Tengdar greinar

 „Ætli gamlingjarnir séu ekki bara að komast í tísku“

Margrét Guðmundsdóttir leikkona fór á eftirlaun árið 2003, 70 ára gömul, eftir að hafa staðið á fjölum Þjóðleikhússins í 55 ár.  Rætt er við Margréti í nýútkomnu blaði Landssambands eldri borgara og Lifðu núna birtir hér hluta úr viðtalinu. Ragna Gestsdóttir tók viðtalið, en Valgarður Gíslason myndirnar.

Leiklistin kallaði Margréti svo aftur til sín árið 2021 þegar Kristín Jóhannesdóttir leikstjóri bauð henni að leika í Ein komst undan í Borgarleikhúsinu. Margrét sló til og uppskar Grímuverðlaunin sem besta leikkona í aukahlutverki. Hún sló svo aftur í gegn með félögum sínum í leikhópnum Lab Loka í leikritinu Marat/Sade á þessu ári, þar sem hún var elsti leikarinn rétt tæplega níræð og sá yngsti 70 ára. Margrét leikur sama hlutverk í verkinu og hún lék í Þjóðleikhúsinu fyrir 55 árum og segist hún þakklát Rúnari Guðbrandssyni leikstjóra fyrir að treysta sér fyrir hlutverkinu.

Hún var meðal annars spurð að því í viðtalinu hvort eitthvað væri eftirminnilegast á leikferlinum.

 „Nei ég get bara ekki nefnt eitthvað eitt hlutverk. Þegar ég lék Lýsiströtu í gamla daga, þá vorum við allar að dansa einhvern grískan dans, ég og hinar gyðjurnar og dönsuðum meðfram sviðsbrúninni, og allt í einu er Herdís Þorvaldsdóttir horfin. Þá hafði hún dottið fram af og í fangið á einhverjum manni, svo brölti hún aftur upp á svið og við héldum áfram að dansa, hún meiddi sig nú ekkert. Það er ýmislegt sem kemur upp á,“ segir Margrét. „Við Bessi lékum tvö saman í Sama tíma að ári sem við lékum um allt land og síðan í Þjóðleikhúsinu. Eitt atriði byrjar á að ég kem inn og hann sest við píanó að spila, hann kunni ekki að skila á píanó þannig að hljóðmaðurinn setti inn hljóðið. Í eitt skipti sest Bessi við píanóið og síminn byrjar að hringja, þá hafði hljóðmaðurinn sett inn rangt hljóð, Bessi hleypur í símann og svarar, þá byrjar píanóið að spila. Við frumsýndum þetta leikrit á Húsavík og sýndum 82 sýningar um allt land, þetta gekk rosalega vel og lengi.“

GAMLINGJARNIR AÐ KOMAST Í TÍSKU

Margrét hætti eins og áður sagði að leika og fór á eftirlaun, orðin 70 ára gömul, segist hún alveg hafa verið til í að halda starfinu áfram, þó ekki í fullu starfi.

„Ég fór á eftirlaun og fór að gera aðra hluti. Fór til Kanaríeyja í nokkra vetur, lék aðeins í kvikmyndum og Tjarnarbíói þannig að ég var ekki alveg hætt, en ekki bundin neins staðar. Ég hefði alveg viljað leika áfram, en ekki í fullu starfi, það má ekki fastráða eftir sjötugt. Ég hefði verið til í að gera meira en ég gerði, ég hefði getað komið mér á framfæri, en ég hef bara aldrei gert það, ég hef aldrei farið og beðið um hlutverk. Ég held það hafi bara allir gert ráð fyrir að ég væri hætt.“

Við ræðum aldursfordóma sem lengi hafa ríkt í leiklistinni, en virðast á undanhaldi. „Áður fyrr máttu leikkonur helst ekki vera komnar yfir miðjan aldur. Það er annað með karlana, þeir eru gjaldgengir lengur og fleiri hlutverk skrifuð fyrir þá. En þetta er nú að breytast,“ segir Margrét.

Margrét hlaut Grímuverðlaunin í fyrra fyrir hlutverk sitt í Ein komst undan. „Mér fannst mjög gaman að fá þessa viðurkenningu, ég væri að skrökva ef ég segði það ekki,“ segir Margrét, sem tók á móti verðlaununum á sviðinu í Þjóðleikhúsinu, sem hún þekkir svo vel og flutti eftirminnilega ræðu blaðlaust. Í ræðunni sagðist hún haldin svolítilli fortíðarþrá að standa á sviðinu þar sem liðin væru sjötíu ár frá því hún lék þar sitt fyrsta hlutverk. Sagðist hún einnig afskaplega þakklát Kristínu leikstjóra fyrir að hafa kallað sig á leiksviðið aftur, að þessu sinni í Borgarleikhúsinu, og fyrir einstakt og mjög gefandi samstarf. „Og svo eru það stelpurnar mínar sem léku með mér á sviðinu, eiginlega er þetta okkar allra, því það er bara samstarfið sem skiptir máli. Við studdum hvor aðra eins og við gátum og vorum alltaf samtaka og alltaf góðar vinkonur. Okkur kom alltaf mjög vel saman, fólk spyr oft um það; hvernig kom ykkur saman? Okkur kom bara mjög vel saman, það var mjög gaman hjá okkur. Svo verð ég að þakka Caryl Churchill fyrir að skrifa leikrit fyrir gamlar konur og meira að segja með því skilyrði að leikkonurnar væru allar komnar yfir sjötugt. Ætli gamlingjarnir séu ekki bara að komast í tísku? Takk fyrir mig, takk!“

Seinni maður Margrétar var Bessi Bjarnason leikari. Þau kynntust í leiklistarskólanum og urðu vinir, en urðu hjón þegar Margrét var um fimmtugt.

 „Bessi var alltaf góður vinur minn, við vorum bæði í okkar fyrsta hlutverki þegar við lékum í Litla Kláus og Stóra Kláus, hann var Litli Kláus og ég lék konuna hans,“ segir Margrét. Bæði störfuðu í Þjóðleikhúsinu, en Bessi sagði upp um sextugt samkvæmt 95 ára reglunni. „Hann var alltaf mikið notaður í leikhúsinu, eftir það var hann „freelance“ og lék í Borgarleikhúsinu og Loftkastalanum. Hann var kominn á eftirlaun, en ekki full eftirlaun þar sem hann hætti bara um sextugt í Þjóðleikhúsinu. Hann veiktist 70 ára, þá greindist Hann greindist sjötugur með Parkinson. Árið 2005 greindist hann með krabbameinsæxli og lést viku seinna. Þetta gerðist mjög snöggt og á sama tíma og ég var að hætta í leikhúsinu.“

ÞAKKAR GENUM OG LÝSINU FYRIR GÓÐA HEILSU

Margrét verður níræð 22. nóvember næstkomandi, ber aldurinn vel og er við góða heilsu og segist hún þakka fyrir það. Móðir hennar varð 82 ára og faðir hennar 92 ára. Er eitthvað sem þú telur helst að þakka fyrir góða heilsu? „Nei ég held það sé genatískt, ég hef bara lifað venjulegu lífi og tekið mitt lýsi. Ég syndi 500 metra oftast daglega og hef gert í mörg ár,“ segir Margrét. „Fólkið mitt í Borgarfirðinum varð langlíft, það er oft rok þar í Flókadalnum, þannig að ég segi að þetta sé hreina loftið. Systkini mín urðu öll rúmlega níræð og það var varla hrukka í andlitum þeirra og þau urðu ekki gráhærð. Sjálf varð ég gráhærð snemma og með fullt af hrukkum, litaði hárið en um sjötugt hætti ég því. Það var líka þegar ég var að leika þá lék ég oft niður fyrir mig í aldri og þá var hárið á mér litað.“

 

Ritstjórn maí 23, 2023 07:00