Ætlaði í ljósmyndanám en fór á afdrifaríkt fyllerí

„Róbert er gæfumaður” sagði heimamaður aðspurður um bakgrunn Róberts Guðfinnssonar athafnamanns. Róbert býr á Siglufirði þar sem hann er fæddur og uppalinn og margur skyldi halda að gæfa hans hefði komið til af því Róbert hafi verið fæddur með silfurskeið í munni, en svo var ekki.

Þjóðsagan segir nefnilega að gangi maður fram á látinn mann boði það gæfu. Siglfirðingurinn Örlygur Kristfinnsson segir frá því að Róbert, þá 11 ára gamall, hafi verið á ferð einn uppi í fjalli þegar hann gekk fram á látinn mann. Þetta var Vignir hringjari sem var að reka kindur sínar til sumarbeitar upp í fjall þegar hann ætlaði að leggja sig í laut og hvílast,” segir Örlygur. Þar sofnaði hann svefninum langa og þarna gekk Róbert fram á hann. Samkvæmt þjóðtrúnni er það mikið gæfumerki fyrir þann sem finnur látinn mann. Auðvitað spurðist strax um bæinn að Vignir hringjari hefði fundist látinn uppi í fjalli og Robbi Guðfinns hefði fundið hann. Robbi var þá spurður hvort hann hefði ekki fengið fundarlaun. Það var ekkert óeðlilegt að gert væri svolítið grín að þessu þótt auðvitað hafi verið sorglegt að maðurinn hafi látist en þarna átti gamall, heilsuveill maður í hlut og ekki ástæða til að gera mikið úr því. En ef eitthvað er að marka þjóðtrúna þá hefur það sannarlega ræst með Róbert því hann er mikill gæfumaður,” segir Örlygur en bætir við að auðvitað sé Róbert umdeildur maður en það skilji allir Siglfirðingar hversu gríðarlega dýrmætur hann er fyrir heimabæ þeirra.

Forvitnin um fortíðina

Róbert Guðfinsson var fertugur þegar hann kynntist blóðföður sínum.

Róbert er fæddur 1957 og segist vera ástandsbarn. Kvænur Steinunni R Árnadóttur til fjörtíu ára. Faðir fjögurra stúlkna með sex barnabörn. Móðir hans hafi hitt bandarískan mann sem fór svo sína leið aftur heim og Róbert ólst upp hjá móður sinni og Guðfinni sem hún giftist síðar. Róbert segir að Guðfinnur hafi gengið sér fullkomlega í föður stað en var svo orðinn fertugur þegar forvitnin um fortíðina vaknaði.

Kominn af Húgenottum

Róbert kynntist föður sínum um fertugt og um leið þremur systrum og einum bróður. Faðir hans er nú látinn en forfeður hans voru franskir Húgenottar. Þeir hröktust undan kaþólikkunum um 1660 og ættfaðir Róberts flutti fyrst til Bretlands og síðar til Bandaríkjanna. Forfeður hans voru margir hverjir listrænir og þaðan hefur Róbert eflaust fengið hæfileika sem hafa nýst honum í lífinu. Húgenottarnir voru líka framarlega í viðskiptalífinu í Frakklandi og eru enn. Róbert nefnir sem dæmi fjarskyldan ættingja, Damon Runyon, sem var rithöfundur og skrifaði margar frægar sögur, meðal annars söguna Guys and dolls 1931 sem frægur Broadwaysöngleikur var settur upp eftir. Damon Runyon var líka þekktur fyrir að hafa stutt við krabbameinsrannsóknir með því að styðja og styrkja unga vísindamenn við rannsóknir sínar en stofnun hans „The Damon Runyon Cancer Research Foundation” er enn fræg í vísindaheiminum í dag.

Var hættur að skilja íslenskt viðskiptalíf

Róbert bjó á Siglufirði til 1998 en hafði tekið að sér að stýra sjávarútvegsfyrirtækinu Þormóði ramma 1985. 1998 tók hann við sem stjórnarformaður Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna og upp úr því stundaði hann alþjóðaviðskipti, bæði hér heima og erlendis. En 2005 segist Róbert hafa verið alveg hættur að skilja upp eða niður í íslensku viðskiptalífi. Ég var orðinn mjög innarlega í viðskiptalífinu hér heima en þarna stóð ég á gati og þótti betra að láta aðra um. Þarna voru hlutirnir komnir út fyrir það svið sem þekking mín og geta lágu og þá vildi ég færa mig um set. Ég vissi að tíma mínum og getu væri betur borgið í einhverju sem væri meira tengt frumframleiðslu. Þess vegna fór ég í fiskeldi og að byggja upp uppsjávarfyrirtæki, fiskverkun og skyld verkefni. Það gekk mjög vel og ég horfði á Ísland úr fjarlægð frá heimili mínu í Phoenix Arizona.”

Hrunið 2008 og hrunið 1968 um margt líkt

Síldarplanið á Siglufirði                                       Mynd: Elenora Katrín Árnadóttir frá 2008.

Ég horfði á hrunið 2008 og sá þá svipaða mynd og ég upplifði ellefu ára gamall á Siglufirði þegar síldin hvarf,” segir Róbert. „Ég sá hvernig allir urðu reiðir, atvinnutækin koðnuðu og fólkið flutti burt. Það varð reitt út í einkaframtakið og sá strax að það væri allt einhverjum öðrum að kenna hvernig hafði farið. Svo myndaðist tómarúm, alveg eins og gerðist 2008. Fólkið fann sökudólga en það er nú bara staðreynd að reiðin stafaði helst af því fólki fannst það hafa verið blekkt en tók ekki ábyrgðina sjálft. Reyndar var ekki verið að blekkja neinn heldur fór í gang hjarðhegðun og allir gerðu eins. Nú er það sama að gerast á fasteignamarkaðnum og hver eltir annan. Ungt fólk, sem jafnvel er enn í námi, verður endilega að eignast í búð þótt það hafi ekki greiðslugetu og áttar sig of seint. Það er ekki gott að stíga fyrstu skrefin sín út í lífið með skuldir á bakinu. Þessi hjarðhegðun kemur aftur og aftur og hringekja fjármagnsins fer í gang. Ég reyni af fremsta megni að falla ekki í þá gryfju sjálfur,” segir Róbert.

Ætlaði í ljósmyndanám en fór á afdrifaríkt fyllerí

Róbert segir að hann hafi farið ungur á sjóinn eins og aðrir guttar á Sigló. Síðan var hann á leiðinni í ljósmyndanám, búinn að taka Iðnskólann og fá inni í skóla í Gautaborg 1978. Ég hafði verið á togara sumarið 1977 og um haustið var ég að skemmta mér með strákunum og endaði í Stýrimannaskólanum. Það var afdrifaríkasta fyllerí sem ég hef farið á,” segir Róbert og hlær. Ljósmyndaferillinn fór fyrir bí og ég endaði sem stýrimaður. Ég kláraði það nám en fann fljótlega út að það væri ekki gott fyrir útgerðina að hafa mig sem skipstjórnarmann. Ég fór þá í Tækniskólann og tók þar rekstrarfræðina og 28 ára gamall var ég svo orðinn framkvæmdastjóri Þormóðs ramma.”

Veitingahúsin Hannes Boy og Kaffi Rauðka eru við höfnina og gera leikmyndina enn fegurri.

Fyrirtæki með skiljanlegan rekstur

Róbert var fyrst að vinna hjá ríkinu sem forstjóri Þormóðs ramma en 2005 ákváðu nokkrir Siglfirðingar að kaupa fyrirtækið. Róbert seldi svo sinn hlut þegar hann var hættur að skilja fyrirkomulagið á Íslandi og

kom sér fyrir í Bandaríkjunum sem var auðvelt fyrir hann af því hann var með tvöfaldan ríkisborgararétt þar sem blóðfaðir hans var Bandaríkjamaður. Þá ákvað hann að setjast að í Phoenix Arizona og fór að sinna rekstri í Mexíkó, Króatíu og Chile. Sem dæmi má nefna að Róbert var með laxeldi í Padegóníu í Chile sem framleiddi jafnmikið og allt Ísland gerði í fyrra.

Þar komst ég í kynni við fólk sem var að reka fyrirtæki með skiljanlegan rekstur.” Róbert segist vera þannig manngerð að hann verði að skilja vel það sem hann er að gera, annars  forði hann sér.

Fór að fjárfesta eins og aðrir

Rómantískt umhvefi Hótel Sigló þar sem bátarnir leika hlutverk.

„En svo rétt fyrir hrun byrjaði ég að fjárfesta eins og allir heima. Á ferðalögum mínum var ég mikið nálægt sjónum eins og gefur að skilja og hafði séð hvernig skemmtibátahafnir eða „marinur” höfðu víða mikið aðdráttarafl fyrir túrista. Þá fæddist þessi hugmynd hvort væri ekki hægt að gera smábátahöfnina á Siglufirði að aðdráttarafli. Ég byrjaði þá að kaupa upp ónýtar eignir og gera upp og þá urðu Hannes Boy og Rauðka til. Svo keypti ég hús sem hét Sunnubraggi og byggði þar hótelið. Ég var spurður að því hvort væri einhver markaður fyrir hótel upp á 1,8 milljarð á Siglufirði. Ég svaraði auðvitað eins og var að það væri alls enginn markaður fyrir svo dýrt hótel en ég ætlaði að búa hann til. Ég er fyrst og fremst áhættufjárfestir og frumkvöðull. Það þarf einhver að sjá hlutina með öðrum augum en hinir sem eru í reikniformúlunum sem eru fyrirsjáanlegar. Best er þegar margir með ólíka sýn koma saman.

Listræn taug

Róbert átti sér draum um að fara í ljósmyndanám sem aldrei varð úr en eflaust má færa fyrir því rök að sú listræna taug sem hann langaði að þróa hafi nýst honum í viðskiptum. Róbert sér fyrir sér hvernig hann langar að lokaútkoman verði líkt og ljósmyndari sem kemur auga á fallegt myndefni. Þetta er fólk sem býr yfir þrívíddarsýn eða svokallaðir visioners”.

„Ég horfi á viðskipti ekkert öðruvísi en ég horfi á myndefni,” segir Róbert. Í mynd ertu með forgrunn, myndefni og bakgrunn. Þannig byggir maður myndina upp og það sama gerist í viðskiptum. Gott dæmi um þetta er þegar ég var að byrja á að gera upp við höfnina á Siglufirði. Þá urðu trillukarlarnir alveg æfir og sögðust nú alveg vita hvernig þetta myndi enda. „Við verðum bara hraktir í burtu með bátana okkar”. Ég sagði við þá að þeir væru algerlega að misskilja þetta. Ég væri að byggja leikmynd og þeir væru leikararnir. Meira að segja mjög mikilvægir í þeirri mynd og yrðu aldrei reknir af sviðinu. Þeir þurftu að átta sig á að það væri verið að byggja leikmyndina í kringum þá og þá horfði málið auðvitað öðruvísi við.”

Gerir fleiri mistök en aðrir

Róbert segist alls ekki vera góður daglegur stjórnandi. Þar séu aðrir miklu betri. Hann reyni frekar að fara á undan og sjá hvernig sé hægt að breyta og bæta við til þess að verkefnin þróist vel. „Og af því ég tek fleiri ákvarðanir en aðrir geri ég fleiri mistök. En ég er svo lánsamur að hafa getað lært af mistökunum. Og ég veit að þegar mistökin eru gerð er betra að gera þau með eigin peningum en annarra og það hefur auðvitað gefið mér ákveðið frelsi. Ég var í 22 ár í viðskiptum í Mexíkó og fyrstu 5-7 árin var Murphy daglegur gestur. Það fór allt úrskeiðis sem gat farið úrskeiðis og lögmál Murphys sönnuðust rækilega. En ég lærði sem betur fer af þessum mistökum og eitt af því sem ég lærði var að það tekur mörg ár að læra inn á nýtt þjóðfélag. Mistökin sem hafa ítrekað verið gerð eru að þegar farið hefur verið í útrás og menn hafa menn tekið eitthvað sem hefur gengið vel hér heima þá hafa þeir ætlað að ýta á copy/paste takkann og gera alveg eins þar. Sér í lagi þegar reynt hefur verið að fara til minna þróaðra landa. Það er ekki sjálfgefið að stjórnanda sem gengur vel í íslensku samfélagi gangi vel þar.”

Gera viðskipti við fólk en ekki fyrirtæki

Mexíkóskt þjóðfélag var sem dæmi mjög sósíalískt. Þar hefur verið langt breytingaskeið og mjög erfitt hefur verið að eiga við löggjafann þar. Þar af leiðandi hefur þjóðfélagið þróast þannig að menn gera viðskipti við fólk en ekki fyrirtæki. Ef þeir treysta þér ekki þá er ekki möguleiki fyrir þig að komast í viðskipti. Það tók mig mörg ár að öðlast þetta traust.

Maður þarf að umgangast þetta fólk fyrir utan vinnuna og vera helst einn af fjölskyldunni. Þá er maður orðinn „fólk en ekki fyrirtæki”. Þess vegna á ég nú gamla viðskiptafélaga sem eru hluti af fjölskyldu minni. Þetta tók mjög langan tíma og var mikil eldskírn. Það er þessi lærdómur hvernig maður á að umgangast aðrar þjóðir og vinna með þeim sem er svo mikilvægur og dýrmætur.”

Hér sést vel hvernig Hótel Sigló liggur vel við höfina og smábátarnir spila við.

Hleypur ekki jafn hratt og áður

Róbert hefur átt viðburðaríkt líf þótt hann sé ekki gamall. Hann hefur verið með viðskipti um allan heim, búið erlendis og margir draumar hafa ræst. Þegar hann var búinn að upplifa margt fór hann að hugsa

hvernig hann ætlaði að verja seinni hluta ævinnar. „Ég áttaði mig á að ég hljóp ekki eins hratt og áður en samt langaði mig að halda áfram að búa til og skapa. En ég vissi að til að gera það vel væri nauðsynlegt að þekkja umhverfið sem ég ætlað að vinna í. Þess vegna lá beint við að fara til Siglufjarðar, í mína heimabyggð, og hefja framkvæmdir þar. Þetta var ekki flóknara en það,” segir Róbert og brosir. „Ég hafði strax hugmyndir um hvað ég vildi gera og gekk í málið. Það voru samt ekki alveg allir kátir með að fá mig á svæðið aftur,” segir Róbert íbygginn á svip.

Rekur líftæknifyrirtæki á Siglufirði

Róbert metur mikils að vera frjáls því það gefur honum möguleikann á að vera sjálfstæður og frjáls til athafna. Hann hefur aldrei beðið um afslátt af gjöldum en vill fá þjónustu fyrir fjármagnið sem hann borgar til samfélagsins og ætlast til að þar sé farið vel með peningana.

Hann stofnaði fyrirtækið Genís sem staðsett er á Siglufirði en þar er m.a. framleitt fæðubótarefnið Benecta. Hjá fyrirtækinu eru auk þess þróaðar aðferðir til að

Stemmgningin við smábátahöfnina um sumar á Siglufirði.

meðhöndla  bólgusjúkdóma, einkum í bein- og brjóskvef. Þetta er sérstakt áhugamál hjá Róberti sem er fullur af hugmyndum sem munu að líkum nýtast Íslendingum vel í framtíðinni. Hann hefur laðað ungt vísindafólk að Siglufirði og segir að það sé engin fyrirstaða að fá fólk til starfa úti á landi svo fremi sem öll aðstaða og vinnuöryggi sér til staðar. Róbert segir sjálfur að það sem hann sé að gera í fjármálum sé í sjálfur sér ekkert merkilegt. Hann hefur þá trú að þeir sem eigi peninga eigi að líta til lengri tíma í fjárfestingum. Góðar fjárfestingar þurfi  meiri tíma en menn haldi. „Varðandi fjárfestingar mínar, sem margir hafa undrast, eins og Sigló Hótel, þá er ég alveg sáttur við að slík fjárfesting borgi sig á löngum tíma. Enda er þannig fjárfesting byggð upp til að endast. Það væri mjög gott ef börnin mín,  barnabörn og samfélagið mun njóta þess en ég þarf ekki að gera það. Ég fór í þessa vegferð með það fyrir augum,“ segir Róbert og heldur ótrauður áfram að fjárfesta í sinni heimabyggð.

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar

 

SÝN RÓBERTS Á ÍSLENSKAN SJÁVARÚTVEG

Ávöxtunarkrafa til fjármagns þarf að vera skynsamleg. Ef þú gerir of mikla ávöxtunarkröfu til fjármagnsins ertu að þjappa því saman í allt of stuttan tíma og tekur þú ákvarðanir sem eru ekki endilega skynsamlegar.

Varðandi fjárfestingar mínar, sem margir hafa undrast, eins og Sigló Hótel, þá er ég alveg sáttur við að slík fjárfesting borgi sig á löngum tíma. Enda er þannig fjárfesting byggð upp til að endast. Það væri mjög gott ef börnin mín,  barnabörn og samfélagið mun njóta þess en ég þarf ekki að gera það. Ég fór í þessa vegferð með það fyrir augum.

Enda er slík fjárfesting með ávöxtunarkröfu sem er í samræmi við alþjóðlega ávöxtunarkröfu. Íslenska ávöxtunarkrafan er oft allt of kröfuhörð og til of skamms tíma. Of hátt vaxtarstig og of há ávöxtunarkrafa gerir að verkum að fólk verður skammtímaþenkjandi. Og ef þú skerð þig úr passarðu ekki inn í munstrið. Exelskjöl fjármálastofnana mótast af þessum íslenska hugsunarhætti og byrja strax að blikka rauðu ljósi.

Ég hef starfað í löndum með ófullkomið fjármálakerfi sem gera svona kröfur vegna öryggisleysis. Þá treysta menn  sér ekki til að lána til 50 ára því þeir vita ekki hvernig staðan verður eftir 5 ár. Þar af leiðandi verður stöðugleikinn enginn.

Þeir sem eiga og stjórna sjávarútvegsfyrirtækjunum á Íslandi eru óheyrilega kjarkmiklir á alþjóða vísu. Þeir eru að fjárfesta hér í fastafjármunum eins og nýjum skipum og verksmiðjum þrátt fyrir að stöðugt sé verið að hóta þeim að taka af þeim veiðiheimildirnar og hækka veiðileyfagjöldin. Ákvarðanir eru því teknar í endalausri óvissu.

Ég á enga hagsmuni í sjávarútveginum en ég átta mig á að ef menn ætla að fara að hrófla við kerfinu núna munu þeir skapa ofboðslegan óstöðugleika til langs tíma.

Ég fullyrði að stjórnendur í íslenskum sjávarútvegi séu geysilega framarlega í sinni grein á alþjóðavísu. Þar fyrir utan eru þeir að vinna í miklu flóknara umhverfi er gerist annars staðar. Og það er ekki að ástæðulausu að þeir sem núna stýra íslenskum sjávarútvegi eru þar. Þetta eru óhemju sterkir stjórnendur.

Þegar við keyptum Þormóð ramma 1990 var auðlindin einskis virði. Það var vegna þess að menn töpuðu á því að nýta hana. Það var af því að kerfið var þannig uppsett að það var ekki hægt að ná hámarks afrakstri út úr veiðiheimildunum. Þeir sem stóðu að byltingunni í sjávarútveginum stóðu að alvöru iðnbyltingu og ég var þar á meðal. Það var ekki ríkið sem borgaði það heldur náðu menn að hagræða mjög hratt í greininni sem varð til þess að hún varð almennilega sjálfbær og fór að skila hagnaði. Það kostaði ofboðslega vinnu og ofboðslegar fórnir. Þetta var gert af því menn vissu að þeir voru í alþjóðlegri samkeppni um að selja fisk. Og ef þeir gætu ekki keppt þar þá var atvinnugreinin dauðadæmd.

Ég hætti í íslenskum sjávarútvegi 2005 og mun aldrei fara í hann aftur. Þá framleiddi hver vinnustund í fiskvinnslu 17 kíló af fiskflökum. I dag framleiðir hver vinnustund 80 kíló og þar kemur hátækni til sögunnar. Í dag hefur afli á hvern sjómann fjórfaldast miðað það sem var fyrir fimmtán árum síðan. Þetta er ástæðan fyrir því að störfin í greininni töpuðust. En svo er mjög þægilegt fyrir þá sem þurfa ekki að rökstyðja má sitt að segja að það sé nú bara kvótinn sem sé að valda þessu og svo komi sægeifarnir og steli öllum peningnum. En staðreyndin er auðvitað sú að það var fyrst og fremst tæknivæðingin sem olli þessu. Það þarf sem dæmi fimm sinnum færra fólk í frystihúsunum og fjórum sinnum færri sjómenn. Fyrirtækin voru flest úti á landi svo byggðirnar þar fóru verst út úr þessari byltingu. Nú er verið að búa til tvöfalt meira verðmæti úr hverju kvótakílói með margfalt færra fólki. Mér þykir svo sorglegt að sjá hvernig margir hafa getað leitt umræðuna í heimskulegan farveg án þess að þurfa að rökstyðja mál sitt. Út úr því getur aldrei komið neitt gott.

 

 

Ritstjórn mars 26, 2021 07:45