Ævar Kjartansson fyrrum dagskrárgerðarmaður

Ævar Kjartansson er einn af þeim fjölmiðlamönnum sem Íslendingum þykir þeir eiga í hvert bein, svo lengi er hann búinn að hljóma í viðtækjum okkar. En af því miðillinn sem Ævar kaus að verja starfskröftum sínum hjá er útvarp en ekki sjónvarp er það ómþýð röddin hans sem við þekkjum öll. Hann hefur þess vegna losnað við athyglina sem sjónvarpsfólk fær stundum meira en góðu hófi gegnir og hefur verið mjög sáttur við það. Ævar varð sjötugur í fyrra og er nú formlega hættur sem starfsmaður Ríkisútvarpsins. Hann er því hættur að mæta á hverjum degi til vinnu en sem betur fer hyggst hann áfram gera stöku útvarpsþætti, en þá sem verktaki. „Mér þykir mjög góð tilfinning að vera nú hættur í föstu starfi en er svo lánsamur að geta áfram gert þætti um efni sem ég hef mikinn áhuga á, það er mikið lán,“ segir Ævar.

Ævar og eiginkona hans, Guðrún Kristjánsdóttir myndlistarmaður, eru búin að koma sér upp aðsetri á Skarðsströnd þar sem þau hyggjast verja nokkrum tíma í framtíðinni. „Við keyptum jörðina Heinaberg vestur á Skarðsströnd með syni okkar og tengdadóttur, en jörðin fór í eyði 1972. Þar erum við „gömlu hjónin“ að byggja hús með vinnustofu svo Guðrún geti haldið áfram að mála,“ segir Ævar. „Ég er sjálfur upptekinn af því að koma mér upp nýrri rútínu á þessum nýja stað okkar. Ég leitaði ráða varðandi það í smiðju nágranna okkar þarna í sveitinni, Sumarliða R. Ísleifssonar sagnfræðings. Ævar er alinn upp á Grímsstöðum á Fjöllum. Hann átti heima þar allt þar til hann fór að sækja skóla svo leiða má að því líkum að einveran á Heinabergi kalli fram góðar minningar frá æskuárunum í einangruninni á Grímsstöðum.

Ævar spurði Sumarliða hvernig honum gengi að skipta tíma sínum á milli þess að sinna fræðunum og hins að sinna ræktun og ýmsu öðru á staðnum. „Sumarliði sagði mér að hann skipti deginum nákvæmlega upp þannig að hann sæti að fræðistörfum alla morgna og klukkan tvö færi hann í vinnugallann og út að vinna. Ég ætla að taka Sumarliða nágranna minn mér til fyrirmyndar og stefni að slíkri skiptingu á milli þess að leika bónda og sinna einhvers konar fræðistörfum,“ segir Ævar og er hæstánægður með þetta nýja hlutverk í lífinu.

Ævar segir að þau hjónin séu nú að finna taktinn í því hvernig þau skipta tíma sínum milli Heinabergs og Reykjavíkur. „Kannski eftir árstíðum eða bara eftir því hverju andinn blæs okkur í brjóst. Ég reikna nú með að við munum eiga athvarf í Reykjavík en dvelja mikið að Heinabergi.“

Sonur þeirra Ævars og Guðrúnar sá jörðina Heinaberg á Skarðsströnd til sölu fyrir þremur árum. „Þar var illa farinn húsakostur en útsýnið stórkostlegt. Við Guðrún ákváðum að slá til og taka þátt í þessu ævintýri með þeim, og erum nú að byggja þar vinnustofu og íbúð inni í gamalli hlöðutóft,” segir Ævar. “Timburhús var sem sagt byggt inni í tóftinni. Við fengum arkitekt „af næsta bæ“ Sigrúnu (Studio Bua) dóttur þeirra Sumarliða og Þóru á Níp, til að teikna húsið fyrir okkur og vorum við heppin bæði með þau og iðnaðarmennina sem allir komu úr héraðinu.  Þeirra á meðal var nágranni okkar í Ytri-Fagradal, Guðmundur Gíslason „þúsundþjalasmiður“ og kona hans Halla Steinólfsdóttir sem tóku vel á móti okkur og hafa reynst okkur afar vel.“

Ævar fór ungur í stjórnmálafræði í Háskóla Íslands þar sem hann tók m.a. kúrsa hjá Ólafi Ragnari Grímssyni og fleirum. „En svo greip ég til þess ráðs þegar ég var fimmtugur að láta gamlan draum rætast og settist í guðfræði,“ segir Ævar. „Það var mjög snjall leikur hjá mér því þótt ég sé ekki mikill trúmaður og hafi ekki farið út í það að gerast prestur hef ég þarna mjög gott veganesti inn í efri árin sem er þessi skemmtilega fræðigrein sem guðfræðin er. Þar á ég margar bækur ólesnar.“

Ævar segist halda að ef þeir sem fara á eftirlaun eru ekki búnir að koma sér upp vissum ramma í deginum geti farið illa. Ef maður nær ekki að tengja daglega rútínu við áhugamál geti orðið mikið tómarúm í lífi manns. „Þess vegna er ég mjög upptekinn af því að búa mér til ramma eins og Sumarliði gerir,“ segir Ævar og brosir.

„Kóvíd tíminn hefur að mörgu leiti verið dásemdartími,“ segir Ævar. „Þessi tími gaf okkur færi á að taka okkur sjálf svolítið í gegn því maður hætti að fara á sýningar og tónleika og annað sem menningin hefur upp á að bjóða. Þá varð þörfin mjög brýn að taka fast utan um hvunndaginn.”

Ævar og Guðrún stefna á að rækta grænmeti og veiða fisk á þessum nýja íverustað. „Við ætlum líka að fara að æfa okkur í kajaksiglingum í þessari paradís sem Breiðafjörðurinn er. Við erum svolítið sein að gera þessar breytingar í lífi okkar en ég er mjög upptekinn af því að yfirvinna þá hugsun að það taki því ekki að gera hlutina, því ævin styttist í annan endann. Það er mikil gæfa að geta gert svona í samvinnu við börnin sín og er í raun gersamlega ómetanlegt,” segir Ævar og er sáttur við nýtt hlutskipti í lífinu.

 

Sólveig Baldursdóttir, blaðamaður Lifðu núna skrifar.

Ritstjórn febrúar 10, 2021 07:54