Að ráða sjálfan sig í vinnu – er það rétta leiðin fyrir þig?

Mikið hefur verið rætt um sveigjanleg starfslok og möguleika þeirra sem eru frískir og sprækir til að halda áfram að vinna ef þeir hafa getu og færni til þess.  Eitt af því sem eldra fólk gerir til dæmis í Bandaríkjunum og víðar, er að fara í eigin rekstur þegar formlegri starfsævi lýkur og aldurinn færist yfir. Hér á Lifðu núna höfum við stundum fjallað um eldra fólk sem stofnar fyrirtæki, til dæmis Helgu á Röðli, sem hóf skemmtistaðarekstur á sjötugsaldrinum og Guðrúnu frá Lundi sem fór sextug að gefa út bækur.

Heppilegt að fara þessa leið eða ekki?

Á bandarísku vefsíðunni aarp.org hefur verið fjallað um þetta málefni út frá ýmsum hliðum og við grípum niður í grein, þar sem eldra fólk er aðstoðað við að finna út, hvort það sé heppilegt fyrir það að fara þessa leið eða ekki. Þar segir: „Það getur virst ógnvekjandi að stofna fyrirtæki sem byggjast á  hæfileikum þínum, áhugamáli eða á viðskiptahugmynd sem þú hefur fengið. En margir upplifa að með góðu skipulagi og með því að nota þá aðstoð sem býðst, getur slíkt verið góður kostur.

Spurðu sjálfan þig þessara spurninga

Síðan er stuttur spurningalisti sem fólki er ráðlagt að fara í gegnum, ef það er að hugsa um að stofna eigið fyrirtæki.

  • Áttu auðvelt með að taka áhættu?  Forðastu í lengstu lög að koma þér í aðstæður sem eru ekki 100% öruggar?  Ef þú svarar því játandi, er stofnun eigin fyrirtækis liklega ekki rétta leiðin fyrir þig. En ef þér þykir spennandi að taka mátulega mikla áhættu, skaltu lesa áfram.
  • Ertu sjálfstæð/ur?  Ef þú átt gott með að treysta eigin innsæi og ef þú ert ekki hrædd/ur við höfnun annað slagið, getur þú sennilega stofnað eigið fyrirtæki.
  • Áttu gott með að sannfæra aðra?  Það er ekki nóg að vera með bestu viðskiptahugmynd í heimi.  Þú verður að vera fær um að sannfæra viðskiptavini, starfsmenn, bankastofnanir og samstarfsaðila um ágæti hennar. Ef þú átt ekki gott með það, gæti orðið erfitt fyrir þig að stofna fyrirtæki.
  • Býrðu yfir samningslipurð?  Ef þú stofnar fyrirtæki munt þú þurfa að semja um allt milli himins og jarðar, allt frá húsaleigu, innkaupum og tryggingum til lánsvaxta. Ef þú átt gott með semja um hlutina, auðveldar það sér að spara peninga og halda rekstrinum gangandi.
  • Hugmyndaríkur? Dettur þér margt nýtt og skemmtilegt í hug? Ertu lunkinn í að finna nýjar leiðir til að leysa vandamál?  Það hjálpar þér í fyrirtækjarekstri.
  • Áttu stuðning vísan?  Það þarf að taka margar mikilvægar ákvarðanir, sérstaklega fyrstu mánuðina eftir að þú stofnar fyrirtæki.  Ef þú hefur ekki aðgang að fólki sem getur hjálpað þér, skaltu athuga hvort þú getir ekki fundið góðan leiðbeinanda til að aðstoða þig.

Ef þú hefur svarað þessum spurningu játandi, er kannski ekki úr vegi að vitna í tvo einstaklinga sem stofnuðu fyrirtæki vestra, bara svona til að „peppa“ þig upp. Þannig sagði afrísk-ameríski frumkvöðullinn Madame C.J. Walker. „Ég þurfti að skapa mér vinnu til að geta lifað og mér tókst það. Ekki sitja og bíða eftir að tækifærin komi upp í hendurnar á þér. Stattu upp og búðu þau til“. Jim Clingman í Cincinnati var enn afdráttarlausari og sagði „Drífðu í að ráða sjálfan þig í vinnu“.

Ritstjórn maí 3, 2016 13:05