Er mjög upptekin af nútímanum

Systurnar tvær sem sátu fyrir utan kaupfélagshúsið á Siglufirði á sjómannadaginn árið 1954, horfðu hugfangnar á sólskinið og spegilsléttan fjörðinn. Þær höfðu aldrei séð annað eins, en voru þarna nýfluttar með foreldrum sínum frá litlu þorpi fyrir austan þar sem lognið var ekki eins mikið. Önnur þeirra var Lára Björnsdóttir 11 ára, sem seinna átti eftir að verða félagsmálastjóri í Reykjavík, eiginkona og þriggja barna móðir. „Við vorum svo undrandi, það kemur þarna fullorðið fólk og fer að tala við okkur, taka í hendurnar á okkur og bjóða okkur velkomnar til Siglufjarðar, þetta voru fleiri en einn og fleiri en tveir. Að fullorðnir töluðu svona við börn, ég hafði ekki kynnst því, þó allir hefðu verið góðir við mig. Mér fannst þetta virðingarvottur. Siglfirðingar voru vanir allra þjóða kvikindum og tóku vel á móti aðkomufólki. Það var mitt lán að flytja til Siglufjarðar. Þar komumst við í stærri og betri skóla og ég eignaðist mína bestu vinkonu og marga aðra góða vini, sem ég fór með í Menntaskólann á Akureyri. Ég varð stúdent en það var ekki sjálfgefið fyrir stelpur á þessum tíma,“ rifjar Lára upp.

Góðar minningargreinar frábær lesning

Rúmum sextíu árum síðar situr blaðamaður Lifðu núna í eldhúsinu hjá Láru, sem segir að gömul vinkona hennar verði jarðsett í dag, önnur gömul vinkona var jarðsungin í síðustu viku. En hvernig finnst henni að sjá fólk deyja í kringum sig? „Þeir verða alltaf fleiri og fleiri. Ég hef mjög gaman af að lesa minningargreinar. Það er svo áhugavert að sjá hvernig lífi fólk hefur lifað. Góðar minningargreinar eru frábær lesning. Ég hræðist ekki dauðann sjálf, maður sér svo oft að hann getur verið líkn eða lausn. Það sleppur enginn við hann. Ég fyllist ekki þunglyndi þótt vinir og ættingjar kveðji. Mér finnst fyrirkvíðanlegra að verða ósjálfbjarga og þurfa aðstoð vandalausra en deyja. Þegar maður er ungur finnst manni lífið endalaust, en þegar maður verður eldri veit maður hvað stundin er dýrmæt. Þetta gæti verið síðasti dagurinn, þannig að það er eins gott að vera almennilegur,“ segir hún brosandi.

Sér fyrir sér bjarta framtíð

Hún segir að með aldrinum fari fólk að hugsa meira um það sem gerðist í fortíðinni. Sjálf segist hún mjög upptekin af nútímanum. „Mér finnst hann svo spennandi og finnst unga fólkið svo miklu mannvænlegra en fyrri kynslóðir. Það er svo margt gott í umræðunni um umhverfismál og jafnrétti kynjanna. Ég sat með fólki um daginn og hafði orð á því hvað mér fyndist þjóðfélagið í dag miklu betra en þegar ég var að alast upp. Það var karlmaður í hópnum sem var óskaplega hneykslaður á þessu og algerlega ósammála. Mér finnst ungu kynslóðirnar svo miklu opnari en var. Samfélagið var áður svo forpokað og þröngt, það leyfðist ekkert nema hið viðtekna. Ég var svo heppin að ég komst í annað umhverfi í Kaupmannahöfn þegar ég fór þangað til náms. Mér finnst ég eygja von um betra samfélag, jafnvel þótt nýir og nýir harðstjórar komist til valda í ýmsum löndum. En auðvitað verður enginn heimur nema við snúum við blaðinu í loftslagsmálum. Við höfum í græðgi okkar hrifsað til okkar svo mikið. Samfélagið hér er ekki gallalaust, en það er þó leyft að tala um hlutina og reynt að breyta þeim. Fólk er líka orðið betur menntað en áður var.“

Heldur áfram að finna uppá einhverju nýju

Á síðustu árum hefur Lára aðstoðað dóttur sína við að sinna fötluðum dreng.

Lára segist hafa fengið sitt síðasta starf þegar hún var 65 ára. „Og mér finnst ég alveg geta ráðið mig í vinnu núna,“ segir hún hlæjandi, enda er hún í góðu formi. Hún er búin að ganga Jakobsveginn tvisvar eftir að hún hætti formlegu starfi á vinnumarkaðinum, hefur sótt handavinnuskóla í Danmörku þrisvar sinnum, í eitt skipti ein, en svo í sitt hvort skiptið, með sonardóttur sinni og dótturdóttur, auk þessa stundar hún sjósund vikulega. Hún fer einnig í gönguferð erlendis með vinkonum sínum á hverju hausti. Allt þetta hafði hún einsett sér að gera þegar hún færi á eftirlaun. „Svo heldur maður áfram að finna uppá einhverju nýju,“ segir hún. Á síðustu árum hefur hún aðstoðað dóttur sína við að sinna fötluðum dreng, sem nú er kominn á skólaaldur. Það er ástæða þess að hún flutti í Garðabæinn til að þurfa ekki að aka langar leiðir til hans daglega.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin skilgreinir 67 ára fólk ekki sem aldrað

„Ég er á móti aldursskilgreiningum,“ segir Lára. „Mér hefur aldrei fundist ég eldri en unga fólkið í kringum mig, eða yngri en eldra fólkið. Núna eru stórar kynslóðir að verða gamlar og það er talað um það eins og heimsfaraldur, þetta sé svo mikil byrði á samfélaginu. Það er hins vegar aldrei rætt um hvað eldri kynslóðirnar leggja mikið til samfélagsins, alla þessa reynslu. Það var nú ekki alltaf allt jafn gáfulegt sem maður var að gera þegar maður var ungur. Lífsreynslan skiptir svo miklu máli, er á pari við menntunina ef maður nýtir hana vel. Það er svo mikil menntun fólgin í lífsreynslunni.“ Lára segir að það sé enn verið að skilgreina 67 ára gamlar manneskjur sem aldraðar hér á landi, þó að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) geri það ekki. „Maður þroskast og yngist ef maður vill og getur og er lánssamur og ef maður er ekki alltaf í gamla tímanum,“ segir hún.

Gott að blanda saman eldri og yngri

Lára hætti þátttöku á vinnumarkaðinum formlega 69 ára en vann einu ári lengur við að stjórna Velferðarvaktinni í félagsmálaráðuneytinu, sem þá var raunar orðið að velferðarráðuneyti, en hún hafði alltaf verið fylgjandi því að félagsmálaráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið yrðu sameinuð, enda telur hún að forsendan fyrir góðri velferðarþjónustu sé út frá heildrænni sýn á fólk og samfélag. Hún kom víða við á starfsferlinum, vann hjá Reykjavíkurborg, á Kópavogshæli, hjá BUGL, Þroskahjálp og víðar. Hún lærði ung félagsráðgjöf í Danmörku en þá var slíkt nám ekki í boði á Íslandi og sótti sér seinna framhaldsmenntun í Bretlandi, þá 42 ára, gift og búin að eignast börnin sín þrjú. Eftir námið í Danmörku kom hún heim haustið 1969 og fór að vinna sem félagsráðgjafi hjá Reykjavíkurborg. Þá hafði nýlega verið samþykkt í borgarstjórn að koma upp nútímalegri félagsþjónustu í stað tveggja eldri skrifstofa, skrifstofu félags- og framfærslumála og skrifstofu barnaverndarmála. Vorið 1970 varð Félagsmálastofnun Reykjavíkur svo að veruleika. „Eldri kynslóðin sem vann þarna var á aldur við foreldra mína og svo vorum við þessi ungu sem vorum að koma úr námi. Þetta varð svo góð blanda,“ rifjar Lára upp.

Félagsmálastofnun reyndist örlagavaldur

Meðal unga fólksins á Félagsmálastofnun var Ingólfur Hjartarson, nýútskrifaður lögfræðingur. Hann var skrifstofustjóri á stofnuninni og þar lágu leiðir hans og Láru saman. „Við vorum ekki alltaf sammála í vinnunni,“ segir Lára og bætir við að til að forða hjónaskilnaði hefði Ingólfur ákveðið að skipta um starf. Lára hafði eignast son fyrir hjónaband og heitir hann Jón. Dóttirin Hildur fæddist árið 1973 og sonurinn Björn fjórum árum síðar. Ingólfur lést árið 2010. Tveimur árum síðar hætti Lára að vinna. Hún er þekktust fyrir að hafa verið félagsmálastjóri í Reykjavík, en því starfi gegndi hún í 12 ár frá árinu 1994 og er það lengsti tími hennar í sama starfi. „Ég hef alltaf skipt um vinnu þegar ég hef fundið að það væri komið gott og andinn ekki lengur jafn brennandi,“ segir hún.

Velferðarvaktin vildi verja börnin

Seinna eða 65 ára gömul sótti hún um starf skrifstofustjóra í félagsmálaráðuneytinu hjá Jóhönnu Sigurðardóttur og fékk það. „Síðan þegar Ásta R. Jóhannesdóttir tók við í ráðuneytinu af Jóhönnu bjuggum við til Velferðarvaktina. Það var merkilegt starf á sínum tíma en varð kannski þekktara í útlöndum en hér. Við vorum öll að missa móðinn og það var augljóst að það þyrfti að bjarga því sem bjargað yrði. Samfélagið þyrfti að taka utan um fólk, annars yrði allt ein rjúkandi rúst. Það var farið að tala um þetta í ráðuneytinu og niðurstaðan varð að ég tók þetta verkefni að mér, ásamt Ingibjörgu Broddadóttur samverkakonu minni sem var þrautreynd á vettvangi ráðuneytisins og stjórnarráðsins. Það var kallaður saman hópur úr öllum áttum í þjóðfélaginu. Hvað er mest aðkallandi var spurt og svarið var alls staðar það sama: Það þarf að vernda börnin í landinu. Það var samhljómur í því,“ segir Lára sem endaði hina formlegu starfsævi á Velferðarvaktinni.

„Í Covidinu bjargaði það ýmsu að nota tölvutæknina.“

Tölvutæknin veitir mörg tækifæri

Lára segir tölvuvæðinguna vera lykilinn að því að vera með á nótunum í nútímanum. „Maður getur eiginlega ekki fúnkerað almennilega og ekki fylgst með ef maður hefur hana ekki á valdi sínu. Ég held að maður einangrist. Tölvutæknin gefur svo mörg tækifæri. Ég þarf stundum hjálp með hana, eins og annað sem fólk lærir, en finnst það mikil lífsgæði að geta nýtt þessi tæki. Geta haft samband við fólk hvar sem er í heiminum. Maður er ekki alltaf að hitta fólk. Tæknin tengir mann. Ef maður yrði ósjálfbjarga, en með höfuðið í lagi, þá gæti maður verið í sambandi við annað fólk. Í Covidinu bjargaði það ýmsu að nota tölvutæknina.“ Lára bendir á að tæknin sé einnig öryggisatriði og það hafi hún reynt þegar hún fór að fara ein í sumarbústaðinn eftir að Ingólfur féll frá. „Ég hafði aldrei viljað vera þar ein og þurfti að taka á öllum mínum sálarstyrk og kjarki til að biðja ekki fólk um að fara með mér. Þegar maður er einn er öryggisatriði að hafa snjallsímann eða úrið við höndina. Það er ekki sími í bústaðnum og maður þarf að geta kallað á hjálp ef maður dettur og meiðir sig,“ segir hún og notar tæknina við allt mögulegt fleira. „Til að hlusta á bækur, hlusta á tónlist, leita sér upplýsinga og ná sambandi við aðra. Ef maður er að keyra er hægt að stilla inn á Google Maps og þá er manni sagt til vegar. Ég var aldrei ratvís. Svo fór ég að fara með barnabörnin í fermingarferðir, fyrst með kortin og svo með Google Maps eftir að það kom. Ég varð að standa á eigin fótum, þurfti að læra þetta og gerði það. Svo er alltaf verið að tala um að fólk læri þegar það er ungt en ekki gamalt.“

Vill vera með á nótunum

„Mín aðferð til að vera með á nótunum er að vera færanleg, bæði andlega og líkamlega,“ segir Lára. „Ég hef flutt tvisvar eftir að Ingólfur dó. Og ekki halda að maður sé kominn á endastað. Ekki fullyrða neitt, maður þarf að vera tilbúinn að breyta, alltaf viðbúinn, alveg eins og þegar kallið kemur. Hið stóra kall. Ég reyni að vera í sátt við sjálfa mig og aðra, þannig að ég geti kvatt fólk án þess að vera í ósætti við það. Þetta gildir einkum um fólkið í kringum mann. Nágranna, fjölskyldu og vini. Menn þurfa að passa sig að vera í góðu sambandi við þetta fólk og vera færir um að leysa ágreining ef hann kemur upp og gera gott úr hlutunum. Það eru óskaplega mörg tækifæri til að hafa gaman af lífinu. Líka þegar maður hefur meiri tíma til að hugsa og velta fyrir sér hlutunum, hafa gaman af því smáa, það þarf ekki allt að vera Metropolitan,“ segir Lára.

Viðtalið birtist áður á Lifðu núna í júlí 2022

Ritstjórn júlí 22, 2022 07:00