrungarnir” fórum að kenna þessum flottu mönnum nýja tækni,” segir Kristján. “Við vildum sýna þeim þá virðingu sem þeir áttu fyllilega skilda og allt gekk þetta vel. Meðeigandi okkar og stofnandinn að franska fyrirtækinu var ekki að gera eins góða hluti úti eins og við hér heima. Íslensku skipstjórarnir voru nægilega framsýnir til að taka þátt í þessu ævintýri með okkur á meðan þeir úti voru ekki nógu miklir sölumenn til að geta talið sjómönnunum trú um að þetta væri framtíðin. Við Ásdís vorum á tímabili á leiðinni út til Frakklands þar sem ég ætlaði að taka við markaðssetningunni þar af því ég var búin að gera þetta hér heima. Ég var meira að segja búinn að finna framkvæmdastjóra til að taka við Radiomiðun og hús í Frakklandi, en aðstæður breyttust svo úr því varð aldrei.”

Ástríða og áskorun

Heitt í Arizona.

Kristján er ástríðufullur maður og segir um sjálfan sig að hann verði að finna fyrir ástríðu til að vel eigi að ganga. Það sannaðist meðal annars þegar hann ákvað að fara einn í kringum hnöttinn á mótorhjóli sem mörgum fannst glæfraspil. Kristján er fjárhagslega sjálfstæður og þegar hann er spurður hvort hann sé svona heppinn í fjármálum segir hann að heppni hans felist líklegast helst í því að hafa verið svolítið hræddur, til dæmis þegar allir voru að fjárfesta í hinu og þessu á árunum fyrir hrun. “Það er engin speki á bak við það hjá mér önnur en að ég tók aldrei lán til þess að fjármagna hlutabréfakaup. Þegar fjárfestarnir komu inn í fyrirtækið árið 2000 var eigið fé svo hátt að það var ekkert vit í öðru en skuldsetja fyrirtækið að þeirra mati. Þannig hafði ég ekki unnið og ekki heldur tengdafaðir minn á undan mér. Báðir menn af gamla skólanum að þessu leyti“.

Tók skrefið fimmtugur

Þegar Krisján fékk fjárfestana inn í fyrirtækið árið 2000, sem hann segir að hafi verið til að deila ábyrgð, áhyggjum og ávinningi, þá ræður hann framkvæmdastjóra en gerist sjálfur stjórnarformaður móðurfyrirtækisins og svo var ráðist í að kaupa önnur fyrirtæki og stækka enn frekar. Árið 2006 fengum við tilboð í fyrirtækin okkar og seldum, en nýr eigandi bað Kristján um að gegna stjórnarformennsku í eitt ár, en þau urðu sjö. „Helsta gæfa mín var að ráða yfirburðafólk til starfa á öllum sviðum, fólk með mikla þekkingu, færni og metnað. Þegar við fengum fjárfesta inn í fyrirtækið í byrjun gáfum við lykilstarfsmönnum hlut í fyrirtækinu. Án starfsfólksins hefði Radiomuðun aldrei orðið að því fyrirtæki sem það varð.“

Kristján á Sikiley 2017 með sonum og tengdadætrum.

Golfið

Kristján og Ásdís höfðu stundað golfíþróttina í mörg ár og Kristján var kominn niður í einnar tölu forgjöf. Hann naut þess að spila en á þessum tímapunkti var bakið farið að hrjá hann, svo mikið, að hann var farinn að kvíða vorkomunni þegar golfið hefði að öðrum kosti átt hug hans allan. Kristján ákvað þá að hætta að spila golf, sem reyndist honum erfitt, ekki síst félagslega því golfið er félagslegt fyrirbæri. Hann hélt áfram að vera í stjórnum nokkurra fyrirtækja en þarna skapaðist mikill frítími. InDefense hópurinn var stofnaður 2008 og Kristján kom nokkuð að því máli, þó ekki alveg í byrjun. Þar fann hann brennandi ástríðu og vildi leggja sitt af mörkum til að sanngirni næði fram að ganga og starfaði með þeim þar til sá hópur hætti störfum, eftir að þjóðin stóð hnarreist og neitaði að kyngja Icesave samningunum. Hann er ánægður með aðkomu sína að því máli og hélt hann sérstaklega upp á 28. janúar 2013 þegar EFTA dómstóllinn staðfesti rétt Íslands til að neita að greiða skuldir föllnu bankanna.

Nýtt aldursskeið hafið með nýju ævintýri

“Ég held að nú sé að hefjast nýtt ævintýri í lífi okkar Ásdísar en það er ævintýrið í kringum styrktarsjóðinn,” segir Kristján en þar er hann að tala um sjóðinn sem innkoma af bók hans Hringfarinn myndar. Þau Ásdís ákváðu að stofna þennan sjóð til að safna peningum til forvarna fyrir ungt fólk í fíkniefnavanda en allur ágóði af bókinni fer í þennan sjóð, ásamt tekjum af heimildarmyndinni um Hringfarann.

InDefence hópurinn var boðaður á Bessastaði 2011, en Ólafur Ragnar Grímsson vildi kanna afstöðu hópsins til Icesave III samningsins. Tveimur dögum síðar tilkynnti hann í sjónvarpsávarpi að hann myndi ekki samþykkja lögin og var málið því sent í þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem samningurinn var kolfelldur.

“Ástæðan fyrir því að við völdum þetta málefni er að við eigum tvo vini sem hafa orðið fíkniefnaneytendur. Öðrum kynntist ég í Bandaríkjunum þegar ég var þar skiptinemi og er svokallaður skiptinemabróðir minn. Hann var svaramaður þegar ég gifti mig og ég þegar hann gifti sig. Hann varð vel metinn læknir en fór alveg á botninn vegna fíknarinnar. Hinn er æskuvinur minn hér  heima. Þeir eru báðir ótrúlega vel gerðar manneskjur en misstu allt sitt vegna fíknarinnar. Við heyrum líka meira og meira um ungt fólk á Íslandi sem verður fíkninni að bráð og okkur fannst að við gætum lagt eitthvað af mörkum í þennan málaflokk,” segir Kristján. “Viðbrögðin sem við höfum fengið frá ótrúlegasta fólki eftir stofnun þessa sjóðs segja okkur að við erum að gera rétta hluti. Ég hef geysilega ástríðu fyrir þessum sjóði og við vonum að hann eigi eftir að gera gagn.

 

 

 

 

 

 

 

 

Ritstjórn nóvember 29, 2018 07:36