Tengdar greinar

Ætlar aldrei að hætta að dansa afríska dansa

Sólveig Hauksdóttir

Sólveig Hauksdóttir gekk inn á sína fyrstu æfingu í afrískum dönsum um fimmtugt og heillaðist strax af taktföstum dansinum sem að hennar sögn líkir eftir lífinu sjálfu. Tveim áratugum síðar er hún staðföst í því að ætla aldrei nokkurn tímann að hætta að dansa.

„Ég er líklega búin að vera lengst í dansinum af öllum í hópnum sem ég æfi með. En svo bætist alltaf nýtt fólk í hópinn og ég tek eftir að þegar fólk byrjar finnur það strax fyrir þessari frumstæðu löngun til að dansa. Ætli hún sé ekki innbyggð í okkur frá því að við fórum að ganga upprétt ? Menn hafa öldum saman dansað til þess að tengjast náttúruöflunum og ég ímynda mér að dansinn hafi byrjað þannig – að menn hafi verið að líkja eftir hreyfingum trjánna, skýjunum, sólinni eða rigningunni.“

Sólveig byrjaði í afrískum dönsum fyrir 22 árum, þegar Kramhúsið var nýopnað og enginn hafði heyrt um slíka dansa hér á landi.

„Ég hafði dansað aðra dansa fyrr á ævinni en aldrei dottið afrískir dansar í hug. Einn daginn var ég í ótrúlega leiðu skapi og þá hitti ég Hafdísi, stofnanda Kramhússins, úti á götu. Hún segir við mig að það sé maður byrjaður að kenna afríska dansa í Kramhúsinu og ég skuli endilega koma. Þegar maður er niðurdreginn er mikilvægt að gera eitthvað til að breyta því og þess vegna fór ég á mína fyrstu æfingu og hitti þar danskennarann Klee Douglas. Hann hafði slík áhrif á mig að ég heillaðist algjörlega af afrískum dönsum.

En er enn auðvelt að fá sig til að mæta þrisvar í viku á æfingar?

„Maður verður auðvitað fyrir margskonar áreiti og suma daga, þegar ég er búin að vera að vinna allan daginn, hugsa ég: „Æ, á ég nokkuð að vera að fara þetta?“. En ég fer því það er eitthvað sem dregur mig í hvert skipti. Svo er ég ekki fyrr búin að stíga tvö, þrjú spor en ég hugsa: „Já, það var akkúrat þetta sem ég þurfti“. Öll þreyta og áhyggjur hverfa eins og dögg fyrir sólu á dansæfingu. Þetta er ótrúlega mikill galdur. Svo kemur maður endurnærður heim til sín aftur.“

Hvers vegna afrískir dansar?

„Mér finnst þeir tengja mig við jörðina, himininn og við annað fólk. Afrískur dans er þannig að maður dansar ekki á móti hvort öðru eins og maður gerir í  vals eða tangó – en maður dansar þó alltaf með öðrum og er hluti af stærri heild.

Þó ég sjálf elski afródansinn veit ég að allur dans er hollur. Það að hreyfa sig er grundvallaratriði í lífinu. Maður stendur og fellur með því að blóðið flæði inn í manni og súrefni berist til allra vefja líkamans. Dansinn hefur líka áhrif á sálina: Líkaminn og andinn eru eins og vínviður sem vex saman. Þannig að ég held áfram að dansa svo lengi sem stætt er.“

Þessi grein er af vefnum Tímamót, sem Tryggingamiðstöðin er með. Með því að smella hér geturðu séð viðtal og myndir af Sólveigu dansa afrískan dans.

 

Ritstjórn maí 16, 2017 13:03