Ætla að vera saman á hjúkrunarheimilinu

Bjartsýnisklúbburinn er hópur vinafólks sem gerir margt skemmtilegt saman. Í hópnum eru hjónin Hanna Fríða Jóhannsdóttir og Hlöðver Þorsteinsson, Jón Sigurðsson og Ingibjörg Þóra Arnarsdóttir, Ólöf Pétursdóttir og Eyþór T. Heiðberg.  Karlarnir í hópnum eru gamli vinir og skólafélagar og upphaflega voru þeir fjórir saman vinirnir, sem hittust reglulega, en einn þeirra Guðbjartur Kjartansson er nú fallinn frá.

Ákváðu að fara að hittast mánaðarlega

„Þeir hafa alltaf haldið hópinn og við konurnar komum svo inní líf þeirra á misjöfnum tímum og við það stækkaði vinahópurinn.  Svo leið tíminn, það voru allir með börn og við vorum stundum að býsnast yfir því hvað væri langt síðan við hittumst síðast. Það hefur alltaf verið fastur liður að hittast á afmælisdögum þeirra félaga og afmælisgjöfin er ævinlega viskíflaska. Svo ákváðum við fyrir um 20 árum að fara að hittast einu sinni í mánuði. Við höfðum það fyrir reglu að hittast með börnin, í hádegi á laugardegi eða sunnudegi. Sá sam bauð í hvert sinn, skipulagði göngur með barnakerrur og stundum báru menn börnin á bakinu. Svo var borðað saman og börnin okkar náðu þannig að kynnast“, rifjar Hanna Fríða upp.

Gera vel við sig í mat og drykk

Eftir því sem börnin urðu eldri og höfðu ekki lengur áhuga á að vera með foreldrunum í matarboðunum, fóru hjónin í Bjartsýnisklúbbnum að hreyfa sig meira og færðu matarboðin yfir á laugardags- eða sunnudagskvöld  Þau fara líka í gönguferðir, ganga þetta þrjá til tíu kílómetra eftir veðri og vindum og gera svo vel við sig í mat og drykk á eftir.  „Við leggjum fyrir peninga til að gera okkur glaðan dag og höfum til dæmis farið saman í tónleikaferð til Kaupmannahafnar“, segja þau og finnst dýrmætt að eiga svona góða vini og svona góðan hóp að. „Lífið hefur fært okkur alls kyns verkefni, foreldrar hafa til dæmis  verið að falla frá og þá skiptir vinahópurinn svo miklu máli“.

Nauðsynlegt að kynna sér fjármálin tímanlega

Blaðamaður Lifðu núna hitti þetta hressa fólk á fundinum sem Íslandsbanki hélt nýlega um fjármál við starfslok.  Þau sögðu nauðsynlegt að kynna sér þessa hluti og betra að gera það í tíma, ekki of seint. „Við erum allir skriðnir yfir sextugt, erum bara með svona ungar konur!“ segir einn úr hópnum hlæjandi.  Þau höfðu ekki haft það alveg á hreinu að séreignasparnaðurinn skerðir ekki lífeyri. „Maður var ekki alveg viss“, bæta þau við og segja ljóst að fólk þurfi að vera vakandi yfir kerfinu, sem sé stöðugt að breytast. Þeim fannst að vísu sérkennilegt hversu fljótt og við hversu lága upphæð ellilífeyrir almannatrygginga fer að skerðast.

Eins gott að það verði nóg af rauðu, hvítu, bjór og góðum mat

Einni úr hópnum fannst líka skrítið að  best væri fyrir fólk að selja sumarbústaðinn 67 ára, eða áður en það fer að þiggja greiðslur úr TR „Menn hætta ekkert að fara í sumarbústaðinn þó þeir nái þessum aldri. Þeir eru búnir að borga skatta og fasteignagjöld af bústaðnum, en ef þeir selja hann eftir að þeir eru komnir á eftirlaun, þá skerðist bara eitthvað annað. Þú færð ekki andvirði bústaðarins í vasann, þó þú sért búinn að vinna fyrir þessu öllu saman“, segir hún. (Innskot frá ritstjórn 12.04.22: Því skal haldið til haga hér, að nú er búið að breyta fyrirkomulagi skattlagningar við sölu sumarbústaða)  Þau klykktu svo út með því að þau ætluðu að vera saman á hjúkrunarheimilinu þegar þar að kæmi. „Það er eins gott að þá verði nóg af rauðu, hvítu, bjór og góðum mat“, segja þau að lokum og hlátur þessa glaða hóps ómaði í Hörpunni.

Bjartsýnisklúbburinn eftir fundinn í Hörpu. Frá vinstri, Ólöf, Eyþór, Hanna Fríða, Hlöðver, Ingibjörg Þóra og Jón

Ritstjórn október 18, 2019 07:56